Fréttatilkynning frá kvæðamönnum.
Fyrsta LANDSMÓT KVÆÐAMANNA
og
LANDSAMTÖK KVÆÐAMANNA stofnuð.
Um næstu helgi, 1.- 3. mars, verður haldið á Siglufirði fyrsta landsmót kvæðamanna. Kvæðamenn og áhugafólk um þessa
þjóðlegu arfleifð koma saman víða að af landinu til að fræðast, læra kvæðalög og skemmta sér saman. Síðast en
ekki síst til að stofna landssamtök kvæðamanna.
- Föstudagskvöldið 1. mars heldur hinn kunni kvæðamaður Steindór Andersen tónleika.
- Á laugardeginum verður haldið rímnalaganámskeið Steindórs og einnig verður boðið upp á námskeið í bragfræði /vísnagerð og tvísöng.
- Þá verða stofnuð Landssamtök kvæðamanna – í þeim tilgangi að auka samstöðu og samstarf á milli kvæðamannafélaga og efla þessa mikilvægu þjóðararfleifð.
- Hápunktur mótins verður glæsilegur kvöldverður og kvöldvaka þar sem mikið verður sungið, farið með vísur og „kveðið í kútinn“
Kvæðamannafélagið Ríma á Siglufirði stendur að þessu móti í samstarfi við kvæðamannafélögin Iðunni
í Reykjavík, Gefjunni á Akureyri og Árgala á Selfossi - auk þess sem Félag Ljóðaunnenda á Austurlandi verður
þátttakandi.
Formaður Rímu er Guðrún Ingimundardóttir – mun hún veita allar frekari upplýsingar sé þess óskað.
Sími
hennar er 869 3398 – netfang: runaingi@simnet.is
Heimasíða landsmótsins er: www.thjodlist.is
Greinargerð
Kvæðamannamót 2013 verður fyrsta Landsmót kvæðamanna.
Þangað verða boðaðir kvæðamenn af öllu landinu og mun Steindór Andersen leiða dagskrána með námskeiði og tónleikum. Auk rímnalaganámskeiðs Steindórs verða kenndir tvísöngvar, bragfræði og vísnagerð. Mikilvægur liður í þessu fyrsta landsmóti kvæðamanna er að stofna landsamtök kvæðamanna.
Liður í því að efla íslenska þjóðtónlist er að mynda samstöðu með hópum þjóðtónlistarfólks sem eru starfandi í sínum heimahögum oft án stuðnings, hvatningar eða leiðbeiningar.
Okkar sérstæðasta þjóðtónlistarform, kvæðamennskan og rímnasöngur, er því miður hverfandi menningararfur. Ferðaþjónustuaðilar gætu nýtt sér þessa einstöku tónlistarhefð til þess að efla menningartengda ferðaþjónustu en einungis ef kvæðamennskunni er haldið við.
Fámennir kvæðamannahópar eru starfandi á víð og dreif um landið, en líka eru til fjölmenn og atkvæðamikil kvæðamannafélög, eins og Iðunn Í Reykjavík, Gefjun á Akureyri, Árgalar á Selfossi og Ríma á Siglufirði.
Til að styrkja kvæðamannafélög og ná til einstaka kvæðamanna þarf að vera til tækifæri fyrir alla að koma saman. Þar gegnir kvæðamannamót á Siglufirði lykilhlutverki.
Hvar er eðlilegri staður til að mynda samstöðu með kvæðamönnum en á Siglufirði? - í bæ sr. Bjarna sem
barðist svo ötullega fyrir því að bjarga þjóðtónlist okkar Íslendinga frá glötun með því að safna
íslenskum þjóðlögum, kvæðalögum og tvísöngvum og gefa út á mikilli bók 1909. Lengi hefur Siglufjörður skapað
sér sérstöðu sem heimabær þjóðlaganna með því að halda Þjóðlagahátíð árlega frá
árinu 2000 og opna Þjóðlagasetur árið 2006. Landsmót kvæðamanna er því arfleifð af ötulu starfi sr. Bjarna og uppfyllir
drauma hans um að ekki bara varðveita tónlistina heldur líka að viðhalda henni, svo hún megi verða lifandi tónlistarhefð alla tíð.
Athugasemdir