Leit að dánarstað

Leit að dánarstað Í síðustu viku fór hópur fólks fram í Héðinsfjarðardal í leit að dánarstað Aðalsteins Guðmundssonar frá Flögu í Hörgárdal.

Fréttir

Leit að dánarstað

Aðalsteinn, Sigríður og Hlíf
Aðalsteinn, Sigríður og Hlíf

Í síðustu viku fór hópur fólks fram í Héðinsfjarðardal í leit að dánarstað Aðalsteins Guðmundssonar frá Flögu í Hörgárdal.

Tuttugasta og þriðja júlíi sl. voru þrjátíu og fjögur ár liðin síðan Aðalsteinn, áttræður að aldri, lagði í gönguför frá Ólafsfirði og var förinni heitið til Siglufjarðar. Hann náði aldrei áfangastað því þoka skall á og varð hann úti degi síðar að talið var.

Þessi ferð nú á dögunum var farin að frumkvæði Margrétar, dóttur Aðalsteins, og með henni lögðu af stað eiginmaður hennar Hreinn H. Jósavinsson fyrrverandi bóndi að Auðnum í Öxnadal og börn þeirra, Hlíf, Aðalsteinn bóndi á Auðnum og kona hans Sigríður Svavarsdóttir.

Einnig voru með nokkrir göngumenn frá Siglufirði. Skemmst er frá því að segja að eldra fólkið sneri við nokkru framan við Grundarkot en þau yngri gengu um fimm kílómetra leið á þær slóðir sem Aðalsteinn fannst á sínum tíma.

Það var komið fram í ágúst árið 1977 þegar ljóst var að Aðalsteinn Guðmundsson hafði ekki snúið aftur á dvalarheimilið Hlíð úr hinni örlagaríku ferð. Farið var að grennslast fyrir um hann og brátt varð ljóst að hann hafði sent bókakassa á undan sér til Siglufjarðar því hann ætlaði í bóksöluferð um Fljótin.

Hann hafði hinsvegar gengið frá Dalvík um Reykjaheiði til Ólafsfjarðar og síðast sáu golfspilarar til hans þar sem hann fikraði sig upp Skeggjabrekkudal við tvo stafi með Siglufjörð sem næsta áfangastað. Brátt var hafin leit og voru björgunarsveitarmenn á Siglufirði, í Fljótum og Ólafsfirði kallaðir út.

Í för með Helga Antonssyni formanni Stráka voru þeir Freyr Sigurðsson, Guðlaugur Henriksen, Jóhann Stefánsson frá Grundarkoti og Örlygur Kristfinnsson. Síðdegis þennan sama dag fundu Siglfirðingar Aðalstein látinn við Héðinsfjarðará fram undir botni dalsins. Þaðan var nærri 9 km langur gangur til sjávar þaðan sem líkið og leitamenn voru fluttir sjóleiðina til Ólafsfjarðar.

Með samþykki afkomenda Aðalsteins Guðmundssonar er  rifjuð upp þessi saga af hinni öldnu kempu sem ekki var tilbúinn að setjast í helgan stein heldur lagði af stað fullur hugrekkis og lífsþróttar í sína hinstu för.



Sigríður, Aðalsteinn, Örlygur, Margrét, Hlíf og Hreinn.



Austurbotn Héðinsfjarðardals með Möðruvallaháls uppi til hægri en þar hefur Aðalsteinn líklega farið um eftir að Skeggjabrekkudal lauk.



Héðinsfjörður - á miðri mynd má sjá staðinn þar sem Aðalsteinn mætti dauða sínum.

Texti og myndir: ÖK



Athugasemdir

08.ágúst 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst