Markmiðið er að skapa ungu fólki framtíð

Markmiðið er að skapa ungu fólki framtíð Morgunútgáfan á RÚV tók viðtal í morgun þann 30. júní við Róbert Guðfinnsson um uppbyggingu sína á Siglufirði.

Fréttir

Markmiðið er að skapa ungu fólki framtíð

Róbert Guðfinnsson
Róbert Guðfinnsson
Morgunútgáfan á RÚV tók viðtal í morgun þann 30. júní við Róbert Guðfinnsson um uppbyggingu sína á Siglufirði. framtíðarsýn og fleira sem vert er að hlusta á.

Hlusta á viðtal: Morgunútgáfan

Róbert Guðfinnsson hefur á liðnum árum leitt mikla uppbyggingu á Siglufirði, bæði á sviði ferðaþjónustu og með líftæknifyrirtækinu Genis. Innan skamms verður opnað nýtt og glæsilegt hótel í bænum: Hótel Sigló. Markmiðið er að búa til samfélag sem laðar að sér ungt fólk og skapa því framtíð.
 

Róbert Guðfinnsson segist sjá fyrir sér að byggðin fyrir norðan, í Fjallabyggð - Siglufirði og Ólafsfirði, þurfi fjórar stoðir: gamla sjávarútveginn, ferðaþjónustu, líftæknina og þjónustu í kringum þetta allt. Lögð hefur verið áhersla á að mannvirkin sem byggð hafa verið við höfnina á Siglufirði séu í sátt við umhverfið og skírskoti til sögu staðarins. Og í samráði við bæjaryfirvöld er unnið að því að lengja ferðatímabilið með því að bæta og styrkja skíðasvæðið og golfvöllinn.

Siglufjörður laðar þegar að sér fjölda ferðafólks og nú stefnir í að straumurinn norður þyngist enn, enda margt að sækja, skoða og upplifa í gamla síldarbænum. Uppbygging Róberts og félaga hefur verið unnin fyrir eigið fé en ekki treyst á lánsfé. Vonin er sú að þessi fjárfesting skili næstu kynslóðum arði.

Stóru bankarnir eru ekki sérlega áhugasamir um uppbyggingu á landsbyggðinni, segir Róbert. Hann gagnrýnir sérstaklega að bankar í eigu erlendra vogunarsjóða hafi hrifsað til sín sparisjóði á landsbyggðinni, áður en kom að endurskipulagningu bankakerfisins. Nýverið lokaði Róbert reikningi í AFL sparisjóði, sem Arionbanki hafði yfirtekið, vegna óánægju með að heimamenn nyrðra fengju ekki notið hugsanlegs ávinnings af viðskiptum sjóðsins.

Róbert segir öfugsnúið að fjármagnið leiti ekki meira í tækifæri til uppbyggingar á landsbyggðinni, sem erlendir ferðamenn vilji heimsækja og njóta. Hann er bjartsýnn fyrir hönd síns gamla heimabæjar og þar er sannarlega mikill uppgangur. En markmiðið með þessu öllu sé að auka og bæta lífskjörin í bænum og gera hann byggilegan og eftirsóknarverðan fyrir ungt fólk

Rætt var við útgerðarstjórann fyrrverandi og núverandi ferðafrömuð, Róbert Guðfinnsson frá Siglufirði, í Morgunútgáfunni.

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir og tekið af vef RÚV
Mynd: Úr einkasafni 

 

Athugasemdir

28.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst