Fréttatilkynning frá Samtökum meðlagsgreiðenda

Fréttatilkynning frá Samtökum meðlagsgreiðenda Samtök meðlagsgreiðenda (SMG) lýsa þungum áhyggjum yfir frávísun kærunefndar jafnréttismála á máli sem

Fréttir

Fréttatilkynning frá Samtökum meðlagsgreiðenda

Samtök meðlagsgreiðenda (SMG) lýsa þungum áhyggjum yfir frávísun kærunefndar jafnréttismála á máli sem samtökin stóðu að baki gegn Þjóðskrá vegna synjunar stofnunarinnar um beiðni Gunnars Kristins Þórðarsonar, formanns SMG, um hann yrði færður til bókar sem umgengnisforeldri í þjóðskrá. SMG telja að kærunefnd jafnréttismála hafi með því gengið sjálf í berhögg við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem kærunefnd á að starfa samkvæmt og verja í úrskurðum sínum.

Forsagan er sú að formaður SMG, Gunnar Kristinn Þórðarson, sendi Þjóðskrá formlega beiðni þess efnis, að stofnunin færði hann til bókar „..sem umgengnisforeldri í þjóðskrá með tilteknu fjölskyldunúmeri eða með öðrum hætti svo að hann yrði sýnilegur og auðkenndur sem foreldri.“ (Sjá í meðfylgjandi úrskurði). Þjóðskrá synjaði ósk Gunnars með formlegum hætti, en í kjölfarið kærði SMG synjunina fyrir hönd Gunnars til kærunefndar jafnréttismála með vísun til þess að synjunin bryti í bága við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008.

Markmið ofangreindra jafnréttislaga er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar, skv. lögum þessum, er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin.

Þar sem langflestir umgengnisforeldrar eru karlar, þ.e. fráskildir feður, er ljóst að skráningavandinn er kynbundinn skilgreiningu samkvæmt. Afleiðingar þess að umgengnisforeldrar eru ekki auðkenndir sem foreldrar í þjóðskrá eru þær að þessi 14,000 manna þjóðfélagshópur verður ósýnilegur og órannsóknarhæfur, ólíkt lögheimilisforeldrum, -hvort heldur þeir eru einstæðir eða ekki.  Þannig eru rangar niðurstöður rannsókna settar fram í umræðuna um fjárhagslega stöðu ólíkra þjóðfélagshópa. Mikilvægi þessara rannsókna má best sjá í nýlegri ákvörðun stjórnvalda um að stórauka framlag ríkisins til barnabóta sem var m.a. grundvölluð á rannsóknum sem kváðu ranglega á um að barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar (einstæðar mæður) ættu sárast um að binda í samfélaginu. Hvergi kom hins vegar fram að hagir umgengnisforeldra væru ekki rannsakaðir, jafnvel þótt öllum megi vera ljóst að þeir búa við langverstu kjörin í samfélaginu. Skráningarvandinn leiðir einnig til þess að ríkið getur ekki komist á móts við þjóðfélagshópinn á nokkurn hátt, -jafnvel þótt vilji standi til, því þeir eru ekki til í bókum hins opinbera og eru umgengnisforeldrar færðir til bókar sem barnslausir einstaklingar. Benda má á nýjustu rannsóknir sem sýna að kostnaður umgengnisforeldra við uppeldi barna sem þeir hafa umgengni með er aðeins litlu minni en sá kostnaður sem lögheimilisforeldrar leggja í uppeldi skilnaðarbarna.

Að framansögðu er ljóst að um gríðarlega brýnt jafnréttismál er um að ræða. Það er álit SMG að kærunefnd jafnréttismála sé sjálf að brjóta umrædd jafnréttislög með því að vísa málinu frá og þar með komast hjá því að taka afstöðu í þessu brýna jafnréttismáli.  Til að bæta gráu ofan á svart færir hún ekki rök fyrir frávísuninni og þegar SMG biðja um frekari rökstuðning er beiðninni hafnað. Það er illt í efni þegar félagasamtök sem vinna að mannréttindum og njóta ekki ríkisstyrkja geta ekki reitt sig á opinbert úrskurðarvald sem hefur það eina hlutverk að skera úr málum sem þessum. SMG telja að kærunefnd sé lögunum samkvæmt skylt að taka afstöðu í málinu og úrskurða um lögmæti synjunar Þjóðskrár um að auðkenna umgengnisforeldrið sem foreldri í þjóðskrá, líkt og stofnunin gerir með lögheimilisforeldra.

SMG vilja fara þess á leit við stjórnvöld og Alþingi að þau tryggi að kærunefnd jafnréttismála sinni lögboðnum skyldum sínum í starfi.

Frávísun kærunefndar jafnréttismála hefur verið kærð til Umboðsmanns Alþingis.

Stjórn Samtaka meðlagsgreiðenda

Úrskurður kærunefndar er hér


Athugasemdir

16.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst