Laugi póstur „kominn heim“
Nokkrir afkomendur Lauga pósts afhentu Ljóðasetrinu á dögunum glæsilega gjöf. Þar var um að ræða handskrifaðar bækur hans með ljóðum og rímum sem hann samdi, blaðaúrklippur, viðtöl og fleira.
Efnið hefur auk þess verið skannað og sett á disk og sumt einnig ljósritað í möppur. Liggur mikil vinna að baki og verkið greinilega unnið af mikilli ástúð.
Með gjöfinni fylgdi einnig geisladiskur með upplestri Lauga á ferðasögu í bundnu máli sem lýsir ferð hans frá Siglufirði til Reykjavíkur með Bigga Run árið 1954, en upplestrinum var útvarpað í Ríkisútvarpinu á sínum tíma og fluttur hér á Siglufirði við önnur tækifæri.
Laugi póstur hét fullu nafni Guðlaugur Sigurðsson og fæddist á bænum Hamri í Stíflu árið 1891 en bjó sín æskuár á Þorgautsstöðum í sömu sveit, sem síðar fór undir stöðuvatn vegna Skeiðsfossvirkjunar. Hann flutti síðan í Haganesvík, þar sem hann stundaði hákarlaveiðar en til Siglufjarðar flutti hann um 1920 og var lengst af póstberi á staðnum.
Laugi var hagmæltur mjög og hafsjór af fróðleik um kveðskap og hina ýmsu bragarhætti. Hann setti svip á lífið á Siglufirði á sinn hægláta hátt og var fólki gjarnan innan handar við að yrkja eftirmæli, afmælisvísur og slíkt auk þess sem hann sendi frá sér ljóðakver og ljóð hans birtust í ýmsum blöðum og tímaritum. Hann lést árið 1971.
Á ljóðahátíðinni Glóð, sem haldin verður hér á Siglufirði dagana 15. – 17. næsta mánaðar, verður sérstök dagskrá um Lauga póst á Ljóðasetrinu og þessi góða gjöf sem setrinu barst verður til sýnis.
Hrönn Magnúsdóttir var í forsvari fyrir þessa afkomendur Lauga þegar gjöfin var afhent og sagði að þau hefðu verið sammála um að ljóð móðurafa þeirra ættu að fara aftur heim og settu þau traust sitt á það að á Ljóðasetrinu yrði vel um þau hugsað. Þau væru mjög ánægð með að Laugi afi væri „kominn heim“.
Þórarinn Hannesson, forsvarsmaður setursins, tók við gjöfinni og færði aðstandendum kærar þakkir fyrir hlýhug þeirra og traust í garð setursins.
Texti og mynd: ÞH
Athugasemdir