Mikill fjöldi á Siglufirði um helgina
Það er margt um manninn á Siglufirði þessa dagana en margar fjölskyldur eru í bænum vegna vetrarfría skólanna. Þar að auki er Siglufjarðarmótið í blaki um helgina þar sem yfir 30 lið eru skráð til leiks.
Í dag voru yfir 200 manns á skíðum í fjallinu samkvæmt samtali Siglo.is við skarðsprinsinn Egil. Þar nefndi hann að mikið væri um að fólk spyrði eftir opnunartíma veitingastaða í bænum og eins eftir skemmtunum en mikil eftirvænting virðist vera eftir uppistandi Rögnvalds gáfaða og Gísla Einarssonar. Þá vill einnig oft vera margt um manninn í sundlaugum bæjarins tengdum stórum skíðahelgum.
Á morgun mæta síðan blakliðin á Siglufjörð en þau eru hingað komin til að taka þátt í hinu árlega Siglufjarðarmóti. Reikna má með að um 150-200 manns verði á Siglufirði fram á sunnudag vegna mótsins en Siglfirðingar eiga heil sex lið í mótinu sem hefur löngu skipað sér sess í blakheiminum.
Ekki skaðar að veðurspáin er með eindæmum góð fyrir helgina þrátt fyrir lítilsháttar úrkomuspá á morgun. Logn og heiðskýrt á að vera á laugardag.
Athugasemdir