Hvanndalir – samgöngubætur !
Hvanndalir – samgöngubætur !
Þau hjónin Björn Z Ásgrímsson og Sóley Ólafsdóttir eru fararstjórar í ferð Ferðafélags Íslands um Héðinsfjörð og Hvanndali um þessar mundir. Til stendur að fara fjöruna fyrir Hvanndalaskriður á bakaleiðinni sem verður að gera á fjöru.
Það getur hins vegar verið erfitt að komast niður í fjöruna Hvanndalamegin og eins upp úr henni í Héðinsfirði. Þau hjónin hafi því við undirbúning ferðarinnar unnið að því að gera leiðina sem greiðfærasta.
Á dögunum var farinn leiðangur og gengið með keðju, sleggju og teina úr Héðinsfirði út í Landsenda þar sem keðjunni var komið fyrir og hún reynd. Einnig verður komið fyrir keðju Hvanndalamegin en ekki reyndist mannskapurinn viljugur til að burðast með dótið yfir Víkurbyrðuna og því verður notaður bátur til þeirra flutninga.
Á meðfylgjandi myndum má sjá Björn Z og Guðbrand Ólafsson reyna styrkleika þessa nýja mannvirkis svo og aðra leiðangursmenn Sóleyju, Sigríði Hjaltested og Valtý Sigurðsson.
Þau hjónin Björn og Sóley eiga heiður skilið fyrir þessa samgöngubót sem vonandi mun gera fleiri kleift að sjá þennan magnaða stað sem Hvanndalir vissulega eru.
Valtýr Sigurðsson
Athugasemdir