Fyrirtækið Siglunes hf. var stofnað 1996.
Þeir feðgar Oddur Jónsson, Gunnlaugur, og Sigurður Oddssynir, byrjuðu rekstur á Mávi SI-76 árið 1980.
Gunnlaugur, eigandi Sigluness, hefur starfað við það síðan.
Faðir þeirra hóf sjósókn mun fyrr, en þeir bræður hafa verið á sjó frá því að þeir voru guttar.
Fyrirtækið Siglunes var stofnað utan um rekstur á Mávi á þeim tíma sem Gunnlaugur átti bátinn orðið einn. Nú á Freyr sonur Gunnlaugs sinn eigin bát, Odd á Nesi SI-76, og stofnaði hann sitt eigið félag . Fyrirtækin eru þó rekin saman að sumu leyti og telur fólk þetta því oft vera aðeins eitt fyrirtæki, sem er þó ekki reyndin.
Hjá Siglunesi hf. og útgerðarfélaginu Nesinu ehf, sem Freyr á, starfa 25 manns á meðan á grásleppuvertíð stendur, en á öðrum tímum starfa 35 til 40 manns. Fyrirtækið hefur verið með fiskvinnslu í gangi tvö síðastliðin sumur og bættu þá við sig 6 til 8 starfsmönnum en óvíst verður með sumarið í ár.
Fyrirtækið byrjaði rekstur á Vesturtanga 2, sem þeir feðgar létu byggja, og var þá Gunnlaugur að róa á Mávi SI-76. Árið 2006 gat Gunnlaugur ekki verið lengur á sjó og var þá annað hvort í stöðunni að selja eða stækka fyrirtækið og kaupa kvóta og fleiri báta og reyna þannig að skapa atvinnu.
Árið 2008 kaupir Siglunes hf. síðan allt húsnæðið að Vesturtanga 2 til 6 og lætur byggja við húsið þannig að hægt yrði að vera með fiskvinnslu og frystigeymslu fyrir línubala, sem nú eru á fjórða hundrað og þurfa sitt pláss. Einnig er fyritækið með aðgerð á öllum fiski hvort sem þeir vinna hann sjálfir eða senda hann í Ólafsfjörð eða á aðra staði.
Bátafloti fyrirtækisins er Jonni SI-86, sem byggður var hjá JE á Siglufirði 2004, og Bára SI-10 sem keypt var 2008.
Útgerðarfyrirtækið Nesið á Odd á Nesi SI-76, sem byggður var hjá JE á Siglufirði 2010.
Hér koma nokkrar myndir af starfseminni og starfsmönnum fyrirtækisins.
Amalía og Elín Helga Þórarinsdætur, fylgjast með löndun úr Oddi Á Nesi SI-76.
Athugasemdir