Fjörtíu ára poppafmæli.

Þegar ég var að gramsa í gömlu dóti uppi á háalofti fyrir nokkru, rakst ég á vélritaðan lista sem kom mér strax nokkuð kunnuglega fyrir sjónir.
Þarna hafði ég mér til mikillar furðu dottið um lagalista hljómsveitarinnar Frum frá fyrsta 16 ára ballinu sem hún spilaði á.
Þessi dansleikur markaði líka talsverð tímamót, því þetta var líka fyrsta “fullorðinsballið” mitt, Guðna Sveins, Bigga Inga og Vidda. Það eru því liðin heil 40 ár frá því að við spiluðum á okkar fyrsta alvöruballi.
Við skoðun listans sést að menn hafa komið nokkuð víða við á þessum tíma og líklega verið að reyna að gera sem flestum til hæfis, bæði sjálfum sér og væntanlegum áheyrendum. Í bland við léttpoppaðar og löngu gleymdar vinsældarblöðrur, er að finna þyngra og vandmeðfarnara efni, en einnig eru þarna standardar sem voru á þessum tíma löngu orðnir klassískir. Svo eru þarna líka lög sem fáir gerðu sér grein fyrir að myndu lifa jafn góðu lífi og raunin hefur orðið á.
Æfingarhúsnæðið við Lindargötu, - oftast nefnt Glaumbær. (Teikning Bragi Magnússon)
Frum var stofnuð snemma árs árið 1971 af þeim Bigga Inga, Vidda Bö, Guðna Sveins og Gumma Ingólfs, en ég bættist svo í hópinn nokkru síðar. Lengst af var æft í húsi við Lindargötu sem oftast var kallað Glaumbær, en einnig höfðum við um tíma aðstöðu í beitningarplássi Svenna Björns og Hafþórs Rósmundar þar sem nú er hið glæsilega veitingahús Rauðka, og enn síðar tókum við Sjálfstæðishúsið á leigu. Þar gátum við æft, haldið eins mörg böll og við vildum og síðast en ekki síst, haldið partý í friði fyrir foreldrum og forráðamönnum.
Biggi Inga og Viddi í Alþýðuhúsinu við Þormóðsgötu á fyrsta unglingaballinu 1971. (Ljósmyndari ókunnur)
Á þessum tíma sátum við saman í síðasta bekk í Gagganum, Guðni Sveins og ég. Þar var mikið bollalagt um það sem framundan var og hin miklu áform um að “meika það” fóru ekki fram hjá neinum, þar á meðal ekki kennurunum. Í enskutímum henti Hinni gaman að þessu brölti okkar og fóru þeir tímar stundum meira í umræður um fyrirætlanir okkar og væntanlegan frama á tónlistarbrautinni en að læra ensku, alla vega síðustu tímana fyrir gigg. Hann brosti góðlátlega að því sem hann hefur líklega talið vera einhverjar loftkastalabyggingar og spilaborgir og það var var greinilegt að hann hafði ekki alveg jafn mikla trú á verkefninu og við höfðum sjálfir. Ég er ekki frá því að það hafi örlað á stríðnisglampa í augum og jafnvel örlitlum vonkunnartónn í röddinni, því vissulega vorum við ennþá hundblautir á bak við eyrun og vissum í sjálfu sér ekkert hvað við vorum að fara að gera.
En við höfðum pantað Bifröstina á Sauðárkróki alveg á okkar reikning og ábyrgð, og eftir á að hyggja verður varla annað sagt en að þar hafi fátt annað ráðið för en órökrétt bjartýni, fyrirhyggjulítil framtakssemi og blind ævintýraþrá. Við höfðum heldur ekki yfir neinum bíl að ráða sem rúmaði bæði hljóðfærin og meðlimina, enda var ekki nema einn úr okkar hópi kominn með bílpróf. Það var því samið við Ella í Gautum um að taka túrinn, en hann átti þá 1965 árgerð af Dodge Pam 100, sem áður hafði verið sjúkrabíll á Vellinum.
Lagalistinn á fyrsta 16 ára ballinu.
