Styrktarbingó leikskólans

Styrktarbingó leikskólans Styrktarbingó leikskólans fór fram sunnudaginn 17 mars, fyrir fullu húsi á Allanum. Það mátti bara alls ekki heyra saumnál detta

Fréttir

Styrktarbingó leikskólans

Bingó
Bingó

Styrktarbingó leikskólans fór fram sunnudaginn 17 mars, fyrir fullu húsi á Allanum. Það mátti bara alls ekki heyra saumnál detta eftir að bingóið byrjaði, sem gerði leikinn jú aðeins meira spennandi.

Börnin sýndu þessu mikinn áhuga til að byrja með tilheyrandi klið, skiljanlega mörgum spurningum, og vinnings-vonarsvipurinn var á hverju einasta barni þarna held ég. Þessi sami svipur og brennandi áhugi var líka á Adda Óla, múrara sem sat á sama borði og undirritaður, en hann hjálpaði upplesaranum, sem var Sigga Salla (og stjórnaði hún þessu af miklum glæsibrag) með hverja einustu tölu held ég. Ef hún sagði Bjarni 5 þá sagði hann líka Bjarni 5, en yfirleitt miklu hærra og var svo spenntur að mér fannst jólapakkaspenningurinn svífa yfir honum.

Þegar leið á bingóið fór nú svipurinn að dragast aðeins niður á við hjá einhverjum börnunum og á aumingja Adda líka. Ég sá eitt og eitt tár á hvarmi þarna og einhverjir þurftu að fara áður en bingóið var búið vegna þess að sumir litlir kroppar þola einfaldlega ekki að tapa og hafa bara ekki þolinmæði í þetta. Ég þurfti allavega að fara.

Bingóið var samt mjög flott og sumir hömstruðu vinninga meira en aðrir. Mér sýndist ég sjá Binna Harðar labba burt með 3-4 páskaegg og Sigurgeir Haukur lét frænku Ásu Guðrúnar halda á einu eggi fyrir sig. Held að Addi hafi farið tómhentur heim eins og ég.

Takk samt kærlega fyrir (þó ég sé jafn tapsár og barnið mitt) mjög skemmtilegt bingó Leikskálar en hérna koma allt of fáar myndir vegna þess að ég þurfti að fara út með tapsárt barn.

Kíkkið á videoið neðst.

Páskabingó

Páskabingó

Mynd og texti: Hrólfur Baldursson


Athugasemdir

28.júlí 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst