Okkar fólk í útlöndum. BERGÞÓR MORTHENS

Okkar fólk í útlöndum. BERGÞÓR MORTHENS Það var mikil fengur fyrir okkar litla bæjarfélag að fá þau hjónin til okkar fyrir um 10 árum síðan. Bergþór var

Fréttir

Okkar fólk í útlöndum. BERGÞÓR MORTHENS

Bergþór Morthens Listamaður
Bergþór Morthens Listamaður

Það var mikil fengur fyrir okkar litla bæjarfélag að fá þau hjónin til okkar fyrir um 10 árum síðan. Bergþór var þá nýútskrifaður úr Myndlistaskólanum og Elín sem hjúkrunarfræðingur.

Elín fékk vinnu á sjúkrahúsinu og ég hugsaði sem svo að ég gæti svo sem málað hvar sem er, segir Bergþór og glottir.

Þau hjónin hafa nú brugðið búi og flutt sig til Gautaborgar um óákveðin tíma, Bergþór er í Mastersnámi í myndlist við Valand Akademin sem er hluti af hinu risastóra Göteborgs Universitet. (37.000 nemendur og 5.900 starfsmenn)

Hvað var það sem fékk ykkur að taka þessa stóru ákvörðun að flytja til Gautaborgar?

Það hefur alltaf verið minn draumur að fara í framhaldsnám í Myndlist. Það var aldrei ætlunin að ílengjast á Sigló. En okkur líkaði svo ljómandi vel við fólk og fjörð og svo vorum við bara allt í einu orðin húseigendur. 

Húsið stendur við Aðalgötu 18, byggt 1906 og seinna var byggt við húsið að norðanverðu og bætt við kvistum. Húsið er oftast kennt við Ole og Indíönu Tynes sem bjuggu lengi í þessu merkilega húsi. 

Bergþór heldur svo áfram og segir: Ég held að við höfum ekki alveg áttað okkur á hvað við vorum að kaupa. Húsið hafði vissulega fengið mikla lagfæringu að utanverðu en að innan var hægt að taka þetta allt í nefið. En þetta tókst allt að lokum og í dag eru þrjár íbúðir í húsinu, lítil íbúð í viðbyggingu að norðanverðu, stór íbúð á efri hæð og á miðhæðinni er samansleginn kjallari með fyrstu hæð þar sem er stúdíó og íbúð.

Tyneshúsið við Aðalgötu 18 og stúdíó meistarans. (séð frá Norðurgötu)

Já 10 ár liðu fljótt, húsaviðgerðir, vinna í menntaskólanum á Tröllaskaga og málað á nóttunni.

Elín fór síðan í sérfræðinám í skurðhjúkrunarfræðum og í framhaldinu að vinna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Mikið keyrt á milli fjarða oft við erfiðar aðstæður. Síðan komu líka tvö yndisleng börn, Vilmundur Emil 7 ára og Indíana 5 ára. 

Við slógum svo til í fyrra og fluttum til Gautaborgar, en Glasgow í Skotlandi var einnig inni í myndinni en síðan fannst okkur báðum að í Svíþjóð væri barnavænna umhverfi.

Sjáum sko ekki eftir því, það eina sem hefur verið virkilega erfitt er að fá leiguhúsnæði en við höfum verið heppin tvisvar sinnum og fundið góðar íbúðir en aðeins til eins árs í senn.

(Hér er hægt að lesa stutt viðtal við Bergþór og Elínu í Göteborgsposten.se frá því í vor varðandi húsnæðisvandræðin í Gautaborg) 

Hvernig hefur ykkur gengið að komast inn í sænskuna og sænska samfélagið ?

Börnin voru nú ekki lengi að þessu, alveg ótrúlegt hvað börn aðlagast fljótt, eignast vini og tala tungumálið eins og innfæddir. Elín fékk vinnu eins og skot á Shalgrenska háskólasjúkrahúsinu (16.700 starfsmenn) og varð að vera snögg að tileinka sér sænskuna og gengur henni vel með það

Ég hinsvegar er frekar aftarlega á merinni, mér til afsökunar hef ég að það er einungis töluð enska í mínu námi, allir fyrirlestrar á ensku og verkefnum skilað inn á ensku.

Okkur líkar ákaflega vel við sænska kerfið, þetta virkar allt og er tryggt og gott samfélag. Hér er reiknað með að fólk eigi börn og sé í vinnu, lág gjöld fyrir dagheimili og svo fær maður barnabætur mánaðarlega. Flestir fara í sína 8 tíma vinnu og geta lifað af því.

Síðan er ég náttúrulega að lifa í mínum draumi hef mikinn tíma til að mála og sinna mínu námi sem er mjög skemmtilegt. Skólinn útvegar mér vinnuaðstöðu og ég ræð mikið yfir mínum tíma sjálfur sem er algjör lúxus.

Berþór að útskýra listasköpun fyrir greinarhöfundi á vinnustofu sinni. Á gólfinu eru bestu vinir hans, kaffikannan og inniskórnir. 

Á ganginum fyrir utan vinnustofu Bergþórs liggja nokkur verk og ég sé að hann hefur notað frauðplast til að ná fram einhverskonar þrívíddar áhrifum í myndirnar.

Ég spyr Bergþór hvort að þessi verk séu einkennandi fyrir hans stíl ?

Þetta eru verk sem ég var með á nemendasýningu í vor, en þetta er samt ekkert meira ég en eitthvað annað sem ég geri, vill helst ekki setja mig í einhvern fastan geira, en þarna má sjá tilraun með frauðplast og annað. Einnig skynja ákveðna pólitíska ádeilu í þessum verkum.

Verk frá nemendasýningu, tilraunir með frauðplast og ef kíkt er á bakhliðina sér maður að hinn fátæki námsmaður hefur notað allskonar drasl úr vinnustofunni sem uppfyllingarefni í verkin. Eða, kannski nennti hann ekki út með ruslið.

Ertu að vinna að einhverju sérstöku verki þessa dagana ?

Já, er mikið í portrett myndum og er að vinna að portrett seríu sem hefur nokkuð viðkvæman pólitiskan tón en það er ekki til sýnis ennþá.

Ég sé auðvitað á veggnum beint á móti mér að hann er byrjaður á þessari seríu. Tek eftir því að Berþór er vel inní því sem er að gerast í sænsku þjóðfélagi í dag. Það er greinilegt hvað honum finnst um alla öfgahópa og öfgastefnur sem hefur rutt sér til rúms í Svíþjóð sem og í öðrum skandinavískum löndum í dag.

 Já, þetta eru skrítnir tímar segi ég, þeir sem áður fyrr þrömmuðu um götur hér í bæ í hermamma stígvélum og öskruðu "Sieg Heil" eru komnir í jakkaföt og bindi og inná þing.

Já, svarar listamaðurinn, það er náttúrulega hægt að pakka öllu inn í fallegar umbúðir en innihaldið er það sama........... Vill gjarnan að verk mín segi fólki eitthvað og listasköpun er ekki endilega alltaf að mála einhver augnayndi til að dáðst að, listmálun á líka að geta rifið í hugsanir hjá fólki og sagt eitthvað um það sem er óþægilegt og ljótt.

Ég er líka mjög hrifinn af lítilsmagnanum á götunni sem er að berjast á móti allskyns óréttlæti allt sitt líf en kemst ekki langt í sínum mótmælum. Mig langar að að gera þetta fólk sýnilegt með því að mála portrett myndir af litla manninum ekki bara af einhverjum kóngum og forstjórum sem hanga í röðum á fínum veggjum í fínum húsum.

 Skipulagt kaos á vinnuborði meistarans.

 Aldrei skortur á hugmyndum og verkefnum ?

Nei, nei ég er eins og gangandi hugmyndabanki alltaf að pæla og kasta mér oft út í eitthvað nýtt, stoppa svo hugsa og byrja aftur. Svo er ég líka ávalt með hugmyndadagbókina mína í vasanum.

Hann dregur fram slitna stílabók og flettir, stoppar svo og sýnir mér fjórar blaðsíður með einhverskornar jarðskjálftarita skrift.

Ég hélt laust í penna í rútinni frá Ólafsfirði yfir Lágheiðina til Sigló, frekar holóttur vegur eins og sjá má. Samt flott munstur segir hann og hlær.

Hugmyndadagbókin góða

Að lokum Bergþór, spurningin sem allir vilja heyra:
Hvenær komið þið svo aftur á Sigló ?

Ja, án þess að segja af eða á þá er það á hreinu að við erum öll bundin miklum tilfinningarböndum til Siglufjarðar og eigum þar heimili. En núna í augnablikinu þegar við erum komin í gengum það erfiðasta og börnunum líður vel og Elín í sinni draumavinnu. 

Þá detta inn þær hugsanir um að kannski liggur ekkert á að fara til baka.

Sjáum bara til, hver veit.

Takk fyrir spjallið Bergþór og gangi ykkur allt í haginn hér í Sverige.

Listamaðurinn í grænu háskólaúlpunni, Vasagatan og sporvagnateinar í baksýn

Bergþór skellir sér í grænu háskólaúlpuna, gengur út á Vasagötuna og tekur sporvagninn heim í faðm fjölskyldunnar. 

Að lokum sjáum við hér fyrir neðan tvö verk frá nemendasýningunni í vor.

Texti: NB
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og Bergþór Morthens



Athugasemdir

19.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst