Grjótveggur við Hlíðarhús
Starfsmenn Síldarminjasafnsins hafa verið iðnir að undanförnu við að hlaða þrjátíu metra langan grjótvegg við Hlíðarhús á Hávegi.
Við malbikun götunnar fyrir tveimur árum var gengið nokkuð á lóð hússins og bakkinn rofinn þar sem áður voru grjóthleðslur fram að gamla malarveginum.
Hleðslumennirnir kvarta undan skorti á góðu grjóti, köntuðu og stóru og segja að veggurinn beri þess merki – neðsta lagið varð allgott en síðan varð það að ráði að vinna verkið frjálslega og nýta sér jarðrask í mynni Skarðdals og sækja þangað lyngtorfur og hnausa og bæta ofan á grjótið.
Þess má geta að Anna Snorradóttir gaf safninu Hlíðarhús fyrir einu og hálfu ári.
Af fréttavef Síldarminjasafnsins; sild.is
Athugasemdir