Nú verður blásið í herlúðra

Nú verður blásið í herlúðra Já nú verður aldeilis blásið í herlúðra. Það er af sem áður var þegar fjöldi manns kom og tók þátt. Áhuginn var gífurlegur og

Fréttir

Nú verður blásið í herlúðra

Mynd fengin að láni.
Mynd fengin að láni.

Já nú verður aldeilis blásið í herlúðra. Það er af sem áður var þegar fjöldi manns kom og tók þátt. Áhuginn var gífurlegur og færri komust að en vildu..........

Reyndar eru þessi fyrirsögn og inngangurinn aðalega gerð til að blöffa þig til þess að smella á "sjá meir " og halda áfram að lesa.

Það er nefnilega fyrsta Karlakórsæfingin á þessum vetri einmitt í dag kl. 19:45 í Tónskólanum á Siglufirði.

Hér er svo smá dæmisaga um inngöngu mína í Karlakórinn sem verðandi Karlakórsmenn þurfa eiginlega að lesa.

Síðasta vetur fékk ég tilkynningu sem ég átti að setja inn á Siglo.is þar sem var verið að segja frá því að Karlakór Fjallabyggðar ætlaði að koma saman aftur eftir þónokkurt hlé og áhugasamir söngelskir menn hvattir til að mæta.

Eitthvað ræddi ég þetta við hann vin minn Skarphéðinn Fannar sem var ansi hreint heitur á því að mæta og taka eina til tvær aríur þá um kvöldið en þó var hann ekki alveg viss hvort hann hefði tíma í þetta. Ég var að verða alveg jafn snarspenntur og hann og ákvað að kýla á þetta ef hann kæmi líka. Við svona spögguleruðum í þessu það sem eftir lifði dags og svo vorum við svona báðir cirka 90% á því að mæta til hans Ella í Gautum í prufu þá um kvöldið. En þegar klukkuna vantaði hálftíma í fyrstu æfingu var Skarphéðinn ræstur út í vinnu.

Nú voru góð ráð alveg hreint rándýr en eins og svo oft þegar ég tek mínar laang-beztu ákvarðanir þá hljóp ég upp stigann í Tónskólanum á Siglufirði alveg hugsunarlaust. Ég man það að ég hugsaði með mér þegar ég kom inn um hurðina "jæja, þetta verður bara eins og í gamla daga fyrir prufur til að komast í barnakórinn, bara eitt örstutt tóndæmi fyrir Elías, Elías segir manni svo bara að fara heim og einbeita sér að einhverju öðru, ég væri þó allavega búin að prufa". 

Ég kem inn í sal tónskólans þar sem ég var boðin hjartanlega velkominn, líklega hafa þeir haldið að ég væri bara komin til að taka myndir og skrifa smá pistil um karlakórinn, en það var nú alveg hreint allt öðru nær. Ég tilkynnti að mig langaði til þess að prufa að vera í karlakór og hvort það væri ekki alveg örugglega hér sem prófið færi fram. Svo væri ég líka búin að heyra að Karlakórinn væri svo moldríkur að ég gæti hreinlega bara ekki sleppt þessu tækifæri og þá sérstaklega ef það yrðu þó einhverjar skemmtilegar menningarferðir í boði.

Elías og fjélagar bjóða mig semsagt hjartanlega velkominn, og það þyrfti bara að gera smá prufu. "Aaaahaaa" hugsaði ég með mér " og þá verður mér hent heim strax eftir það". Ég gekk upp á efri hæð með Elíasi, og hann segir mér á leiðinni upp að þetta verði mjög fljótlegt. Svo komum við inn í píanóherbergið, Elías sest við píanóið og segir "þú fylgir mér bara". Á þessum tímapunkti skaut því í kollinn á mér að ég gæti þó hugsanlega orðið rótari hjá þeim ef prufurnar færu út um þúfur. Svo byrjaði hann að spila og trallaði með og ég trallaði með. Svo hættir hann að spila og tralla og segir "Já heyrðu, þú ert bara 1. tenór".  Ég var nú ekki alveg svona viss um hvað það þýddi alveg akkúrat þá stundina, enda hef ég ekki komið nálægt mússík síðan ég hætti í blokkflautu náminu á sínum tíma,  þannig að ég sagði " Já ok, og á ég þá bara að fara að rölta heim núna?".  "Neinei" segir Elías, "þú kemur á æfinguna og ert kominn í Kórinn".  Ég get svo svarið það að ég hefði ekki orðið meira hissa þó að hann Elías, þessi öðlingur hefði staðið upp og hreinlega kýlt mig. "Ha" sagði ég, "Bíddu, náði ég þessu prófi þá, ertu ekki eitthvað að ruglast núna Elías, eigum við að prufa aftur (ég hélt hreinlega að það væri að "slá útí" fyrir honum)??". Elías sagðist ekkert vera að ruglast, þyrfti ekki að prufa aftur og við ættum bara að koma niður aftur og byrja æfinguna. Ég leit í kring um mig til að leita af mér allan grun um að ég sæi engar myndavélalinsur og falda hljónema. 

Á niðurleiðinni hugsaði ég meira að segja "á ég að trúa því að hann Skarphéðinn vinur minn hafi virkilega náð að plata mig í einhverja fjandans falda myndavélapælingu í boði Karlakórs Fjallabyggðar". En áfram gengum við niður, og ég var eitthvað örlítið á undan Elíasi og einhver spurði, "og hvernig gekk?". "Ég veit það ekki svaraði ég, hann sagði bara að ég væri 1. tenór og kominn í kórinn". Mér fannst furðumargir fara að hlæja og einhverjir sögðu "nei, svona í alvöru, hvað sagði Elías?". En þegar Elías kom niður náði hann að sannfæra þá um að þetta væri virkilega rétt og þá fyrst fór ég að trúa því að ég hefði komist í kórinn og engin falin myndavél. Síðan að þetta gerðist hef ég víst náð að hjálpa þessum 1. tenórum sem eru í Kórnum alveg ótrúlega mikið. Aðalega felst sú hjálp þó í því að þeir þurfa að hafa sig alla við með því að yfirgnæfa óhljóðin í mér þó svo að ég hreyfði bara varirnar og þar af leiðandi er það mikil raddæfing fyrir þá.

Ég ætla nú að fara að hætta þessu 1. tenóra grobbi og biðja þá sem hafa gaman að söng að koma á fyrstu æfinguna í kvöld. Ég skal lofa þér því að fyrst að ég komst inn þá eiga mjög margir möguleika. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að þú þurfir að syngja einsöng fyrir framan 20-30 karla á fyrstu æfingu. Ég hreyfði meira að segja bara varirnar allan síðasta vetur, ég kom ekki upp hljóði. 

Einhverjir ungir menn (þeir vita hverja ég er að meina þegar þeir lesa þetta) hafa boðað komu sína á æfingu í kvöld, og nú er bara að sjá hverjir eru alvöru Karlmenn og tilbúnir í það að vera í Karlakór og hverjir eru mýs.

Tra-laallll-laaaalll-laaaaaa-laaaaaa

 

Jón Hrólfur.

 

 

 

Æfingar hefjast hjá Karlakór Fjallabyggðar í dag mánudaginn 19. okt. kl. 19:45 í Tónskólanum á Siglufirði.


Athugasemdir

09.október 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst