Mynd vikunnar- Meiri síldveiði en nokkru sinni fyrr.
Siglfirskur annáll eftir Þ. Ragnar Jónasson | Almennt | 11.02.2011 | 10:00 | Helga Sigurbjörnsdóttir | Lestrar 528 | Athugasemdir ( )
Þetta sumar ,, kom meiri afli á land en nokkru sinni fyrr á einni síldarvertíð, " segir í Ægir 1. október 1962.
Alls veiddust 320 þúsund lestir af síld, eldra met var 235 þúsnd lestir árið 1940.
Framleiðsla bræðslusíldarafurðanna mjöls og lýsis var árið 1962 hin langmesta sem hún hefur nokkurn tíma orðið.
Sumarið 1962 var saltað í 116 þúsund tunnur af síld á Siglufirði ( um 12 þúsund lestir ), en það var nokkru minna en árið á undan.
Hins vegar sló bræðslan öll met, hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði voru brædd nær 550 þúsund mál ( um 74 þúsund lestir) og 142 þúsund mál ( um 19 þúsund lestir ) hjá Rauðku.
Í morgunblaðinu 24. júlí ' 62 er haft eftir fréttaritaranum á Siglufirði að tveim dögum áður hafi 105 skip tilkynnt komu sína með 90 þúsund mál og tunnur.
Daginn eftir tilkynntu 80 skip komu sína.
Fréttaritari Vísis segir 23. júí ' 62 : ,, Saltað hefur verið á öllum stöðvum, en þær eru 22 í kaupstaðnum, á meðan fólk hefur getað staðið á fótunum."
Þessi mikla veiði var fyrst og fremst þökkuð,, hinum nýju tækjum sem skipin eru nú útbúin, " segir í Vísi 28. ágúst 1962.


Athugasemdir