Skortur á frjálsum óháðum fjölmiðlum á landsbyggðinni er stórhættulegt lýðræðisvandamál !

Skortur á frjálsum óháðum fjölmiðlum á landsbyggðinni er stórhættulegt lýðræðisvandamál ! Málefni venjulegs fólks á landsbyggðinni eru sjaldan birt í

Fréttir

Skortur á frjálsum óháðum fjölmiðlum á landsbyggðinni er stórhættulegt lýðræðisvandamál !

Á BÆJARLÍNUNNI
Á BÆJARLÍNUNNI

Málefni venjulegs fólks á landsbyggðinni eru sjaldan birt í stærri fjölmiðlum á Íslandi. Einfaldlega vegna þess að í þeim vefmiðlum, eða þeim örfáu prentuð blöðum sem fólk hefur aðgang að, eru ekki birtar neinar “krítískar” greinar um bæjar- og stjórnsýslumál eða umræða um málefni sem fólk er ekki sammála um.
Fullt af tilkynningum og “fréttum um ekki neitt” birtast vissulega daglega og allt virðist á yfirborðinu vera í góðu lagi og auðvitað hafa stærri fjölmiðlar engan áhuga á að birtar eða vitna í "fréttir um ekki neitt", en þeir eru svo sem ekkert sérstaklega duglegir eða áhugasamir um að afla sér frétta frá landsbyggðinni heldur.

Hér er ekkert að gerast, öll dýrin í skóginum eru vinir og allir eru sammála, eða hvað?

En þegar maður er á kaffihúsi, í matarboðum eða bara í kaffipásu í vinnunni þá er fólk að tala um málefni dagsins og um það sem er á “bæjarlínunni” þessa stundina. En í dag getur maður virkilega spurt sjálfan sig hvaðan fréttirnar sem fólk er að tala um koma, sérstaklega í litlum bæjarfélögum út á landi.

“Neiiiii, é dúdda mía, hvar heyrðurðu þetta?“  Svarið er oftast:

„Las þetta á “Gróa á Leiti.is” eða “Skúli fúli.” Var að blogga um þetta og svo birti “Fúll á móti (öllu)” meira segja mynd af þessu á Facebook!“ Guð minn almáttugur er þetta SATT?

Já, einmitt er þetta satt?

Það eru ekki margir sem hafa það fyrir atvinnu á landsbyggðinni að spyrja bæjarstjórann, nefndarformenn eða aðra ráðamenn spurninga, leita að sannleikanum og sjá til að hann sé birtur á þann hátt að almenningur geti byggt sér skoðanir sem byggja á áreiðanlegum heimildum. Það er einnig mikilvægt að þeir sem gefa sig í pólitísk störf hafi möguleika að útskýra sínar ákvarðanir án þess að vera rakkaðir niður í kjaftasögum og ósannindum sem fer eins og eldur um sinu á bæjarlínunni og á Facebook.

Það er jafn mikilvægt lýðræðislegt réttlæti að fólkið í bænum fái áreiðanlegar fréttir eins og að ráðamenn fái að útskýra sínar ákvarðanir á sanngjarnan hátt.

Allir virðast eiga “sannleikan” í dag, eða að minnsta kosti taka sér það bessaleyfi að birta:
“Alternative news og alternative truth.”

Hver vill svo sem bjóða sig fram í ábyrgðarstöður í nefndum og önnur lýðræðislega mikilvæg störf, eyða sínum frítíma í eitthvað sem maður fær bara skít og skömm fyrir og taka þá áhættu að fólk getir ekki gert greinarmun á lýðræðislegu sjálfboðastarfi og persónu?

Í dag er það þannig að þegar Gróa á Leiti.is er þegar búinn að segja öllum “sannleikan” hefur fólk sem lendir í kjaftinum á henni enga möguleika að verja sig eða útskýra sína hlið á málinu. Það fólk á sér ekki viðreisnar von.

Hvar? Eða hver á svo sem að birta það? Hver hefur svo sem áhuga á að heyra “sannleikann”? Þetta er þegar orðinn gömul frétt, allir eru nú þegar búnir að heyra sannleikann.

Gróa er svo góður og afkastamikill ritstjóri og vegna skorts á samkeppni er hún alltaf fyrst út með “fréttirnar og sannleikann”.

Það er kannski ekki svo skrítið að fólk á Íslandi „neyðist” til að kjósa yfir sig sömu vitleysuna aftur og aftur á fjögurra ára fresti. Samt er enginn skortur á hæfileikaríkum konum og körlum á Íslandi.
Lýðræði felst ekki í því að bara kjósa og fara síðan heim og nöldra á Facebook í fjögur ár. Virkir ríkisborgarar taka þátt í uppbyggingu samfélagsins hvort sem það er stutt í kosningar eða ekki.

En svo þarf náttúrulega einhvern/einhverja í það að „þora” að spyrja, þora að birta og opna umræðu um hluti sem við erum ekki sammála um án þess að tapa auglýsingatekjum, án þess að fá á sig persónulegan skít og ásakanir um til dæmis að hafa einhvern persónulegan ávinning af birtingu frétta.

