Gjörningur í fjöru
Innsend grein frá Örlygi.
Gjörningur í fjöru
Margvíslegir listgjörningar fóru fram víða um bæ nú á dögunum þegar fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri var hér í vikulöngu námi hjá Öllu Siggu, Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, í Alþýðuhúsinu – og var það hluti af fjögurra vikna námskeiði hennar.
Við, vegfarendur, urðum margir steinhissa á uppátækjum fólksins og lái okkur það enginn; okkur sem ungum var kennt að ekki sé önnur fögur list en innrammað „Hólshyrnumálverk“ á stofuvegg!
Undirritaður fylgdist með tveimur gjörningum listafólksins um daginn. Sá seinni var mjög áhrifarík athöfn í síðdegismyrkri úti í Hvanneyrarkrók til minningar um þá sem villst höfðu af leið og horfið.
Horfið í hafið.
Hlaðin var varða (varðan vísar réttan veg) – og á toppi hennar var tendraður logi á stóru kerti. Síðan var athöfnin fólgin í því að hver og einn viðstaddra tók sér steinvölu í hönd og hvíslaði að henni kveðju og lagði í vörðuna – einnig lítið kerti í glufu. Þannig týrðu kertaljósin um stund uns sunnangjóla slökkti á þeim og toppkertið eitt flökti í myrkrinu. Ekkert var sagt og þögn ríkti. Utan frá hafinu bárust öldurnar og léku sitt hlutverk. Féllu ýmist að fjöruborðinu með mjúku gjálfri eða þær risu hver á fætur annarri, brotnuðu með þungum dynk og slengdu hvítu löðri eins og ógnandi upp í sandinn.
Að hálfri stundu liðinni lauk þessari dimmu og áhrifamiklu samveru og allir gengu örugga leið heim.
-ÖK
Ásmundur leggur fyrsta
litla kertið inn.
Nokkrum dögum
síðar hafði aldan grafið undan vörðunni.
Og svo myndir frá öðrum gjörningum hópsins.
Athugasemdir