Mynd vikunnar- Hólsbúið

Mynd vikunnar- Hólsbúið Hugmyndin að stofnun kúabúsins mun fyrst og fremst hafa komið fram vegna þeirra örðugleika sem á því voru að tryggja bæjarbúum

Fréttir

Mynd vikunnar- Hólsbúið

Hóll á Siglufirði
Hóll á Siglufirði
Hugmyndin að stofnun kúabúsins mun fyrst og fremst hafa komið fram vegna þeirra örðugleika sem á því voru að tryggja bæjarbúum næga neyslumjólk allt árið.
Eins og gefur að skilja hefur það tíðum verið miklum annmörkum háð yfir vetrarmánuðina að flytja mjólk til bæjarins, þó að flóabátur væri í ferðum milli Akureyrar og Siglufjarðar og til Sauðárkróks og hafi fært Siglfirðingum margann mjólkursopann. Það mun fyrst hafa verið í janúar 1925 að bæjarstjórn Siglufjarðar kaus þriggja manna nefnd til þess að finna leiðir til þess að bæta úr mjólkurvandræðum bæjarbúa. Í nefndina voru kosnir : Hinrik Thorarensen læknir, Sigurður Kristjánsson og Flóvent Jóhannsson. Þetta var upphaf þess, að farið var að ræða um stofnun kúabúsins og árið 1928 tók Hólsbúið til starfa. Í maí mánuði það ár gerði bæjarstjórn þá samþykkt að frá þeim tíma sem mjólkursala frá mjólkurbúi Siglufjarðarkaupstaðar hæfist, yrði öll mjólk er kaupa þyrfti til fyrirtækja bæjarins og spítalans eingöngu keypt þar. Í tengslum við Hólsbúið var síðan rekin mjólkursölubúð á Siglufirði, Mjólkursamsalan, og einnig seldi hún alls konar afurðir frá búinu og eins frá Akureyri. Ennfremur brauð, öl og fleira og urðu af þessu nokkrar aukatekjur. Hólsbúið var þó fyrst stofnað og starfrækt sem þjónustu fyrirtæki bæjarbúa. En búreksturinn var bæjarsjóði aldrei nein auðspretta, þvert á móti varð jafnan halli á honum, enda þurfti mikið að leggja í kostnað, fyrst til kaupa á bústofninum og síðar í sambandi við húsabætur og jarðrækt. Í upphafi var kúastofninn all sundurleitur og kýrnar mismunandi arðsamar. Margir bæjarmenn seldu búinu gripi sína, sömuleiðis bændur við fjörðinn sem um þetta leyti voru að bregða búi, en flestar af kúnum voru keyptar innan úr Skagafirði. Á búinu voru um skeið allt að 100 gripir. Á því tímabili sem Hólsbúið var starfrækt var mikil ræktun á jörðinni, ekki síst hin síðari ár og munu  túnin hafa gefið af sér í góðu árferði allt að 3000 hesta af töðu. Þá var árið 1960 byggt nýtt íbúðarhús fyrir bústjóra og starfsfólk. Bærinn hætti rekstri Hólsbúsins árið 1966 og stuttu seinna voru íþróttahreyfingunni á Siglufirði afhent þessi hús til umráða ásamt tilteknu landssvæði. Hólsmjólkin var alltaf eftirsóttari en brúsamjólkin sem flutt var frá Akureyri og Sauðárkróki. En markaðurinn hrundi svo að segja á einum degi. Þegar gerilsneydd og fitusprengd mjólk tók að flytjast frá Akureyri, fyrst á flöskum og síðar á fernum og einnig um sama leyti kom gerilsneydd pokamjólk frá Sauðárkróki. Var því búskapnum á Hóli sjálfshætt. Allmörg undanfarin ár hafa siglfirðingar fengið allar venjulegar mjólkurvörur frá Akureyri og má því litlar líkur telja á því að aftur verði hafinn búskapur á Hóli eða öðrum jörðum í Siglufirði og er þar með liðinn undir lok, landbúnaður á hinum fornu býlum við fjörðinn.   Ó. J.

Athugasemdir

14.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst