SKSiglo.is

  Umlukinn mikilfenglegum fjöllum stendur nyrsti kaupstaður landsins, Siglufjörður, í samnefndum firði. Vegna staðsetningar og lögunar fjarðarins

Siglufjörður

 Panorama af Siglufirði

Umlukinn mikilfenglegum fjöllum stendur nyrsti kaupstaður landsins, Siglufjörður, í samnefndum firði. Vegna staðsetningar og lögunar fjarðarins varð Siglufjörður, sem oft er kallaður Sigló, að fimmta stærsta bæ íslands og einum frægasta síldarbæ í heimi. Fáir íslenskir kaupstaðir hafa jafn stórbrotna og viðburðarríka sögu og Siglufjörður.

Gegnum árin hefur sjávarútvegur verið undirstöðuatvinnan í þessu 1.300 manna bæjarfélagi. Um miðja tuttugustu öldina var mannlífið á Sigló í blóma en þegar mest var bjuggu yfir 10.000 manns í samfélaginu. Siglufjörður var á þessum árum fullur af skipum, silfur hafsins flæddi um bryggjur, þjónustustig var hátt og rómantíkin blómstraði.

Siglufjörður í kringum 1930 Siglufjörður á uppgangasárunum

Allt frá því að síldin hvarf á sjöunda áratugnum hafði samfélagið hinsvegar verið í hnignun en á síðustu árum hafa Siglfirðingar þó snúið vörn í sókn. Þróun undanfarinna ára færir Siglufjörð í átt að aukinni þjónustustarfsemi og hefur því dregið úr vægi sjávarútvegs sem undirstöðu atvinnuvegur í samfélaginu. Elsta starfandi peningastofnun Íslands, Sparisjóður Siglufjarðar, er í firðinum og nú 140 ára og ýmis þjónustustörf og fjarvinnsla fyrir stofnanir er nú orðin mikilvægur hlekkur í atvinnulífi bæjarins og hefur stóraukið atvinnumöguleika á svæðinu.

Sparisjóðurinn  Sparisjóðurinn 140 ára

Ferðaþjónusta hefur einnig stóraukist í Siglufirði á undanförnum árum og skapar nú fjölda starfa. Með tilkomu Héðinsfjarðarganga tengdist Siglufjörður hringveginum um Tröllaskaga og Akureyri varð í einungis einnar klukkustunda fjarlægð. Hefur fjörðurinn því orðið mjög vinsæll áfangastaður meðal ferðamanna og vaxtarmöguleikarnir á því sviði því stóraukist. Síldarminjasafnið er eitt stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins, það opnaði fyrst árið 1996 í einu húsi, Róaldsbrakka, en er í dag hýst í þremur húsum við höfnina.

Frá því árið 2007 hefur fyrirtækið Rauðka verið áberandi í uppbyggingu á sviði ferðaþjónustu á Siglufirði en það rekur nú tvo veitingastaði í firðinum. Í dag starfa um 30 manns í ferðatengdri þjónustu á Sigló en ætla má að um 100 störf verði til í ferðaþjónustu á komandi árum á Sigló. Ferðamenn hafa núþegar mikils að njóta í heimsókn á Siglufirði og má þar nefna fjölda veitingastaða, safna og gallería, stórbrotna náttúru, kyrrð og skemmtilega menningu.

Síldarminjasafnið Rauðka og Hannes Boy

Öflugt tómstundarstarf er í Siglufiðri þar sem íþróttaiðkun er mikil. Íþróttahús, sundlaug, líkamsræktaraðstaða, fótboltavöllur, skíðasvæði og golfvöllur eru meðal þess sem hægt er að sækja í firðinum. Félags- og menningarmál eru líka öflug og fjölbreytt og starfa þar fjöldi klúbba, kóra og annarra félagasamtaka.

Árið 2006 sameinuðust Siglufjörður og Ólafsfjörður undir Fjallabyggð, nýju nafni kaupstaðarins.

Frekari upplýsingar um hina ýmsu þjónustuaðila á Siglufirði má finna á ferðamálasíðu Sigló.is.

Frekari upplýsingar um sögu Siglufjarðar má finna á vef Fjallabyggðar.

 

15.september 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst