Eftirspurn eftir góðum eignum á Siglufirði
Sigló.is tók tal af Magnúsi Ólafssyni hjá Domus fasteignasölu en hann hefur á síðustu árum fylgt fasteignamarkaðnum á Siglufirði vel eftir.
Aðspurður segir Magnús að milli 2005 og 2009 hafi orðið miklar verðhækkanir á Siglufirði en síðan þá hafi litlar verðbreytingar orðið. Eftirspurnin er þó mikil og sérstaklega eftir góðum eignum sem henta 2-3 manna fjölskyldum. Þá er einnig töluverð eftirspurn eftir minni eignum sem nota á sem frístundahús.
Í „góðærinu“ sem gekk yfir landið fengu nokkuð margar eignir andlitslyftingu á Siglufirði þegar fólk keypti og gerði upp sumarhús. Þá hófust einnig miklar framkvæmdir við smábátahöfnina á Siglufirði og margir einstaklingar hófu að framkvæma heima hjá sér ásamt því að fleiri fyrirtæki og bæjarfélagið fóru í átak um að snyrta til í umhverfi sínu. Í kjölfarið breyttist ásýnd bæjarins í heild sinni verulega og er nú talað um að Siglufjörður hafi mikinn sjarma.
Magnús segir að Domus vanti nú góðar eignir á skrá og það sé langt síðan að jafn fár eignir hafi verið til sölu, enda seljist þær góðu yfirleitt fljótt. Segir hann að fermetraverð á góðum húsum sé um 100þkr á fermetra en minni eignir hafi þó slegið alveg upp í 120þkr á fermetra séu þær í góðu standi.
Mörg falleg hús eru á siglufirði og einkenna kvistar og súð mörg þeirra. Myndirnar hér að neðan tengjast fréttinni þó ekki beint.
Athugasemdir