Klippir út minningar

Klippir út minningar Listakonan Arnfinna Björnsdóttir eđa Abbý eins og viđ ţekkjum hana opnar sýningu á klippimyndum sínum á Vinnustofu Abbýar ađ Ađalgötu

Fréttir

Klippir út minningar

Abbý viđ klippimyndirnar
Abbý viđ klippimyndirnar

Listakonan Arnfinna Björnsdóttir eða Abbý eins og við þekkjum hana opnar sýningu á klippimyndum sínum á Vinnustofu Abbýar að Aðalgötu 13, miðvikudaginn 20 maí kl. 15.00.

Abbý hefur undanfarin ár opnað sýningu á Vinnustofunni í kringum 20. maí og er dagsetningin engin tilviljun. Með því er hún að halda upp á afmæli eiginmanns síns Eysteins Aðalsteinssonar sem er þann 18. maí og afmæli tengdaföður síns heitins og Siglufjarðar sem eiga afmæli þann 20. maí.

Í ár ætlar Abbý að halda sýningu á klippimyndum þar sem hún sýnir okkur líflegar myndir frá síldarárunum. Ekki eru neinar frekari fyrirmyndir en hennar eigin upplifun og minningar frá síldarárunum sem hún klippir út og límir saman. Hún rissar fyrst upp myndirnar og tekur síðan til við að klippa út formin úr gömlum blöðum og setur saman á listilegan hátt. Mikil vinna og natni liggur á bakvið hverja mynd sem eru hreinustu listaverk.

Ekki er Abbý eingöngu að gera klippimyndir því hún málar, prjónar og gerir allskonar listaverk í höndunum sem eru síðan til sölu á Vinnustofu hennar.

Opið verður alla virka daga í sumar frá kl. 14.00 - 17.00


Abbý með brúðuna sem hún nefnir Lóu og er hún síldarstúlka. Þær eru góðar vinkonur þó Abbý segði mér frá því svona í trúnaði að hún væri óttaleg gála og ætti það til að stinga undan heimastelpunum. Heimastelpurnar passa bara þess betur upp á sína karla svo Lóa kemst ekki oft upp með það. Abbý hefur lánað henni síldarpilsið sitt og sitja þær gjarnan að spjalli.


Fyrst rissar Abbý myndirnar upp, klippir síðan formin út og límir saman


Hér má sjá blaðabunkann sem hún notar til að klippa út myndirnar


Ein af þeim klippimyndum sem verða til sýnis og sölu


Til sýnis á vinnustofunni eru nokkrar myndir sem hún hefur teiknað af
lífshlaupi eiginmanns síns, honum Eysteini Aðalsteinssyni.
Abbý tók það þó fastlega fram "Eysteinn er ekki til sölu"


Á vinnustofunni má sjá hin fallegustu handverk af ýmsu tægi

Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir
Texti: Kristín Sigurjónsdóttir 


Athugasemdir

22.maí 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörđur
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgiđ okkur á Facebook eđa Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst