Ráðherra kynnir breytingar í heilbrigðisþjónustunni
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að skipulagsbreytingarnar byggist á vinnu sem farið hefur fram á vegum heilbrigðisráðuneytisins
undanfarna mánuði, eða frá því ný lög um heilbrigðisþjónustu tóku gildi haustið 2007.
„Með skipulagsbreytingunum hyggst ráðherra ná fram hagræðingu í rekstri heilbrigðisstofnana víðs vegar um landið og treysta um leið undirstöður grundvallarstarfsemi heilbrigðisþjónustunnar," segir í tilkynningunni.
„Breytingarnar hafa verið unnar í samráði við stjórnendur stofnananna sem þær taka til og meginmarkmið þeirra hafa verið kynnt
starfsmönnum viðkomandi stofnana. Á næstu dögum verður unnið með stjórnendum stofnana að útfærslu breytinganna hvað varðar
tilfærslur verkefna og starfsfólks. Þetta verður gert í vinnuhópum sem skipaðir verða úr hópi stjórnenda stofnananna og skila
þeir útfærslu sinni til ráðherra fyrir 19. janúar 2009," segir einnig.
Megin breytingarnar verða þessar að því er varðar spítalarekstur á Höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess:
St. Jósefsspítala-Sólvangi verður alfarið falið hlutverk á sviði öldrunarlækninga og hvíldarinnlagna
Sérfræðingum og fagfólki, sem þar hafa gert skurðaðgerðir, verður boðin aðild að því að byggja upp skurðstofurekstur
í nýrri aðstöðu á Suðurnesjum
Meltingasjúkdóma - og lyflækningadeild verður tengd starfsemi á Landspítalans og hin góða reynsla af göngudeildarstarfsemi á St.
Jósefsspítala þróuð með sérfræðingum þaðan
Landspítalinn mun yfirtaka skurðstofurekstur á Selfossi
Vaktir á skurðstofum á Selfossi og í Keflavík verða lagðar af
Þá segir að breytingarnar á landsbyggðinni feli í sér verulega einföldun stjórnsýslu stofnana með sameiningu þeirra og ákvörðun um stóraukna samvinnu þeirra. Er þetta meðal annars gert í framhaldi af setningu nýrra laga um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi fyrir rúmu ári.
Þetta eru helstu breytingarnar á landsbyggðinni:
Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi verða sameinaðar í eina undir forystu Sjúkrahússins á Akureyri, sem
verður Heilbrigðisstofnun Norðurlands og mun m.a. taka við hlutverki ráðuneytisins varðandi samning um heilsugæsluna á Akureyri
Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Vesturlandi verða sameinaðar í eina með höfuðstöðvar á Akranesi
Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja verður sameinuð Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem jafnframt tekur við umsjón með samningi sem í gildi er milli
Heilbrigðisstofnunarinnar á Höfn í Hornafirði og heilbrigðisráðuneytisins
Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði sameinast Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sem hefur höfuðstöðvar á Ísafirði
Aukið verður enn frekar samstarf milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og sjúkrahússins á Akureyri
„Einfaldari stjórnsýsla, hagkvæmari rekstur og aukin samvinna stofnanna er talin geta dregið verulega úr útgjaldaaukningunni sem er staðreynd
varðandi þær stofnanir sem hér eiga í hlut, en markmið breytinganna er að slá skjaldborg um og tryggja kjarnastarfsemi þessara mikilvægu
stofnana á sviði heilbrigðismála á erfiðum tímum," segir að lokum í tilkynningunni frá ráðuneytinu.
Athugasemdir