Heim í Landmarkshúsiđ

Heim í Landmarkshúsiđ Sterk átthagatengsl okkar Siglfirđinga eru ţekkt fyrir ađ ná út fyrir öll landamćri og á ţađ svo sannarlega viđ um Ómar

Fréttir

Heim í Landmarkshúsiđ

Ómar Ingimundarson
Ómar Ingimundarson

Sterk átthagatengsl okkar Siglfirðinga eru þekkt fyrir að ná út fyrir öll landamæri og á það svo sannarlega við um Ómar Ingimundarson. Ómar er fæddur hér á Siglufirði árið 1946 og voru foreldrar hans Ingimundur Sæmundsson og Ester Landmark. Ólst hann upp að Hafnargötu 10 eða svokölluðu Landmarkshúsi.

Sautján ára gamall fór Ómar til Noregs í lýðháskóla og kynntist þar tilvonandi eiginkonu sinni Åse. Kom hann heim eftir eins árs dvöl í Noregi og hóf að vinna við ýmis störf eins og t.d. sjómennsku.  Ekki leið á löngu þar til hin norska blómarós kom á eftir honum til Íslands og hóf að vinna sem innkaupastjóri hjá versluninni Ellingsen. Eftir um tveggja ára dvöl hér heima vildi Ómar mennta sig frekar og fluttu þau Åse aftur út til Noregs. Hóf hann nám í auglýsingateiknun og starfar enn í dag við auglýsingar og markaðssetningu hjá Trønder-Avisa.


Ómar Ingimundarson við æskuheimilið

Þau hjónin búa í bænum Steinkjer í Norður-Þrændalögum og eiga eina dóttir og dótturson, von er á öðru barnabarni innan tíðar. Åse sem talar prýðisgóða íslensku segir mér að dóttur þeirra tali góða íslensku og kenni syni sínum málið. Strákurinn er afar stoltur af sínum íslenska uppruna og þakkar þann fjórðung góðu gengi sínu í íþróttum.


Åse Ingimundarson

Ómar og Åse hafa alltaf haft sterk tengsl við Ísland og fyrir um 12 árum síðan festu þau kaup á æskuheimili Ómars af Síldarminjasafninu. Móðir Ómars bjó þá enn í risinu og var húsið vægast sagt mjög illa á sig komið. Hélt varla vatni né vindum svo það var mikið verk framundan hjá þeim að koma því í gott stand. Síðan hefur nánast allur þeirra frítími og sparifé farið í uppbyggingu Landmarkshússins og hafa þau systir Ómars og mágur Svava og Thorbjorn einnig unnið við það sem eigendur efstu hæðarinnar. Er Hafnargata 10 orðin hin mesta bæjarprýði.


Thorbjorn mágur Ómars að bjóða gestunum upp á Íslenskar pönnukökur

Landmarkshúsið var upphaflega byggt af afa Ómars honum Jóhanni Landmark sem kom ungur að árum frá Noregi til að smíða síldarbryggjur og verksmiðjur þegar síldarævintýrið var að hefjast. Jóhann kynntist ungri stúlku að nafni Valgerður og byggðu þau Landmarkshúsið í kringum 1913. Eignuðust þau hjónin síðan eina dóttur hana Pedru Landmark sem bjó lengi vel á Ráeyri og tóku einnig í fóstur Ester Landmark móðir þeirra Ómars og Svövu.


Systkinin Svava og Ómar

Í gegnum árin hafa Ómar og Åse ræktað Íslensku ræturnar með tíðum ferðum hingað heim og oftar en ekki tekið með sér vini og kunningja til að kynna fyrir þeim landið. Fyrir þremur árum síðan ákváðu þau að fara að bjóða Norðmönnum upp á hópferðir þar sem engu er til sparað og stofnuðu fyrirtæki um reksturinn sem þau nefna Kjentmann Omar.  Eins og þau segja sjálf er þetta hugsjón og leggja áherslu á það besta í þjónustu. Markhópur þeirra eru rosknir Norðmenn sem langar að sjá eitthvað annað en almennt er í boði fyrir hópferðir í Noregi. Þau koma tvær ferðir á ári, að vori og hausti með um 20 farþega og leggja mikla vinnu í undirbúning svo ferðin verði sem mesta upplifun fyrir viðskiptavinin. Auðvitað er Siglufjörður aðal viðkomustaðurinn og stoppa þau ávalt hér í tvo daga til að sýna það markverðasta í firðinum fagra og nærsveitum.


Ómar að lýsa hvernig umhorfs var fyrir breytingar, húsið hélt hvorki vatni né vindum


Landmarkshúsið er hið skemmtilegasta jafnt að innan sem utan eftir breytingarnar


Ómar og Åse leigja út íbúðina yfir sumarmánuðina


Lóðin er falleg og vel við haldið af þeim Svövu og Thorbjorn.
Hluti af trjágróðrinum var plantað er húsið var byggt


Ferðalangarnir að leggja á stað austur fyrir land

Myndir og texti: Kristín Sigurjónsdóttir


Athugasemdir

22.maí 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörđur
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgiđ okkur á Facebook eđa Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst