Hvað er í gangi?
Hafi þið einhverntíman velt því fyrir ykkur hvað sést lítið til barna úti að leik í öllum þessum snjó?
Nú mun ég líklega hljóma eins og biluð plata (fyrir ykkur unga fólkið sem hafið ekki séð plötur þá voru lög
spiluð af plötum sem líta út eins og nokkurs konar risastórir geisladiskar, yfirleitt svartar en man eftir einni rauðri sem þótti nú nokkuð
merkilegt í gamla daga heima hjá Leó Inga, syni Leós Ólafs og Sísiar Ingólfs).
Ég hef velt þessu mikið fyrir mér og er orðin nokkuð vel brynjaður og óvanur að sjá til barna að renna sér niður brekku,
búa til snjókarla og stökkva niður af húsþökum, sem ég reyndar er mjög fegin að sjá ekki lengur eftir að ég varð
faðir sjálfur, það er að segja þetta með stökkin ofan af húsþökunum. Mér vægast sagt krossbrá þegar ég
sá 3 unglingsstráka renna sér niður Þormóðsbrekkuna fyrir stuttu. Ég stoppaði bílinn, horfði á þá leika sér
og hugsaði með mér "hvurn fjandann eru þessir eiginlega að gera"?
Ég stökk út úr bílnum og spurði þá hvort það væri eitthvað að? Er ekki örugglega allt í lagi með
playstation tölvuna ykkar? Þeir svöruðu einfaldlega að þeim fyndist bara skemmtilegra að vera út að djöflast. Ég sagði þeim frekar
pirraður að ég mundi nú láta foreldra þeirra vita af því að þeir væru að leika sér úti í
snjónum!!
En án alls gríns þá fannst mér þetta alveg hrikalega skemmtilegt. Hafi þið einhverntíman velt því fyrir ykkur (þið sem
eruð ekki alveg kornung) hvað það væri gaman að sjá börn og unglinga vera úti að braza en ekki hangandi inni í öllum þeim
afþreygingarsjónvarpstölvuleikjum og sjónvarpseríum sem eru í boði? Að sjá barn í dag úti að leika sér er orðið
jafn óeðlilegt og það var algjörlega eðlilegt fyrir nokkrum árum, allavega fyrir mann sem er nýfluttur af mölinni og kominn í "stórasta"
smábæ í heimi. Auðvitað var öll þessi vitleysa hérna efst í greininni hauga lýgi, þ.e.a.s. samtalið við drengina.
Ég fékk að smella nokkrum myndum af þeim og ég vona svo sannarlega að dætur mínar nenni að fara út að leika sér í snjónum eða í grasinu á komandi árum og spyr í leiðinni, er ekki komin tími á að einhenda krökkum út að leika sér og fara í playstation tölvuna sjálfur á meðan krakkarnir eru úti? Ég ætla samt ekki að mæla með því að renna sér í Þormóðsbrekkunni þó svo að ég hafi átt þar nokkur hundruð ferðir niður. Þetta var bara eitthvað svo heilbrigt og hrikalega skemmtilegt að sjá.
Myndir og texti:
Hrólfur Baldursson
Athugasemdir