Hvað er AFE og hvað er VAXEY
Miklar umræður spruttu upp í gær á vefnum um það hvað AFE og hvað VAXEY séu eiginlega, of miklar skammstafanir þar á ferð. En AFE stendur fyrir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og VAXEY stendur fyrir Vaxtarsamning Eyjarfjarðar, en hér er þó betri skilgreining.
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar er byggðasamlag sjö sveitarfélaga við Eyjafjörð. AFE er ætlað að vera leiðandi afl í uppbyggingu atvinnu og þróunar á Eyjafjarðarsvæðinu með það að markmiði að fjölga atvinnutækifærum, efla hagvöxt, auka fjölbreytileika þeirra starfa sem í boði eru, skapa hagstæð skilyrði fyrir ný verkefni og tækifæri og efla Eyjafjörð sem eftirsóttan valkost til búsetu. AFE er einnig ætlað að vera samráðsvettvangur aðildarsveitarfélaganna í sameiginlegum hagsmunamálum.
Vaxtarsamningur Eyjafjarðar er samningur milli iðnaðarráðuneytisins (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins) og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Núgildandi samningur var undirritaður í lok febrúar 2012 og gildir fyrir árin 2012 og 2013. Meginmarkmið samningsins er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins á starfssvæði Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.
Athugasemdir