Sparisjóðirnir með ánægðustu viðskiptavinina 10 ár í röð
visir.is | Fréttir á landsvísu | 04.03.2009 | 11:12 | | Lestrar 204 | Athugasemdir ( )
Viðskiptavinir sparisjóðanna eru ánægðustu viðskiptavinir íslenskra fyrirtækja samkvæmt niðurstöðum mælinga Íslensku ánægjuvogarinnar sem kynnt var í morgun. Vörumerki sparisjóðanna, Sparisjóðurinn, Byr og SPRON raða sér í þrjú efstu sætin í hópi fjármálafyrirtækja og er þetta 10. árið í röð sem sparisjóðirnir hreppa þá viðurkenningu. Í tilkynningu um málið segir að vaxandi ánægja er með þjónustu sparisjóðanna á milli ára en að sama skapi hafa bankarnir fallið í áliti í kjölfar hruns þeirra í haust.Að Íslensku ánægjuvoginni standa Stjórnvísi, Samtök iðnaðarins og Capacent. Íslenska ánægjuvogin hefur gert mælingar á ánægju viðskiptavina fjármálafyrirtækja allt frá árinu 1999 eða í áratug. Sparisjóðirnir hafa ævinlega lent ofar bönkunum í þessari mælingu en munurinn ekki verið ýkja mikill á milli þeirra. Nú bregður svo við að ánægja með þjónustu sparisjóðanna eykst á milli áranna 2007 og 2008 en ánægja með þjónustu bankanna þriggja fellur verulega í kjölfar hruns þeirra sl. haust. Að sögn Gísla Jafetssonar hjá Sambandi íslenskra sparisjóða er þetta afar kærkomin viðurkenning á því starfi sem unnið er hjá sparisjóðunum í landinu. „Mér hefur alltaf verið ljóst að fólk kann vel að meta þá góðu og persónulegu þjónustu sem starfsfólk sparisjóðanna veitir. Okkar viðskiptamenn eru ánægðir með að sparisjóðirnir hafa lagt áherslu á að sinna fyrst og fremst einstaklingum og fyrirtækjum á heimamarkaði," segir Gísli.Í kjölfar þessarar viðurkenningar munu sparisjóðirnir á Íslandi standa að kynningarátaki næstu vikur þar sem athygli verður vakin á þeim gildum sem sparisjóðirnir standa fyrir og hlutverki sparisjóðanna í íslensku samfélagi.
Athugasemdir