Bónstöð Fjallabyggðar
Ég hitti á þessa kappa við Iðju-húsið þegar ég var á leið minni niður á bensínstöð að fá mér pylsu með tómat, sinnep og hráum lauk og litla kók í gleri rétt fyrir hádegismatinn sem hún Ólöf mín var að elda handa mér.
Ég tók þá Árna Heiðar og Svein tali og fór að forvitnast um það hvað þeir væru að bauka. Og viti menn, það er loksins orðið opinbert (kannski löngu orðið opinbert en ég frétti það fyrst núna) að Bónstöð Fjallabyggðar hafi tekið til starfa.
Miðað við háglansandi drossíuna sem var þarna inni stífbónuð og flott þá mæli ég hiklaust með því að sem flestir láti bóna bílinn sinn hjá þeim og sérstaklega brottfluttu greyin sem koma hingað yfir jól, páska, sumrin og öðrum hátíðis og tyllidögum sem menn vilja halda hátíðlega heima á Sigló (ég veit, ég var alveg eins og þú ert núna og þurfti að draga djúpt að mér andann eftir að hafa lesið þessa setningu.)
Athugasemdir