Kuldarnir í Evrópu og Norður-Atlantshafssveiflan

Þetta
tvípóla einkenni er einmitt Norður-Atlantshafssveiflan, líka
þekkt undir skammstöfuninni NAO. Mælikvarði á hana er
einfaldur. Loftþrýstingsmunur á milli Azoreyja og Íslands gefur
til kynna styrk vestanáttarinnar. Þegar hann er neikvæður er
slíkt oft til vitnis um stíflur í loftstraumnum. Það ástand hefur varað
samfellt frá því snemma í desember eins og meðfylgjandi súlurit sýnir
glöggt. Spá næstu 10 daga (að ofan) gefur til kynna að neikvætt útslag á
NAO sé heldur á undanhaldi. Í þessari bandarísku spá er NAO yfirfærður á
stöðu hálofta í 500 hPa fletinum sem eru í tilviki NAO í ágætu samræmi
við þrýstifarið við yfirborð.
Ef þessi
ósköp hefðu ekki dunið yfir einhvern tímann snemma á aðventunni, hefði
líkast til ekki gert þessa vetrarveðráttu t.d. á Bretlandi.
Eins og með eldfjöllin okkar sum hver sem sagt að séu komin á tíma, má
segja að löngu hafi verið orðið tímabært að fá vetur með alminnilega
neikvæðu útslagi á NAO. Sjá má á súluritinu að ár með jákvæðu sem og
neikvæðu útslagi koma dálítið í syrpum með ákveðnum útúrdúrum þó.
Þessar lengritíma sveiflur tengjast aftur AMO (Atlantic Meridional
Oscillation) og gerð var að umtalsefni sl. haust hér. Samhengi
þessara sveiflna í hafi og lofti og samspil þeirra er að mínu mati eitt
merkilegasta rannsóknarefni sem veðurfræðingar og loftslagsfræðingar
fást við um þessar mundir.
En aftur að NAO,
Norðuratlandshafssveiflunni. Hún er síður en svo nýuppgötvuð. Á
18.öld þegar Litla-Ísöldin var í algleymi, jöklar æddu hér fram og
landfastur hafís var hversdagsleiki tíðafarsins þá sá dansk/norskur
trúboði og prestur, Hans Egede Saabye að veðurfar á Grænlandi
virtist vera í mótfasa við tíðarfarið heima í Danmörku. Hans Egede
sagði frá þessu í dagbókum sínum og í lýsingu sinni á náttúrufari
Grænlands 1818. Um svipað leyti, eða heldur fyrr var prentuð í
Þýskalandi tafla unnin upp úr veðurdagbókum m.a. frá Þýskalandi og
Grænlandi þar sem athygli var vakin á þessum sömu atriðum.
Dæmi eru frá árinu 1709 þegar veturinn þótti sérlega mildu á V-Grænlandi á sama tíma og veturinn var með afbrigðum kaldur í Þýskalandi. 1756 var hið gagnstæða, ákaflega blíður vetur í Þýskalandi, en frosthörkur með harða móti á Grænlandi.
Gaman er að sjá hvað íslenskar heimildir segja um þessa tvo vetur. Þorvaldur Thoroddsen segir Árferði á Íslandi um veturinn 1709."Góðviðrishláka á nýársdag. Vetur upp þaðan allgóður hvarvetna með hægum frostum og án jarðbanna...Vorið gott frá sumarmálum og snemmgróið." Og um veturinn 1756: "Sá vetur var mjög harður frá nýári, helst fyrir norðan og austan land með kaföldum, frostum og umhleypingum, fannkomum miklum og jarðbönnum, og hlánaði aldrei til krossmessu [þ.e. 3.maí]. "
Þessa tvo tilteknu vetur virðist Ísland frekar hafa fylgt Grænlandi en
meginlandi Evrópu. Hvað hitafarið varðar erum við mitt á milli eins og
meðfylgjandi kort sýnir um fylgni hita við NAO. Ekki fer á milli mála að
V-Grænland og N-Evrópa eru andstæðir pólar hvað hitafar varðar og hér
er sérstaklega miðað við des til feb.
Þegar Norðuratlastshafssveiflan er í neikvæðum fasa er líklegast að hér sé á sama tíma annað hvort með afbrigðum hlýtt (stöðugar S-áttir) eða kalt (heimskautaloft með N-átt.) Á því eru ýmis tilbrigði og frávik sem gaman væri að fjalla sérstaklega um. En mun erfiðar hefur reynst að tengja hitafar hér við NAO heldur en í t.d. á Grænlandi. Það er betra samband aftur á móti við úrkomu, svo ekki sé talað um vind eða tíðni storma sem stendur í sambandi við lágan meðalloftþrýsting, sem er aftur forsenda fyrir jákvæðum fasa á NAO.
Athugasemdir