Fjöldi Siglfirðingar á jólagestum Björgvins á Akureyri
Fréttamaður Sigló.is smellti sér á þá skemmtilegu tónleika „Jólagestir Björgvins“ í Höllinnni á Akureyri á laugardag, ekki frásögu færandi nema af því að hann taldi hið minnsta 50 Siglfirðinga á tónleikunum. Ætli göngin hafi haft eitthvað að segja.
Jólatónleikar Björgvins Halldórssonar voru hinir glæsilegustu á Akureyri um helgina og sóttu þá fjöldi manns en örugglega hefur hlutfallið þó verið hæst frá Siglufirði. Margir Siglfirðingar lögðu leið sína á Akureyri þennan dag þar sem þeir drifu sig út að borða og fóru svo á frábæra tónleika í kjölfarið.
Skemmst er frá því að segja að á 70 manna veitingastaðnum Strikinu á Akureyri voru samankomnir 31 Siglfirðingur án þess þó að þeir hafi allir skipulagt að hittast þar. Þótti þjóni staðarins þetta mjög merkilegt að sögn Grétars Sveinssonar sem heimsótti staðinn þetta kvöld.
Augljóst er að Héðinsfjarðargöng hafa opnað nýja vídd fyrir Siglfirðingum og auðveldar þeim til muna að sækja stórviðburði sem þessa.
Athugasemdir