En líklega vorum við meira heppnir en eitthvað annað, því húsið fylltist af fólki, við spiluðum öll lögin sem við kunnum þrisvar eða fjórum sinnum þetta kvöld og gestirnir sem voru á svipuðum aldri og hljómsveitin virtust skemmta sér hið besta. Eitthvað nesti munu þeir sem á sviðinu stóðu hafa haft með sér af blautlegum veigum, en það verður vart annað sagt en að þar hafi skynsemin alla vega örlítið drepið niður fæti. Það var nefnilega búið að samþykkja og það með öllum greiddum atkvæðum, að enginn mætti dreypa á neinu slíku fyrr en í fyrsta lagi þegar klukkutími væri eftir af ballinu. Menn stóðu auðvitað við það, því enginn gat unnt öðrum þess að þjófstarta og gætti því hver annars.
En þegar á nóttina leið, litu menn æ oftar á klukkuna og þegar tími haftanna var úti, brast stíflan með miklum flaumi. En þessi einfalda reglugerð sem lengst af var í gildi, hefur reynst mönnum vel og sannað gildi sitt margoft síðan. Eftir síðasta lag, samantekt og svolítið spjall, gerðum við upp og lögðum af stað heim. Við vorum fullir nýrrar orku eftir gott gengi á sviðinu í Bifröst, höfðum nú hlotið okkar manndómsvíxlu í poppinu og héldum af stað heimleiðis. Ferðin gekk vel til að byrja með, en þó var farið að bera svolitlu púðurfjúki sem jókst heldur eftir því sem utar dró. Í Fljótunum var farið að puðra svolítið yfir veginn og eftir það þyngdist færðin hratt.
Á þessum árum gátu Mánárskriður verið talsverður farartálmi ef eitthvað setti niður af snjó, en það var einmitt þar sem Raminn hans Ella gafst upp. Bíllinn sem var mjög hágíraður, þoldi ekki vel allt það hjakk og þá “manúeringu” sem þurfti að beita til að komast í gegn um skaflana og á endanum gaf kúplingin sig. En það varð okkur til bjargar að það voru fleiri á ferðinni þessa nótt, Arnar Ingólfs hafði verið á ballinu ásamt nokkrum traustum áhangendum og grúppíum. Hann hafði fengið lánaðan Land-Rover jeppa föður sins og var í samfloti með okkur. Raminn var því skilinn eftir í Skriðunum ásamt öllum hljóðfærunum og það voru hvorki meira né minna en 12 manns sem tróði sér inn í bíl rafvirkjans síðasta spölinn heim á Siglufjörð.
Hljómsveitarbíllinn. (Ljósmynd Leó R. Ólason)
Við sváfum auðvitað allan sunnudaginn eins og ungra manna er siður, en Elli gerði þær ráðstafinr sem dugðu til að Raminn ásamt hljóðfærunum komst í bæinn. Á mánudegi vildi Hinni halda gríninu áfram og spurði hvort nokkur hefði mætt á ballið hjá okkur, en við kváðum svo hafa verið. Hann spurði þá hvort við hefðum fengið eitthvað greitt fyrir verkið og brosti eilítið flírulega. Við sögðum honum að svona lagað væri yfirleitt unnið upp á hlut og nefndum töluna sem kom í okkar part. Þá hætti Hinni alveg að brosa en spurði hneykslaður hvort okkur þætti það eitthvað sanngjarnt að við gutlararnir sem værum algjörir byrjendur á okkar sviði, fengjum næstum því sömu laun fyrir nokkurra klukkutíma vinnu og hann fengi fyrir heilan mánuð í fullu starfi sem kennari. Við áttum svo sem engin svör við því en það lak út úr mér að stundum væru menn verðlagðir eftir hæfileikum frekar en reiknuðu vinnuframlagi, en auðvitað hefði ég nú betur haldið kjafti þá sem oftar. En Hinni tók þessari andstyggðar athugasemd minni ekkert illa frekar en mátti búast við af honum og ég komst því upp með hana eins og ég komst upp með svo margt í tíma þeim ágæta manni.
Texti: Leó R. Ólason
Athugasemdir