Skynörvunarherbergið í Fjallabyggð

Skynörvunarherbergið í Fjallabyggð Tilkoma þessa skynörvunarherbergis hér í Fjallabyggð má rekja til þess er verið var að hanna nýtt húsnæði fyrir Iðju

Fréttir

Skynörvunarherbergið í Fjallabyggð

Kiwanisfélagar ásamt Hrefnu Katrínu Svavarsdóttur ráðgjafaþroskaþjálfara
Kiwanisfélagar ásamt Hrefnu Katrínu Svavarsdóttur ráðgjafaþroskaþjálfara
Tilkoma þessa skynörvunarherbergis hér í Fjallabyggð má rekja til þess er verið var að hanna nýtt húsnæði fyrir Iðju dagvist. Þá kemur upp sú hugmynd í vinnuferlinu að gaman væri að nýta smá rými í að útbúa herbergi út frá hugmyndafræði Snoezelen.

Sú hugmyndafræði snýst í meiginatriðum um að örva sjón, heyrn, snertingu og lykt í umhverfi sem er öruggt, friðsælt og afslappandi. Gert var strax í upphafi ráð fyrir fjármagni í þetta verkefni, það fjármagn dugði aðeins fyrir broti af því sem verkefnið svo endaði í. Þegar þessi vinna er í startholunum þá er Þórir Kristinn Þórisson bæjarstjóri í Fjallabyggð.

Húsnæði Iðjunnar er svo vígt, 1.apríl sl. og Þórir þá gengin til annara starfa en kemur til okkar með þessa skemmtilegu hugmynd um að hann ætli sér að hjóla í til Siglufjarðar frá Reykjavík og í leiðinni ætli hann að safna áheitum fyrir þetta merkilega herbergi. Þórir er nú þekktur fyrir að gera það sem hann kemur nálægt, með miklum stæl og þannig var það nú einnig með þessa hjólaferð hans.

Þórir setti sér markmið um að safna 1 milljón og fékk hann Guðmund Guðlaugsson fyrrverandi bæjarstjóra á Siglufirði og á Sauðaárkróki til að vera verndara söfnunarinnar. Hann auglýsi ferð sína í fjölmiðlum, blöðum, í útvarpi og sjónvarpi. Hann gekk á milli fyrirtækja í borginni og hér í bænum og auglýsti og hvatti fólk til að leggja söfnuninni lið. Fyrirtæki styrktu hann einnig í merkingum fyrir söfnunina, hjólabúnaði og fatnaði, gistingu og næringu fyrir hann á leiðinni og svo fékk hann slatta af karmellum frá góðu nammi fyrirtæki sem hann nýtti í að gefa þar sem hann kom við á leiðinni.

Hann hóf svo ferð sína frá Seltjarnarnesi, 21.júní og hjólaði 400 km á þrem dögum og kom hingað til Siglufjarðar þann 24.júní, þar sem beið hans mikil móttökunefnd. Fólk hjólaði með honum áleiðis og nokkrir jafnvel frá Ketilási eða bættust við á þeirri leið. Hópur fólks var við Strákagöngin sem hjólaði með honum síðasta spölinn í bæinn.

Slökkviliðið sprautaði upp hlið við bæjarmörkin og bæjarstjórinn Sigurður Valur Ásbjarnarson, ásamt fríðu föruneyti, tók á móti honum á sviðinu við torgið. Eftir það var svo öllum boðið í kaffi og meðlæti í nýju Iðjunni.
Þegar Þórir kom hingað til Siglufjarðar þá stóð söfnunin í 1.513.516.-kr.

Þórir afhenti þá upphæð 7.október sl. og var þá farið í að panta búnaðinn í herbergið. Búnaðurinn kom svo hingað til Siglufjarðar á mánudaginn 16.janúar sl. frá Danmörku og Þýskalandi. Félagsmenn í Kiwanisklúbbi Skjaldar ætla að taka að sér að setja upp búnaðinn.

Herbergið verður, eins og áður var getið, útbúið út frá hugmyndafræði Snoezelen þar sem takmarkið er að örva sjón, heyrn, snertingu og lykt í umhverfi sem er öruggt, friðsælt og afslappandi. Þar á einstaklingurinn að hvílast frá venjubundnu áreiti í þægilegu og rólegu andrúmslofti með mildri birtu, og róandi tónlist. Þarna á að eiga sér stað einstaklingsbundin upplifun sem fyrir suma getur verið slökun, en fyrir aðra örvun. Markmiðið með skynörvunarherbergis er reynslan og upplifun einstaklingsins af ánægju í gegnum skynfærin.

Herbergið verður útbúið í þægilegum og mildum litum og útbúið vatnsrúmi með hátölurum í botninum svo að tónlist geti magnast í gegnum vatnið. Ljósþræðir sem hanga úr loftinu. Vatnssúla sem gefur frá sér ljósbirtu, skjávarpi sem endurkastar myndum á vegginn. Góðar hljómgræjur og ilmtæki. Þessu verður svo pakkað inn með púðum og allskonar herlegheitum. Einnig verður til staðar hengirúm sem mun nýta utan þessa skilgreinda rýmis. Herbergi þetta er ekki hugsað til þess að sofa í heldur til að njóta örvunarinnar og slökunar og eiga góða stund hvort sem það er með öðrum einstaklingi s.s. þroskaþjálfa, iðjuþjálfa eða bara að vera einn með sjálfum sér.

Fötluðu fólki í Fjallabyggð og nágrenni ásamt fötluðum börnum í grunn- og leikskóla Fjallabyggðar mun standa til boða að nýta sér þetta einstaka herbergi.

Fyrir hönd iðju dagvistar og allra þeirra sem eiga eftir að njóta þessa skynörvunarherbergis viljum við færa framtaksmanninum Þórir Kr. Þórissyni fyrrverandi bæjarstjóra Fjallabyggðar og hans fylgdarmönnum, bestu þakkir fyrir að hafa hjólað þessa ferð til styrktar þessa verkefnis.

Kiwanisklúbburinn Skjöldur fær innilegt þakklæti fyrir uppsetningu á búnaðnum og einnig færum við öllum þeim sem gáfu í þessa söfnun með einum eða öðrum hætti, kærar þakkir fyrir.









Ægir Bergsson, að ganga frá hljómflutningstækjum









Hallgrímur, með bassahátalarann







Frá vinstri. Konráð Baldvinsson, Jóhannes Friðriksson, Hrefna Katrín Svavarsdóttir, Arnar Ólafsson og Hallgrímur Vilhelmsson.

Texti: Hrefna Katrín Svavarsdóttir
Ráðgjafaþroskaþjálfi

Myndir: GJS


Athugasemdir

29.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst