Framtíđ AFLs sparisjóđs

Framtíđ AFLs sparisjóđs Róbert Guđfinnsson, stjórnandi í atvinnulífinu, ritar grein í Morgunblađiđ í gćr ţar sem hann vandar mér ekki kveđjurnar. Ég sé

Fréttir

Framtíđ AFLs sparisjóđs

Höskurldur H. Ólafsson
Höskurldur H. Ólafsson

Róbert Guðfinnsson, stjórnandi í atvinnulífinu, ritar grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann vandar mér ekki kveðjurnar. Ég sé ekki ástæðu til að elta ólar við einstök atriði í grein Róberts en vil þó fara nokkrum orðum um væntanlega sameiningu AFLs sparisjóðs við Arion banka. AFL sparisjóður er í dag með starfsemi á Siglufirði og Sauðárkróki.

 

  • Árið 2009 eignaðist Arion banki um 95% stofnfjár í AFLi við yfirtöku á Sparisjóði Mýrarsýslu.
  • AFL kom laskaður út úr fjármálahruninu og hefur Arion banki þurft að fjármagna sjóðinn og fella skilyrt niður skuldir að fjárhæð 2,4 milljarðar króna.
  • Áhugasömum aðilum var gefinn kostur á að koma að framtíðarrekstri sjóðsins þegar Arion banki auglýsti stofnfjárhluti bankans í AFLi til sölu. Aðeins eitt tilboð barst. Það var háð fjölda fyrirvara og eftir stuttar samningaviðræður varð ljóst að ekki yrði af sölu á sparisjóðnum.
  • Arion banki hefur ítrekað veitt stjórnvöldum svigrúm til að koma að málefnum AFLs en sú viðleitni hefur engu skilað og hafa stjórnvöld ekki viljað leggja sjóðnum til fjármagn.
  • Í kjölfarið var ljóst að eini kosturinn var að gera stofnfjárhöfum tilboð sem gert var í desember 2011. Með því að bjóða 75% yfir bókfærðu virði eiginfjár vonuðumst við eftir því að skapa sátt um tilboðið. Tilboði bankans var almennt vel tekið og nú stendur sameining AFLs og Arion banka fyrir dyrum.

 

Frá því að AFL varð dótturfélag Arion banka höfum við lagt okkur fram um að taka á málefnum sjóðsins af ábyrgð. Það höfum við sýnt í verki með verulegum fjárhagslegum stuðningi til að tryggja að sjóðurinn uppfylli kröfur Fjármálaeftirlitsins (FME) og geti haldið áfram starfsemi. Á tímabilinu hefur engin annar stigið fram og lýst yfir vilja til að axla slíka ábyrgð á sjóðnum.

 

Fyrir íbúa Skagafjarðar og Siglufjarðar og starfsfólk sjóðsins er mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefur um sjóðinn. Með sameiningu AFLs og Arion banka styrkjum við starfsemi Arion banka á Norðurlandi, verjum störf og tryggjum að áfram verði rekin öflug fjármálaþjónusta á svæðinu. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að þetta er besti kosturinn í stöðunni fyrir alla hlutaðeigandi, ekki síst í ljósi þess að enginn annar hefur sett fram málefnalegar og raunhæfar hugmyndir um framtíð sparisjóðsins.

 

Sú sameining sem nú er fyrirhuguð á sér langan aðdraganda. Við erum ekki að hlaupa til og sameina þessi fjármálafyrirtæki án þess að hafa metið alla kosti í stöðunni og ráðfært okkur við stjórnvöld og fjölmarga aðila sem hagsmuna eiga að gæta á svæðinu. Með aðeins fáum undantekningum hefur áformum okkar um sameiningu verið vel tekið. Ég átta mig þó á því að mörgum er eftirsjá að gömlum og grónum sparisjóðum. Við hjá Arion banka búum að því að nýverið var Sparisjóður Ólafsfjarðar, sem einnig hafði verið í eigu SPM, sameinaður bankanum. Sú sameining tókst í alla staði vel og verður áfram rekin öflug fjármálaþjónusta í Ólafsfirði undir nafni Arion banka. Ég á ekki von á öðru en að það sama verði upp á teningnum hvað varðar AFL sparisjóð.

 

Ég gerði mér grein fyrir því þegar ég tók að mér starf bankastjóra um mitt ár 2010 að verkefnin framundan væru erfið, margar erfiðar ákvarðanir þyrfti að taka og ekki yrðu þær alltaf öllum að skapi. Vissulega eru störf okkar og þær ákvarðanir sem við höfum tekið ekki yfir gagnrýni hafnar. Ég ætla samt að leyfa mér að óska þess að slík gagnrýni sé málefnaleg.

 

Höskuldur H. Ólafsson

Bankastjóri Arion banka


Athugasemdir

04.desember 2023

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörđur
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgiđ okkur á Facebook eđa Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst