Gamla myndin. Hallur Garibaldar
Þessa mynd tók Steingrímur Kristinsson af Halli Garibaldar.
Maður hefur oft heyrt talað um Hall Garibaldar. Þetta er semsagt maðurinn.
Ég man vel eftir bróðir hans, Óskari Garibaldar. Reyndar man ég alveg mjög vel eftir honum.
Þegar ég var smápúki og átti heima á Hvanneyrarbraut 25c læddist maður oft upp eftir til Óskars þar sem hann átti heima í næsta húsi fyrir ofan okkur.
Á milli húsanna var alveg "risa stórt" tún sem í dag er alveg furðulega lítið, og maður klofaði arfa upp fyrir axlir yfir túnið til þess að komast í "koktail" boð hjá Óskari. Arfinn þurfti svosem ekki að vera stór til þess að yfirgnæfa búttaðann lágvaxinn strákpúka sem hugsaði um lítið annað en sætindi og mat. Reyndar stöku sinnum um byssur og löggu og bófaleiki.
Ég segi "koktail" boð vegna þess að þegar krakkahópurinn sem var að leika sér á túninu sem er fyrir ofan húsið sem Óskar bjó í bauð hann okkur reglulega í smurt brauð og kakó. Brauðið var smurt og settur ostur á og svo var þetta skorið í teninga og tannstöngull settur í. Þetta voru magnaðir tímar og 5ára var maður byrjaður að fara reglulega í "koktail boð". Geri aðrir betur.
Ég get sagt meira um Óskar vin minn Garibaldar en ég ætla að láta það bíða þangað til ég finn mynd af þeim heiðurs manni.
En vafalaust hefur Hallur bróðir hans verið jafn góður maður þó ég hefi ekki þekkt til hans og það væri mjög gaman ef þið gætuð sagt okkur einhverjar sögur af þessum heiðurs mönnum. Átti Hallur ekki gula húsið við hliðina á húsinu Óskars? Er það ekki alltaf kallað Halls húsið og hugsanlega þá dregið af Halli Garibaldar?
Athugasemdir