Sjávarútvegurinn. Gamlar myndir 2
Hér kemur meira úr "Sjávarútvegs" flipanum í Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Margar myndirnar hérna eru mjög skemmtilega og svo er óvæntur glaðningur í lok myndbandsins. Ég skemmti mér allavega konunglega við það að skoða þessar myndir.
Steingrímur skoðaði myndbandið eftir að ég var búin að búa það til og hér kemur svar hans við þessum síðustu myndum sem eru í myndbandinu. Ansi skemmtilegt.
"Síðustu tvær myndirnar eru teknar um borð í Haferninum, þá nýlögðum af stað frá Algeirsborg í Algiers við miðjarðarhafið.
Fyrri myndin: Þarna stóð yfir ein af mörgum kvöldvökum um borð og félagarnir Jón Garðarsson 3. stýrimaður og Bergsveinn Gíslason loftskeyramaður voru þarna í skemmtilegu gervi arabahöfðingja sem ný búnir voru að festa kaup á nýjum ambáttum í safn sitt. Bergsveinn til vinstri á mynd og Jón til hægri.
Frumsamið leikrit í anda arabalandsins sem við vorum að koma frá.
Hin myndin er af
Sigurði Jónssyni í gervi „villimanns“ í villtum dans á annarri kvöldvöku um borð, eftir að hafa verið í höfn við
borgina Sauda við Afríkuströnd.
Pilsið sem Siggi er í er búið til úr þráðum landfestar, og hann makaður síðan með sósulit til að gefa gervinu sterkari svip
og minningu um svertingjanna sem á vegi okkar höfðu komið í landi."
Myndir sem ég er komin að í myndaalbúmunum á Ljósmyndavef Siglufjarðar tók Steingrímur flestar ef ekki allar í þessu myndbandi.
Ég ætla að láta fylgja með eina sögu sem stendur við myndina af Steingrími svona til skemmtunar. Þið takið eftir því þegar þið sjáið Steingrím að það er frekar sérstakur svipur á honum.
" Einn skipverja á Haferninum státaði að því að hann hefði ávalt klippt skipsfélaga sína um borð í skipinu sem hann hafði verið vélstjóri á áður en hann kom um borð í Haförninn, þeir hefðu aldrei þurft að eyða tíma sínum til klippinga í landi. Ekki lögðu allir skipsfélagar hans um borð í Haferninum trúnað á þessa hæfileika vélstjórans og komu sér saman um að senda eitt „tilraunadýr“ til að biðja um klippingu. Fyrir valinu varð Steingrímur Kristinsson timburmaður, sem þá var með mestan lubbann og gat ekki skorast undan. Hann tók með sér í næstu landveru alvöru hárskeraklippur sem hann átti. Á leið út á síldarmiðin við Svalbarða óskaði Steingrímur eftir klippingu. Vélstjórinn var tregur til og sagðist ekki klippa nema með alvöru græjum, en á hann runnu „tvær grímur“ þegar honum voru sýndar græjurnar og samþykkti með trega að klippa kauða, ef klippingin færi fram fyrir luktum dyrum í klefa Steingríms. Það var samþykkt og athöfnin fór fram. Árangurinn vakti almenna kátínu, og þegar út á miðin var komið var sett auglýsing á bak „fórnardýrsins“ „Rakarastofa vélstjórans er opin, sýnishorn vinnubragðanna sjáið þið hér.“ Sjómennirnir sem lestuðu síld um borð í Haförninn höfðu gaman af, sem og Hafarnarmenn að undanteknum vélstjóranum sem þótti gamanið súrt. En klippingunni mátti best lýsa, sem skál hefði verið sett á kollinn og klippt fyrir neðan, þess þarf vart að geta að fleiri létu ekki klippa sig hjá vélstjóranum."
Steingrímur Kristinsson
Athugasemdir