Göngustígur – reiðstígur.
Þegar barist var fyrir því að fá malbikaðan göngustíg við Langeyraveg þá datt mér ekki í hug að það ætti eftir að gera hann að reiðstíg í tvo mánuði yfir vetratímann.
Ég verð að segja að þessi ákvörðun bæjaryfirvalda veldur mér miklum vonbrigðum og óþægindum eins og mörgum öðrum sem labba þarna daglega, að gera göngustíg sem er skilgreindur á aðalskipulagi að reiðstíg í tvo mánuði finnst mér virðingaleysi við gangandi útsvarsgreiðendur.Ástæða
þess að Haraldur Marrteinsson óskar
eftir leyfi fyrir hestamenn til bæjaryfirvalda að fá að nýta göngustíginn sem
reiðstíg í tvo mánuði eða til mánaðamóta febrúar/mars er mér hulin ráðgáta. En
ég ímynda mér að það sé vega mikilla snjóa á svæði því sem hestamenn nota til
útreiða. Það kemur ekkert fram um það í fundargerðinni. Þetta samþykkir
skipulags og umhverfisnefnd án nokkurra kvaða eins og það að hreinsa þá upp
skítinn eins og t.d. hundaeigendum er gert að gera. Bæjarstjórn samþykkir svo
fundargerðina á bæjarstjórnafundi 11 janúar samhljóða.
Ekki þykir mér það góð stjórnsýsla að etja fólki svona saman, væri ekki nær að kjörnir fulltrúar kynntu sér málin til hlítar og bentu á aðra kosti, mætti ekki nýta vesturkant flugvallar? Nú þegar hafa einhverjir hestaeigendur nýtt sér hann og engir árekstrar við ganga vegfarendur. Nú eða aðstoða hestamenn við mokstur á vegi sem liggur fyrir neðan skeiðvöll og upp gamla veginn frá dæluskúr og að hesthúsum. Með þessu væri komið í veg fyrir árekstra og hestamenn og gangandi vegfarendur stundað sína útivist óáreit.
Mér þykir áhugavert að hestamenn í Siglufirði vilji ríða við hlið þjóðvegar meðan hestamenn í Ólafsfirði vilja vera sem lengst frá þjóðvegi og fengu bætur ef ég man rétt vegna mikilla umferðar við gerð Héðinsfjarðargangna.
Mér finnst það virðingaleysi við þá íbúa sem nýta sér göngustíginn sem nær frá Torginu að brúnni yfir Hólsá (Fjarðará) að gera hann á kafla að reiðstíg og toppaði það virðingaleysið þegar í ljós kom að “reiðstígurinn” er mokaður en göngustígurinn frá Torginu að Norðurtúni er ómokaður, og gangandi vegfarendum er beint út á götuna á þjóðveg í þéttbýli en þarna fara að meðaltali rúmlega fimmhundruð bifreiðar á dag. Eða halda menn að umferðin sé bara í Héðinsfjarðargöngunum?
Ég var á göngu um umrætt svæði síðastliðinn sunnudag og tók nokkrar myndir sem sýna aðstæður, en þessa helgi var mikil umferð um Langeyraveg brettamót í Skarðinu og mikið af fólki á ferðinni. Ennþá er uppi skilti sem sýnir að hestaumferð er bönnuð. Þetta er kannski lýsandi fyrir vinnubrögð starfsmanna sem hafa með þessi mál að gera. Það er ekki eins og starfsmenn eigi ekki leið þarna um, sumir hverjir nokkrar ferðir á dag en samt er eftirtektasemin fyrir sínu nánasta umhverfi ekki betri en raun ber vitni. Má skjóta því hér inn að sama gildir um ruslið eftir brennurnar það liggur ennþá við þjóðveginn en það er samningsbundið að sveitarfélagið sjái um að hirða upp leifarnar. Þetta eru léleg vinnubrögð að mínu mati og hafa verið undanfarin ár.
Bæjarstjórinn talaði um í grein sem hann skrifaði á sksigló í byrjun janúar að við ættum að bera virðingu fyrir hvort öðru og tek ég heilshugar undir það, en þá vil ég líka að það sjáist hjá stjórnendum sveitarfélagsins. Virðing í verki ekki bara prenti.
Hermann Einarsson
Athugasemdir