En að sjálfsögu er mikilvægt að skrif minni landsbyggðarmiðla snúist aldrei um að ráðast á persónu annarra, því það er verulegur munur á persónu fólks og því opinbera hlutverki sem sú manneskja gegnir í samfélaginu. Það er mjög sárt og leiðinlegt að heyra niðrandi orð um fólk sem hefur setið í nefndum og unnið óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins, eftir bestu getu, það á náttúrulega þakkir skildar.

En markmið opinnar umræðu í réttu formi er að fá fram nýjar hugmyndir og nýjar lausnir og við erum ekki óvinir þegar við skiptumst á skoðunum.

"Við erum bara sammála um að vera ósammála."

Því það getur líka verið lausn í hinu góða formi af lýðræðissamfélagi að nefndir og stjórnir sem telja sig ekki geta fjárhagslega, stjórnsýslulega eða hreint af lagalega sinnt sínum verkum, að þá þarf það hvorki að vera ósigur eða niðurlæging að segja af sér ábyrgð og láta aðra nýja krafta koma með lausnir, nýja forgangsröðun og hugmyndafræði.

Stundum fá fréttaritarar minni landsbyggðarmiðla ásakanir á sig um að með því að birta neikvæðar grein um „okkar” annars svo fallega fjörð/bæjarfélag sé að skapa sundrung og ósætti. En því miður liggur það oft í manneskjulegu eðli að „skjóta frekar saklausan boðberann.” Það er miklu auðveldara en horfast í augu við kaldan veruleikann.

Það er líka svo létt og einfalt að sitja heima og vera “Skúli fúli” sem er almennt á móti öllu, bara öllu, án útskýringa á netinu og telja sig ekki þurfa að standa fyrir neinu sem maður hrækir út úr sér.

Það hlýtur að vera hlutverk minni bæjarmiðla/landsbyggðarmiðla að birta myndir og skrifa um hluti sem íbúar svæðisins eru ekki ánægðir með og ekki bara tilkynningar, myndir af fallegu sólarlagi og fréttir af skemmtanalífi og hátíðum. Nei, og hér fer ekki fram rannsóknarblaðamennska á háu stigi heldur, en skoðanafrelsi verður að ríkja hér í réttu formi, þó að við búum í litlum bæ út á landi þar sem allir eru sammála um flest.

Þá getur því miður líka ríkt hættulega sterkur andi í óskrifuðum lögum að það sé nú best að:
“Öll dýrin í skóginum séu vinir”.
Þó getur það líka verið jafn hættuleg hugmyndafræði eins og hún er falleg, því þá verður engin þróun, ekkert sem rekur okkur áfram, enginn vilji til að gera betur, allir eru bara sammála um að allt sé gott eins og það er núna.

Minni landsbyggðarmiðlar eiga að vera þeir miðlar þar sem ekkert er of smátt eða ómerkilegt eða of stórt til að skrifa um, lífið og fólkið á svæðinu er grunnur þessa miðils. Það getur ómögulega verið svo að málefni venjulegs fólks úti á landi séu svo ómerkileg og lítil að það sé ekki áhugavert fyrir stærri fjölmiðla landsins að birta fréttir um slík málefni.

Þar eru bara birtar fréttir um stórar og mikilvægar ákvarðanir sem að mestu leyti eru teknar og ræddar langt frá þeim veruleika sem flestir úti á landi lifa í.

Þess vegna er það lýðræðislega stórhættulegt að mikil skortur er á frjálsum óháðum miðlum úti á landi og þeim fer fækkandi vegna stuðnings- og skilningsleysis ríkisvaldsins.

Í lokin vill greinarhöfundur vitna í meistararitgerð frá 2014 sem skrifuð var við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands sem fjallar um vinnuaðstöðu fréttaritara á minni miðlum landsbyggðarinnar, þar sem þeir eru spurðir um eigið frelsi til að skrifa gagnrýnar fréttir.

„Hluti blaðamanna þorir vart að skrifa gagnrýnar greinar um nærsamfélagið, einmitt vegna ótta um að verða fyrir aðkasti.”

Lifið heil,

Texti og mynd

Jón Ólafur Björgvinsson (Nonni Björgvins)

Greinarhöfundur er íslenskur ríkisborgari fæddur og uppalinn á Siglufirði en búsettur í Svíþjóð.

Sjá einnig:

GUÐ ER FÍFL !......... og hann býr greinilega í REYKJAVÍK ! Sunnudagspistill.

Tvær þjóðir í einu landi ?

Þessi pistill hefur einnig verið birtur í öðrum landsbyggðamiðlum: 

Eyjar.net

bb.is (Bæjarins besta, vikublað) 

Hægt er að lesa lengri útgáfu sem birtist á Akureyri.net 14 febrúar hér.


Athugasemdir

07.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst