Neyðarkall frá KF
FUNDUR Í KVÖLD.
Fundur verður haldinn um framtíð Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í kvöld, miðvikudaginn 10. október í vallarhúsi félagsins á Ólafsfirði klukkan 20:00.Það liggur ljóst fyrir að ekki verður hægt að reka félagið áfram á sama hátt og undanfarið hefur verið gert og því er kallað til þessa neyðarfundar!
Það sem fyrir liggur á þessum fundi er eftirfarandi:
1. Kynna fjárhagslega stöðu félagsins eins og hún er í dag.
2. Skipa í barna og unglingaráð félagsins.
3. Skipa í meistaraflokksráð félagsins.
4. Fullmanna aðalstjórn félagsins.
5. Önnur mál.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar stendur á krossgötum og núna er nauðsynlegt að bæjarbúar geri sér grein fyrir mikilvægi þess að haldið sé almennilega utanum félagið svo ekki fari illa.
Rekstur félags eins og KF er ekki á færi fárra einstaklinga og ef vel á að vera þarf öll umgjörð og allt starf í kringum félagið að vera í topplagi. Til þess að þetta geti orðið að veruleika þarf gríðarlega margt að breytast.
Stefnt var að því að æfingar myndu hefjast hjá yngri flokkum félagsins 8. október en núna hafa þessir fáu einstaklingar sem standa að félaginu tekið ákvörðun um að ekki verður mögulegt að hefja æfingar fyrr en búið verður að fullmanna barna og unglingaráð KF. Í dag er enginn starfandi í þessu ráði en við það verður ekki búið lengur og því verður æfingum yngri flokka KF frestað þangað til niðurstaða liggur fyrir.
Enginn er starfandi í meistaraflokksráði KF og segir það sig sjálft að slík umgjörð er ekki boðleg. Liðið okkar leikur í 1. deild á næsta ári og þar af leiðandi verður að fullmanna þetta ráð svo hægt verði að skapa viðeigandi aðstæður og umgjörð hjá meistaraflokki félagsins til þess að við getum sent liðið okkar til leiks í 1. deild næsta sumar.
Aðalstjórn KF er langt frá því að vera fullmönnuð og fyrir liggur að það verður að breytast. Eins og staðan er í dag eru sorlega fáir að vinna markvisst félagsstarf innan KF og er ótrúlega mikilvægt að þar verði breyting á! Þess ber þó að geta að nokkrir einstklingar sinna mjög óeigingjörnu starfi fyrir félagið en koma ekki að innra starfi þess. Er þá átt við strákana í dósamóttökunni og þá aðila sem sjá um tippleik KF á Siglufirði, ber að þakka þeim fyrir þeirra framlag!
Vonumst til að sjá sem allra flesta á þessum neyðarfundi, oft hefur verið þörf, nú er nauðsyn!
Forsvarsmenn KF.
Athugasemdir