Nýr framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands

Nýr framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands Arnheiður Jóhannsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands

Fréttir

Nýr framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands

Arnheiður Jóhannsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands


Stjórn Markaðsstofu Norðurlands hefur ráðið Arnheiði Jóhannsdóttur í starf framkvæmdastjóra frá næstu áramótum. Arnheiður tekur við starfinu af Ásbirni Björgvinssyni sem hefur gegnt því frá árinu 2008.




 

 


Arnheiður útskrifaðist sem rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri árið 1999 og lauk ári síðar mastersprófi í alþjóðamarkaðsfræði frá The University of Strathclyde í Glasgow í Skotlandi.  Hún starfaði sem ráðgjafi hjá KPMG Ráðgjöf á árunum 2000-2003 og var verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands2003-2011 en hefur síðan leitt uppbyggingu Air 66N flugklasans hjá Markaðsstofu Norðurlands. Hún hefur jafnframt verið stundakennari í markaðsfræðum við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri frá árinu 2006.

 

Í uppbyggingu flugklasans Air66N hefur Arnheiður stýrt kynningum og samningum við samstarfsaðila, fjármögnun klasans, markaðssetningu á Norðurlandi og Akureyrarflugvelli og öðrum þeim áherslum sem styðja það meginmarkmið Air 66N að koma á reglubundnu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Hún segir þetta verkefni áfram verða eitt það stærsta í starfi Markaðsstofu Norðurlands en margar aðrar áherslur séu mikilvægar á komandi misserum og árum á þeirri leið að styrkja norðlenska ferðaþjónustu enn frekar.

Tækifæri í aukinni vetrarferðamennsku

„Við eigum tækifæri í aukinni vetrarferðamennsku og höfum fundið fyrir vaxandi áhuga samhliða aukinni fjölbreytni í flugsamgöngum til landsins. þar má nefna t.d. Bandaríkjamarkað og Rússland.  Þaðan koma ferðamenn sem eru vanir vetrarferðamennsku og Ísland er nýr og spennandi valkostur fyrir þá. Hér á Norðurlandi höfum við áhugaverða náttúru að vetrinum, norðurljósin, jólasveinana - að ógleymdri svæðisbundinni matarmenningu sem ég tel að við getum notfært okkur enn frekar í því augnamiði að laða til okkur erlenda ferðamenn á veturna. Við getum líka nýtt okkur menningu og sögu í þessu markaðsstarfi og marga fleiri þætti. Og síðast en ekki síst þurfum við í öllu okkar markaðsstarfi að vera sívakandi fyrir tækifærum sem opnast með nýrri samskiptatækni, samskiptamiðlum á netinu og þannig mætti áfram telja.

Ég tel líka mikilvæga áherslu á komandi árum að efla þau svæði á Norðurlandi sem standa fjær ásóknarmestu ferðamannastöðunum, fá ferðafólk þannig til að staldra lengur við á Norðurlandi.

Með lengri dvalartíma skila ferðamennirnir okkur meiri tekjum en þó svo að við leggjum áherslu á að styrkja vetrarferðamennskuna þá verður áherslan engu að síður líka áfram á sumartímann.

Markmiðið er að fá beint millilandaflug í framtíðinni en við sjáum líka nú þegar mikinn ávinning af tengifluginu við Keflavíkurflugvöll. Verkefni Markaðsstofu Norðurlands á komandi árum eru því í senn mörg og fjölbreytt,“ segir Arnheiður.

Um MN

Markaðsstofa Norðurlands (MN) hefur starfað frá árinu 2003 og er hún samstarfsvettvangur Norðurlands í ferðamálum. Helsta hlutverk MN er að samræma markaðs- og kynningarmál norðlenskrar ferðaþjónustu gagnvart innlendum og erlendum ferðamönnum. Skrifstofa MN er á Akureyri og eru starfsmenn MN og Air 66N fjórir talsins.



Athugasemdir

21.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst