Salthúsið byggt
Innsent efni.
Ákveðið hefur verið að Síldarminjasafnið ráðist í byggingu nýs
húss á safnlóðinni, milli Róaldsbrakka og Gránu í sumar. Byggingin sem er rúmlega 600 ferm. á tveimur hæðum verður fyrst og
fremst geymsluhús safnsins.
Upphaf þessa máls er það að Margrét Hallgrímsdóttir,
þjóðminjavörður, leitaði til Síldarminjasafnsins með ósk um um að það tæki við húsviðum
„Gæruhússins“ á Akureyri. Þjóðminjsafnið hefur átt þessa viði frá því að gamla húsið var
tekið ofan 1999.
Undirbúningur að byggingu hússins hefur staðið í tvö ár en nú
í ársbyrjun varð ljóst að Forsætisráðuneytið vildi veita 20 millj. kr. til framkvæmdarinnar; að reisa húsið og ljúka
því að utan. Fjárveitingin er úr sjóði til varðveislu menningararfsins.
Þá hefur
Fjallabyggð heitið 500 þús. krónum, FÁUM 250 þús kr. til verksins auk þess veitir Þjóðminjasafnið verulegan
stuðning.
Salthúsið, eins og það heitir á Siglufirði, er frá síðari hluta 19. aldar.
Tala má um nokkurskonar flökkuhús þar sem það var í notkun á Patreksfirði, Siglufirði og Akureyri. Upplýsingar benda til að
það hafi staðið á sömu lóð og það mun rísa í sumar og verið geymsluskemma á söltunarstöð KEA.
Í Salthúsinu verður aðal munageymsla Síldarminjasafnsins – en í lögum um minjavernd er mjög
skýrt kveðið á um skyldur opinberra safna til að eiga vandað geymsluhúsnæði.
Þá er
stefnt að því meira en þriðjungur hússins verði notaður fyrir sýningu, safnverslun og gestamóttöku. Hvað sýninguna snertir
þá er sérstaklega horft til vetrartímans í síldarbænum; hvernig fólk nýtti tímann meðan beðið var eftir síldinni
til margvíslegrar íþrótta- og menningarstarfsemi.
Athugasemdir