Konur sem þora
Notað og nýtt. Spútnik sem lífstíll.
Litlum verslunum sem selja notuð föt hefur fjölgað í miðbænum. Þetta eru sjarmerandi verslanir sem hafa hver sinn sérstaka karakter.
Þessar
verslanir eru kreppuvænar, því peningabuddan verður yfirleitt fyrir
nokkuð léttvægara hnjaski þegar versluð eru notuð föt en ný.
gamlir&flottir skór
Föt úr vönduðu efni og með góðu handbragði duga lengi og er vel hægt að nota í fjölda ára, nánast að eilífu. Mér finnst virkilega gaman að sjá á götu vel klæddar ungar konur sem
hafa raðað saman gömlum og nýjum fatnaði af vandvirkni og með
útsjónarsemi. Skemmtilegir fylgihlutir gera oft útslagið á vel heppnaða
samsetningu. Langar Charleston gerviperluhálsfestar eru eitt af því sem
sést oft og skrautlegir áberandi skór með MJÖG háum hælum!
Oft hefur virkilega vel tekist til og útkoman verður listrænn og flottur persónulegur stíll.
Ég nefni sérstaklega ungar konur í þessu sambandi því karlar eru
yfirleitt ekki á þessari línu hvorki ungir né eldri. Við konur
sem eldri erum virðumst íhaldssamari eða vanafastari skulum við kalla
það. Það er vægast sagt afar sjaldgæft að sjá konu á mínum aldri
klædda sundurgerðarlegum fatastíl.
Þær Röggu Gísla og Bryndísi Schram dettur mér í hug að nefna sem dæmi um konur sem hafa löngum þorað að klæðast öðruvísi og eiga heiður skilinn fyrir það. Flottar, listrænar og smekkvísar sem þær eru og setja sannarlega lit á mannlífið.
Athugasemdir