Auglýsingar RÚV takmarkaðar og ríkissjóður kaupir útvarpshúsið við Efstaleiti

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að svokallaður nefskattur, sem kemur í stað afnotagjalda, renni beint í ríkissjóðs. Í sérstökum þjónustusamningi milli RÚV og ríkisins verði tekjur tryggðar. Nefskatturinn verður 17.900 krónur og þurfa þeir einstaklingar sem nú greiða í framkvæmdasjóð aldraðra að greiða nefskattinn sem og þeir lögaðilar sem eru skattskyldir og bera sjálfstæða skattaðild. Alls er talið að fjöldi gjaldenda sé um 205 þúsund.
Verulegar takmarkanir
Verulegar skorður verða settar á auglýsingar og kostun dagskrárefnis í Ríkisútvarpinu nái frumvarp menntamálaráðherra fram að ganga.
- Skorður verða settar við auglýsingum sem hlutfall af daglegum útsendingartíma. Á kjörtíma sem er frá kl. 19-22, skal hlutfallið ekki vera hærra en 5%. Á öðrum útsendingartímum getur hlutfall auglýsinga orðið 10%.
- Sett verður hámark fyrir órofinn samfelldan auglýsingatíma. Auglýsingatími má ekki fara yfir 200 sekúndur og fjöldi auglýsingatíma má ekki fara yfir tvo á klukkustund.
- RÚV verður óheimilt að rjúfa dagskrárliði, sem eru styttri en 45 mínútur, með auglýsingum.
- Bann verður lagt við birtingu auglýsinga á útsendingartíma barnaefnis, sem og tíu mínútum fyrir og eftir útsendingu barnaefnis.
- Óheimilt verður að afla tekna með kostun, nema um sé að ræða stórviðburði samkvæmt skilgreiningu í þjónustusamningi. Sérstakar reglur verða settar um kostun í þjónustusamningi milli ríkis og RÚV.
- RÚV verður óheimilt að afla tekna með vöruinnsetningu, þ.e. að semja við framleiðendur vöru og þjónustu um óbeina kynningu á vörum þeirra eða þjónustu með innsetningu þeirra í sviðsmyndir og hvers konar umfjöllun sem kann að hafa markaðslegt gildi.
Athugasemdir