Jaðrakanar merktir

Jaðrakanar merktir Nú á dögunum fóru fram hinar árlegu jaðrakanamerkingar hér á Siglufirði. Þeim stjórna Bretarnir Peter Potts og Ruth Croger ásamt

Fréttir

Jaðrakanar merktir

Merkingar á Siglufirði
Merkingar á Siglufirði

Nú á dögunum fóru fram hinar árlegu jaðrakanamerkingar hér á Siglufirði. Þeim stjórna Bretarnir Peter Potts og Ruth Croger ásamt aðstoðarfólki sínu frá Hollandi og Frakklandi. Þau hafa verið á Íslandi í hálfan mánuð og komu hingað frá Vestfjörðum þar sem fengurinn var heldur rýr.

Þau voru hins vegar himinlifandi yfir árangrinum hér á Siglufirði - samtals náðu þau 22 jaðrakönum í net sitt í einu skoti og voru tveir þeirra merktir fyrir, þannig að þau merktu hér 20 fullorðna fugla. Einnig merktu þau 5 jaðrakanaunga. Ýmsar mælingar eru gerðar á fuglunum, stærðir og þyngd, einn kvenfuglinn vóg 435 grömm, en það er þyngsti jaðrakan sem þau hafa rekist á.


Þetta var kvenfugl og er hún sennilega tilbúin til brottfarar, enda búin að safna nógu mikilli fitu til að komast langt -kannski alla leið suður til Marakkós eða Portúgals en þar eru þeir syðstu af mörgum vetrardvalarstöðvum jaðrakananna sem hingað flykkjast svo í apríl ár hvert til að verpa.


Peter og Ruth telja Siglufjörð einna besta stað á landinu til þessara rannsókna og minnast skots í fyrra sem gaf þeim 29 fugla til merkinga. Eyrún Brynja Valdimarsdóttir tók þátt í verkefninu þessa þrjá daga og var farin að merkja sjálf í lokin.

Guðný Robertsdóttir kennari er tengiliður Bretanna hér á staðnum og hefur hún fært þetta samstarf inn í skólann og er þar skemmst að minnast Norrænu umhverfisverðlaunanna sem siglfirsku skólabörnin fengu fyrir tveimur árum.

Að sögn Guðnýjar hefur þetta jaðrakanaverkefni í skólanum staðið frá árinu 2006. Á þessu ári unnu krakkarnir í 3. og 4. bekk með jaðrakana í samstarfi við skóla á Írlandi og Englandi og er hægt að lesa um það og sjá myndir á sameiginlegri heimasíðu þessara þriggja skóla.

Samstarfsverkefnið er alltaf að breytast og mismunandi verkefni hvert ár, nú í ár tóku skólarnir upp samstarf í gegnum Skype og gerðu írsku krakkarnir myndband sem sett var á Youtube nú í vor.  Heimasíðan er:

http://scoiliosaefnaofa.com/Godwit.htm 

Texti og mynd: ÖK.


Athugasemdir

08.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst