Hér vil ég deyja

Hér vil ég deyja Siglfirðingurinn Guðni Gestson er fæddur þann 5. mars 1928 í Brandarhúsinu. Hann er sonur hjónanna Rakelar S. Pálsdóttur og Gests

Fréttir

Hér vil ég deyja

Guðni Gestsson
Guðni Gestsson

Siglfirðingurinn Guðni Gestson er fæddur þann 5. mars 1928 í Brandarhúsinu. Hann er sonur hjónanna Rakelar S. Pálsdóttur og Gests Guðjónssonar og er þriðji í röð fimm systkina, þeirra Sjafnar, Páls, Birgis og Sævars. Af systkinahópnum eru þeir tveir á lífi, Guðni og Sævar.

Guðni bjó á Siglufirði og kvæntist Jónínu Egilsdóttur. Áttu þau saman fjögur börn, þau Rakel sem lést aðeins 10 ára að aldri, Gest sem starfar sem hljómlistamaður, Hrafnhildi starfandi sundlaugarvörð og Egil sem er sálfræðingur og búsettur í Bandaríkjunum. Barnabörnin eru sjö og eitt langafabarn.

Jónína lést langt um aldur fram árið 1987 eftir veikindi og var Guðna mikill harmdauði. Hafði Jónína fengið lömunarveikina þegar börnin voru lítil og lamast alveg í fótum. 
Var hún að heiman í ár eftir veikindin á sjúkrahúsi en ákvað þá að nú væri nóg komin og vildi ná barnahópnum saman sem voru hjá vandamönnum á meðan Guðni var til sjós. Náði hún að halda heimili og sagði Guðni mér það að hún lét lamaða fætur ekki aftra sér frá því að gera heimilisverkin, notaði mikið hyggjuvit og dugnað til allra verka. Til dæmis gekk með veggjum og skúraði sitjandi. Hún náði að lokum þeim bata að geta gengið óstudd og telur hann að það hafi verið kraftaverki líkast.


Guðni með eiginkonu sinni Gwen Gestsson

Guðni hafði lengi gengið með þann draum að halda til Bandaríkjanna og veiða þar King Crab. Eftir lát Jónínu ákvað hann að láta þann draum rætast og flutti búferlum þangað árið 1988.

Áður en langt um leið kynntist hann þar bandarískri konu að nafni Gwen og felldu þau hugi saman. Festu þau kaup á landspildu á eyju sem nefnist Wipthty Island stutt frá Seattle og byggðu sér þar hús. Kvæntist hann Gwen og unnu þau hag sínum vel á þessari fallegu eyju.
Komu þau saman til Íslands og heillaðist hún mjög af landi og þjóð, fannst henni maturinn alveg sérstaklega góður og nefndi það við Guðna í vélinni á leiðinni heim að hér gæti hún alveg hugsað sér að búa ef það væri aðeins hlýrra loftslag.
Stuttu seinna skall aftur yfir Guðna það reiðarslag að verða ekkill, Gwen lést aðeins 11 mánuðum eftir brúðkaupið.


Þarna eru þeir saman Siglfirðingarnir og nágrannarnir Guðni og Jóhann Sigurjónsson í Seattle með sonum sínum árið 1991

Eftir það áfall lagðist hann í sjómennsku í Alaska næstu 6 árin en hélt heimili í Wipthty Island.
En þá hittir hann fyrir konu sem er frá Tælandi sem var þá gestkomandi í Bandaríkjunum. Eftir millilanda tilhugarlíf flytur Guðni til Bangkok og giftist þar Noi heitkonu sinni.
Í Tælandi hafði Guðni það mjög gott og sagði að þar hafi verið æðisgengið að búa, svo auðvelt í alla staði. Bjó hann þar í alls 13 ár en þá fór heimþráin að sækja á hann.

Tók hann þá ákvörðun að flytja aftur heim og eyða ævikvöldinu hér í firðinum sínum fagra. Eins og hann sagði, kem heim til að deyja en ætla að sjá næsta sólmyrkva sem verður 2020. Ekki voru þessi umskipti honum alltaf auðveld eins og að fara úr glæsilegu 240 m2 einbýlishúsi í 29 m2 herbergi í Skálahlíð. Það fannst honum erfitt og oft var hann kominn að því að fara aftur út en starfsmenn og fólkið í kringum hann var yndislegt og gerði það að verkum að hann ákvað að verða um kyrrt. Guðni er enn kvæntur Noi Gestsson sem er sjötug og býr hún enn í glæsilegu húsi þeirra í Bangkok.

 
Noi Gestsson á brúðkaupsdaginn

Guðni er alveg ótrúlega hress og engan vegin hægt að skynja að þarna er á ferðinni 88 ára gamall maður. Hann er hraustur að upplagi og hefur aldrei þurft á neinum lyfjum að halda fyrir utan náttúrulyf sem hann notar við slæmsku í hné.
Hann er félagslyndur og tekur þátt í félagslífi eldri borgara, dansar eins og herforingi við skvísurnar á Skálahlíð og hefur húmorinn í góðu lagi.


Glæsilegt heimili Guðna í Bangkok Tælandi

Í sumar ætlar hann að bregða undir sig betri fætinum og heimsækja eiginkonu sína í Bangkok, þar mun hann að dvelja í tvo mánuði og síðan einn mánuð í Bandaríkjunum hjá syni sínum.

Þessum síunga Siglfirðing munar ekki um að fljúga þangað enda búin að fljúga um 14 ½ sinnum í kringum hnöttinn á ferðalögum sínum. 


Steina Óla og Guðni Gests að spjalla saman á hinu vikulega balli sem haldið er í Skálahlíð

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og úr einkasafni Guðna Gestssonar 


Athugasemdir

09.október 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst