Siggi Halla! Kveđja frá KS félögum

Siggi Halla! Kveđja frá KS félögum Siggi Halla var eins og farfuglarnir fyrir okkur strákana á Sigló, hann kom á vorin og flaug burt á haustin. Viđ

Fréttir

Siggi Halla! Kveđja frá KS félögum

Siggi Halla í Köben 1978
Siggi Halla í Köben 1978

Siggi Halla var eins og farfuglarnir fyrir okkur strákana á Sigló, hann kom á vorin og flaug burt á haustin.

Við vorum svo heppnir að fá þennan fótboltakappa til liðs við okkur í yngri flokkum KS, enda var Siggi fæddur á Siglufirði.

Þegar við vorum að taka af okkur skíðaskóna og gamli malarvöllurin að koma undan snjó þá birtist þessi markahrókur að sunnan á takkaskónum.

Siggi fékk að kynnast hinum stóra leikvelli sem Sigló var eftir að síldin hvarf, brakkar og bryggjur, sjoppur og kaupmenn, bíóið, fjallið og eilíft lognið. Umhverfið bauð upp á endalausa leiki og grallaraskap fyrir unga drengi.

Við fórum í fótboltaferðalög um Norðurland – unnum góða sigra en stundum var tapið sárt.

Sú minning sem lifir lengst er þegar við í 3ja flokki KS fórum í eftirminnilega keppnisferð til Danmerkur 1978. Flestir vorum við að fara til útlanda í fyrsta sinn og það var ekki sjálfgefið á þeim árum að unglingar norðan af heimskautsbaug færu í slíka för.

Hópmynd frá ferðinni frægu til Danmerkur 1978

Ferðin var eitt endalaust ævintýr og síðustu árin höfum við hittst reglulega og rifjað upp sögurnar. Sveitastrákarnir frá Sigló voru ekki eingöngu að komast í snertingu við grasvelli, öl og rauðar pylsur í fyrsta sinn, heldur líka danskar stelpur.

Kvöld eitt höfðu nokkrir í hópnum komist í kynni við framandi fljóð. Voru þær dregnar út á grasvöllinn í Asnæs og þegar hvolpavitið gerði vart við sig, þá stóðu Siggi og félagar hjá og kveiktu á flóðljósunum á vellinum og komu í veg fyrir að bráðþroska drengir eignuðust erfingja á danskri grundu.

Í 50 ára afmæli Sigga ákváðum við að hittast á Sigló þá um sumarið. Það gerðu við og áttum saman góðar stundir. Ári síðar er þessi snjalli knattspyrnukappi allur.

Í allri sinni baráttu stóð Siggi ekki einn. Stór fjölskylda, foreldrar, vinir, Þróttarar, KS-ingar og fleiri stóðu að baki honum. En kletturinn í baráttunni var þó án efa Inga – konan í lífi Sigga, hún hefur sýnt ótrúlegan styrk.

Óþrjótandi kraftur Sigga, jákvæðni og baráttuþrek vakti athyglli þjóðarinnar. Í veikindum sínum var Siggi alltaf að spá í hvað hann gæti gert fyrir sitt umhverfi hvort sem það var Ljósið, Líkardeildina eða annað.

Hann taldi það ekki eftir sér að fara gangandi ásamt sonum sínum og vini frá Hveragerði til Reykjavíkur til styrktar Ljósinu. Þegar Siggi gat glatt aðra þá leið honum best.

Hann hafði ekki dvalið lengi á Líkardeildinni þegar sú hugmynd kviknaði að safna fyrir tækjum fyrir langveik börn sem þar dvöldust. Síminn tekinn upp, vinir og velunnarar heimsóttir og ný tæki voru komin innan nokkurra daga. Svona var Siggi – alltaf að gleðja.

Nú er baráttu vinar okkar Sigga Halla lokið. Hafðu vinur þökk fyrir áratuga vináttu sem við mátum mikils.

Ljúfar og góðar minningar um frábæran vin munum við ætíð geyma með okkur.

Komið er að kveðjustund

hetju er létti marga lund

Þróttmikill á drottins vegi

orðstír góður deyr aldregi

´ (Sig.Tómas)

Ingu, börnum þeirra, barnabörnum, foreldrum, systur og öðrum vottum við dýpstu samúðar.

Birgir Gunnarsson

Hermann Einarsson

Jónas Skúlason

Sigurður Tómas Björgvinsson

Jón Ólafur Björgvinsson

Magnús Jónasson

Myndir: NB


Athugasemdir

23.júní 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörđur
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgiđ okkur á Facebook eđa Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst