Heimþrá. Áramótapistill

Heimþrá. Áramótapistill Heimþrá er þrálát tilfinning, ekki ólík ástarsorg. Eilífur söknuður og löngun í að koma til baka í tryggan og mjúkan faðm fjallana

Fréttir

Heimþrá. Áramótapistill

Hólshyrnan, drottning allra fjalla.
Hólshyrnan, drottning allra fjalla.

Heimþrá er þrálát tilfinning, ekki ólík ástarsorg. Eilífur söknuður og löngun í að koma til baka í tryggan og mjúkan faðm fjallana sem skapa Siglufjörð. Margir þjást ákaflega mikið af þessum tilfinningum um jól og áramót.

Það getur verið einkennilegt að þrátt fyrir að fólk búi sér til fín og falleg heimili annarstaðar á landinu eða úti í hinum stóra heimi, þá er maður samt ekki heima.

Það vantar alltaf eitthvað......... Kannski ekki bara nálægð við vini og ættingja, heldur líka þetta myndræna í því sem ég sé út um gluggann eða þegar ég keyri heim úr vinnunni á leiðinni heim sem er samt ekki heim.

Ég hef ekki verið hér á Siglufirði yfir hátíðir jóla og áramóta í 25 ár.

Ég ímyndaði mér að minningarbrot héðan úr firðinum fagra í fullum vetrarsrkúða væru falskar minningar, eitthvað sem ég skapaði sjálfur til að gera eitthvað fallegt fallegra. Myndir sem hugga mig þegar heimþráin leggst yfir mig af fullum þunga.

Þarna í minninguni var allt hvítt og hreint, þetta furðulega bláa ljós og skuggar sem birtast í kvöld stillunni með tungl, stjörnur og norðurljós. Svona barnalegar minningarmyndir sem fá mig til að falla afturábak í mjúkan snjóinn og missa andann yfir þessari yfirþyrmandi fegurð fjarðarins, nálægðarinnar við eilífðina, gleyma sér smástund og verða eitt með alheiminum.


Í bláum skugga

Nú þegar ég er kominn aftur heim sé ég að þetta er allt satt, allt er þarna ennþá. Bláir skuggar, norðurljós, ljósin í Hvanneyrarskál, jólatré á torginu og jólaljós í öllum húsum bæjarins.

Yfir firðinum gnæfir Hólshyrnan, drottning allra fjalla. Hún er með daglegar tískusýningar fyrir mig, skiptir um skrautbúning og umgjörð á hverjum degi.

Þegar maður býr í stórborgum verður maður að bera sína sorg og gleði sjálfur, en ekki hér heima. Hér taka allir þátt í sorg og gleði annara, allur bærinn faðmar mann og deilir sorg og gleði með mér.

það er þá sem ég finn í líkama og sál að ég er kominn HEIM Á SIGLÓ.

Texti og myndir: NB


Athugasemdir

15.september 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst