Paradís á tröllaskaga.
sksiglo.is | Almennt | 13.07.2011 | 06:00 | Guðmundur Skarphéðinsson | Lestrar 286 | Athugasemdir ( )
„Tröllaskaginn er stórbrotið svæði á Norðvesturlandi þar sem ný tækifæri
til ferðamennsku sköpuðust eftir opnun Héðinsfjarðarganga, í október
2010. Göngin tengja Siglufjörð og Ólafsfjörð, með viðkomu í eyðifirðinum
fagra, Héðinsfirði.
„Með tilkomu ganganna hefur opnast nýr hringvegur um Tröllaskagann, sem
er um 249 kílómetra langur út frá þjóðvegi 1 og býður upp á skemmtilegt
ferðalag þar sem fjölmargt er að sjá og gera á leiðinni.
Frá Skagafirðinum liggur
leiðin um Sturlungaslóðir að Hjaltadal, þar sem keyra má heim að Hólum,
einum merkasta sögu- og menningarstað landsins. Næsti viðkomustaður á
leið út skagann er einn elsti verslunarstaður landsins, Hofsós. Þar er
að finna fjölda gamalla húsa, að ógleymdu Vesturfarasetrinu. Sundlaugin á
Hofsósi þykir líka ein sú myndrænasta á landinu.
Næstur er Siglufjörður,
nyrsti kaupstaður á Íslandi. Óvíða eru tengslin við undirstöðuatvinnuveg
Íslendinga nánari en í þessari fyrrum höfuðborg síldveiðanna í
Norður-Atlantshafi og tilvalið að rifja þau ævintýri upp með heimsókn í
Síldarminjasafnið. Frá Héðinsfirði voru samgöngur erfiðar og byggð
lagðist þar í eyði á síðustu öld. Um fjörðinn liggja fagrar gönguleiðir
sem krefjast ekki lengur mikillar fyrirhafnar eftir að göngin opnuðu.
Bæjarstæði Ólafsfjarðar er
sérstaklega fallegt inn á milli 1000 metra hárra fjalla. Bæði þar og í
nágrannabænum Dalvík er fjölbreytta afþreyingu að finna, s.s. golf og
hvalaskoðun, sjóstangaveiði og fjallgöngur. Frá Árskógssandi, í
Dalvíkurbyggð, eru svo daglegar siglingar út í Hrísey á Eyjafirði. Þá
eru ónefndar allar litlu perlurnar sem leyna á sér á ferð um
Tröllaskagann.”
Mynd og texti: Morgunblaðið birt með leifi.
Mynd og texti: Morgunblaðið birt með leifi.
Athugasemdir