Gamla myndin: Útvegsbankahúsið

Gamla myndin: Útvegsbankahúsið Laugardaginn 19. október 1946 voru fánar dregnir að hún á nýbyggingu á horni Aðalgötu og Túngötu á Siglufirði,

Fréttir

Gamla myndin: Útvegsbankahúsið

Útvegsbankahúsið á Siglufirði
Útvegsbankahúsið á Siglufirði

Laugardaginn 19. október 1946 voru fánar dregnir að hún á nýbyggingu á horni Aðalgötu og Túngötu á Siglufirði, við svonefnt Ráðhústorg. Tilefnið var að búið var að reisa húsið og þeim sem að verkinu stóðu var boðið til svonefndra risgjalda, en slík athöfn var nú oftar nefnd reisugildi.

Byggingafyrirtækið Sveinn og Gísli hf. var að byggja þetta hús fyrir Útvegsbankann. Sama dag var fagnað hliðstæðum áfanga í byggingu verkamannabústaðanna þriggja við Hvanneyrarbraut. Morgunblaðið sagði að vinna við allar þessar framkvæmdir hefði hafist í maí þetta vor, en þá var fyrirtækið stofnað. Þá voru byggingameistararnir Sveinn Ásmundsson og Gísli Þorsteinsson að ljúka við að byggja hús Verslunarfélagsins við Túngötu 3, en þeir teiknuðu það hús. Þeir ráku trésmíðaverkstæði norðarlega við Túngötu (þar sem listakonan Fríða hefur nú aðstöðu).

Óskar Sveinsson byggingaiðnfræðingur teiknaði Útvegsbankahúsið. Helgi Hafliðason arkitekt, sem hefur kynnt sér upprunalegu teikningarnar, segir að Óskar hafi unnið um skeið hjá Húsameistara ríkisins og að nafn hans sé á nokkrum teikningum frá embættinu, meðal annars af Sundlauginni á Siglufirði og Barnaskólanum í Ólafsfirði. Óskar mun hafa teiknað Bíóhöllina á Akranesi og fiskiðjuver þar í bæ. Hann var fæddur á Steinaflötum í Siglufirði árið 1916 og lést árið 1960, 44 ára. Meðal systkina Óskars voru tvíburabræðurnir Sigurjón Sveinsson arkitekt og Helgi Sveinsson íþróttakennari.

Útvegsbankinn hafði tekið til starfa í húsi Péturs Björnssonar við Grundargötu 1. júlí 1938. Hús bankans við Aðalgötu 34 mun hafa verið tekið í notkun á árunum 1947 og 1948. Það var um 4.000 rúmmetrar og kostaði á annað hundrað þúsund krónur. Auk bankaútibús hýsti það verslanir og skrifstofur ýmissa fyrirtækja. Á tíu ára afmæli útibúsins, sumarið 1948, var sagt í Siglfirðingi að bankinn hefði safnað í sjóð fyrir byggingunni og ekki þurft að draga úr útlánum hennar vegna. Eins og nafnið bendir til lánaði bankinn einkum til útgerðarmanna og síldarsaltenda en „öll þessi ár hefur útibúið ekki tapað einum einasta eyri á útlánum til útvegsins,“ sagði blaðið.

Sveinn Ásmundsson var fæddur á Skaga árið 1909 og lést 1966, aðeins 56 ára. Hann lærði trésmíði á Siglufirði og setti mikinn svip á bæinn á sínum tíma. „Sveinn gekk aldrei, hann skundaði,“ sagði í minningargrein. Eftir að Sveinn flutti frá Siglufirði, um 1953, byggði hann sjúkrahús á Blönduósi, Sauðárkróki og Húsavík og félagsheimili á Blönduósi.

Gísli Þorsteinsson var fæddur á Látraströnd við Eyjafjörð árið 1911 og lést 1995, 83 ára. Á síðari hluta starfsferils síns var Gísli bæjarverkstjóri. Hann tók mikinn þátt í félagslífi bæjarins, þar á meðal í starfi Leikfélags Siglufjarðar.


Útvegsbankahúsið í byggingu. Utan á mjólkurbúðinni vinstra meginn við bankann stendur: „Mjólk í glösum.“ Kaupfélagið er lengst til hægri. Rafmagnsleiðslur voru greinilega ekki lagðar í jörðu á þessum árum. Í hringglugganum efst á suðurhliðinni átti að vera klukka, samkvæmt upprunalegu teikningunum. 

 

Texti: Jónas Ragnarsson.

Mynd: Kristfinnur Guðjónsson, Ljósmyndasafn Siglufjarðar.




Athugasemdir

03.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst