Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi 2 hluti

Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi 2 hluti Árla morguns bankar Hjörtur kaupfélagsstjóri ákaft á herbergishurðina hjá mér og segir bara eitt orð

Fréttir

Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi 2 hluti

Halldór Kiljan Laxnes að skrifa Gerplu.
Halldór Kiljan Laxnes að skrifa Gerplu.

Árla morguns bankar Hjörtur kaupfélagsstjóri ákaft á herbergishurðina hjá mér og segir bara eitt orð hátt og snjallt:

SÍLD!

Þetta er miklu meira töfraorð hér á Siglufirði en annars staðar á landinu.

"Við tökum upp þráðinn þar sem frá var hofið í fyrsta hluta þýðingu minnar af kaflanum "Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi" úr bók Jörans Forsslund "Vind över Island" myndin hér til hliðar sýnir vel hversu góður ljósmyndari Jöran var en hún er úr fyrsta kafla bókarinnar en sá kafli heitir "Halldór á Gljúfrasteini" og sá kafli fjallar um viðtal og heimsókn Jörans til Laxnes 1953.  Kaflinn er endurskrifaður úr grein sem birtist í 43 tölublaði vikublaðsins Vi 1953. Myndin sýnir Halldór upptekinn við að skrifa Gerplu. 
Við skulum ekki heldur gleyma að Laxnes skrifaði líka Guðsgjafarþulu og allir vita hver er fyrir mynd Íslands Bessa. Eða hvað....en það er nú önnur saga og nú höldum við áfram með hina dásamlegu lýsingu Jörans af heimsókn hans og upplifun á Siglufirði sumarið 1953. Hann kom svo aftur sumarið 1954 og gerði kvikmyndina Viljans merki, sú kvikmynd endar á Siglufirði. Til gamans má geta að að kvikmyndabúnaðurinn sem notaður var við upptökur á þessari kvikmynd var meira og minna fengin að láni frá svíum sem voru að vinna við að mynda söguna um Sölku Völku." 

Í gærkveldi fór Hjörtur með mig í heimsókn á loftskeytastöð Síldarleitar ríkisins en þeir sjá um öll samskipti á milli síldarleitarflugvélarnar og veiðiflotans, auk þess sinna þeir einnig samtölum milli bátana og síldarsöltunarstöðvanna í bænum. Það var frekar þunglyndisleg stemmning þarna í gærkveldi, engum stökk bros á vör og allir nokkuð stuttir í spuna:

Nej, eki nokur sill”.

En það þarf náttúrulega bara ein stutt skilaboð frá Snarfaxa um svarta flekki á hafinu og þá heyrast glaðar raddir í hátölurum og úr míkrófónum úti á síldarhafinu.

Hjörtur fékk símtal gegnum loftskeytastöðina klukkan tvö í nótt frá síldveiðibát sem var á leiðinni í land með fullfermi á söltunarplanið hans. Eða réttara sagt á söltunarplanið hjá Kaupfélagi Siglufjarðar.
En svona nætursamtölum bíður maður gjarnan eftir á þessum árstíma, það er nefnilega mjög hörð samkeppni á milli söltunarstöðvanna sem verða að standa sig á vaktinni ef þeir eiga að eiga einhverja von um að geta keypt góða síld.
Að maður fái bara að sofa 2-3 tíma á sólarhring er ekkert tiltökumál það verður hægt að sofa endalaust í vetur.

Ég horfi á sólskinið flæða um götur bæjarins og tek eftir því að ásýnd Siglufjarðar hefur breyst skyndilega. Það eru allir að flýta sér og það er bjartari hreimur í röddunum og einhverskonar eftirlöngun í öllum hreyfingum bæjarbúa.

Nokkrar af mjölverksmiðjunum er byrjaðar að spúa út hvítri þykkri illa lyktandi móðu yfir bæinn. Daunninn er ekki ólíkur því þegar úldið kjöt er reykt.

En þessi lykt er ekkert miðað við skítafýluna sem myndast þegar allar þrær bræðsluverksmiðjana eru fullar af rotnandi síld og síldarplönin full af slógi og úrgangi.

Þá held ég að það sé nú bara mjög gott að vera þrælkvefaður á Siglufirði.

En bæjarbúum finnst þetta vera eins og  ilmvatnslykt! Það segja allir með bros á vör: 

“Guði sé lof, nú er aftur peningalykt á Sigló.”

Myndir frá bls. 70

Á kaupfélagsplaninu eru síldarstúlkurnar nú þegar á fullri siglingu. Þrír ungir drengir sem eru kallaðir “ræsarar” hafa farið á reiðhjólum sem þeir hafa til yfirráða út um allan bæ bankandi á veggi, glugga og hurðir þangað til að nývöknuð “síldarstúlkan” lætur sjá sig.

Þá hrópa þeir bara:

SÍLD!

Þegar að síldarstúlkur heyra þetta orð verða þær að gera sig klára fyrir söltun og koma niður á plan í fullri múnderíngu eftir korter. Einkennisbúningur þeirra er: stígvél, skær blá eða gul svunta sem nær niður á ökkla, langir gúmmíhanskar og langur og beittur morðingjahnífur. 

Í blíðskapar verðri jafnt sem úrhellis rigningu verður síldarstúlkan að standa vaktina á enda, því hvorki sjómaðurinn á bátunum sem er verið að landa úr né síldin sjálf geta beðið.

Sá fyrrnefndi þarf að drífa sig aftur út á sjó og síldin þarf að fara tafarlaust og glæný niður í tunnuna.

Síldarstúlkur sér maður út um allt á Siglufirði.

Hér áður fyrr voru þetta oftast ungar stúlkur en í dag hefur meðalaldurinn á þessum glæsilegu síldarstúlkum hækkað verulega. Þegar síldin veiddist sem mest hér áður fyrr komu ungar stúlkur frá öllu landinu hingað, frá Reykjavík sem og öðrum litlum bæjarfélögum.

Oftast er þetta námsfólk sem vill þéna góðan aur fyrir veturinn; eins og áður hefur verið nefnt í þessum skrifum vinna námsmenn almennt fyrir sér á sumrin á Íslandi.

Myndir frá bls 71. Efri myndin sýnir söltunarplan Kaupfélags Siglfirðinga og á henni er hægt að sjá rennuna sem er uppfinning Hjartar kaupfélagsstjóra.

En núna standa margir af þessum löngu litríku “brökkum” (“síldarbröggum”, brakki er Siglfirskt orð sem kemur frá norska orðinu bracke) sem síldarstúlkurnar höfðu sem vistarverur auðir.
Það kostar of mikið að fá hingað aðkomustúlkur í vinnu, síldarplanið þarf að greiða ferðakostað og geta ábyrgst lámarkslaun upp á 1.500 kr. á mánuði.  Ef síldin lætur ekki sjá sig þýðir þetta fyrirkomulag stór tap fyrir söltunarfyrirtækin.

Kaupfélagsplanið réði til sín 34 aðkomustúlkur í fyrra en í sumar ekki eina einustu stúlku.

Í staðinn hafa menn fundið aðra lausn sem felst í því að biðja allt kvenfólk bæjarins að fara í einkennisbúning síldarstúlknanna hvort sem þær eru giftar eða ógiftar, gamlar eða ungar.

Á hverjum morgni getur maður séð lögreglubíl bæjarins, (þ.e.a.s Svörtu Maríu, sem vanalega keyrir fyllibyttum í steininn)  safna börnum fyrir framan Kaupfélagið við Aðalgötuna og keyra þeim á barnaheimili sem bæjarfélagið rekur sunnar í firðinum. Þar geta börnin herjað og leikið sér allan daginn á meðan mömmurnar vinna í síldinni.  

Það hefur gerst nokkrum sinnum þegar mikið síldarmagn berst að landi að Kaupfélagið hefur lokað allri sinni starfsemi í bænum og flutt starfskraftinn í síldarsöltun á plani Kaupfélags Siglfirðinga.

Spilið á Freydísi frá Ísafirði vælir ákaft þegar verið er að landa fullfermi úr lest og úr lúgum á dekki sem kom úr stóru hringnótarkasti úti á Eyjafjarðardjúpi í nótt.

Nú er löndunarvögnum á járnbreutarteinum rennt eftir bryggjunni að löngum síldarkassa þar sem 30 “sillstúlkur” standa í röð, einbeittar á svip. Það liggur mikið við að kassinn sé fullur af silfurgljáandi spikfeitri Norðurlandssíldinni.

Einmitt þetta sumar berst að ein sú feitasta síld sem nokkur tímann hefur sést, með allt að 22ja til 25 prósenta fituinnihaldi.

Stúlkurnar vinna eins og velsmurð vél, hreyfa hendurnar í takt og með einbeittu augnaráði stara þær án andartaks á síldina. Í einni og sömu handarhreyfingunni sker stúlkan hausinn af og dregur út innyfli og kastar síldinni í bjóð sér við hlið. Þegar bjóðið er fullt tekur hún disk og flytur síldina yfir í stamp  þar sem hún vöðlar síldinni í salt og kryddblöndu og þar á eftir raðar hún síldinni í hring eftir hring í tunnuna. Síðan byrjar hún aftur að hausa og magadraga. Það er varla að hún megi vera að því að strjúka hárlokk úr andlitinu.
Í ákafanum myndast einhverskonar móða og glitrandi ský af síldarhreistri kringum síldarstúlkurnar, þær eru í eigin heimi, gefa sig kappseminni á vald og þó að allur heimurinn myndi hrynja í kringum síldarplanið þá myndu þær varla líta upp úr tunnunum.

Ekkert getur slegið þær út af laginu og það er haldið áfram þangað til báturinn við bryggjuna getur ekki lengur skilað síld í rennuna hjá þeim.

Annað slagið heyrir maður hrópað: salt.....sallllt......SAALLLLT! Með raddblæ sem liggur mitt á milli þess að röddin hljómar eins og neyðaróp eða ásakandi árás að verkamanni söltunarplansins, hann  hleypur eins og það sé kviknað í afturendanum á honum og reynir eftir bestu getu að þóknast þessum drottningum síldarinnar.

Aðeins þegar þær kalla: “Taka tunnu.......taka tuuunnu!” gefa þær sér smá tíma til að líta upp og svo draga þær upp síldarpilsið og rétta ökklann í stoltri hreyfingu í áttina að beykinum  (tunnusmiðnum) sem kemur með trillu til að sækja fulla tunnuna og í leiðinni lætur hann lítið málmmerki detta niður í stígvélið hjá henni.

Maður gæti kannski haldið að það sé nú ekkert sérstaklega þægilegt að fá fleiður af smápeningum í stígvélinu en þannig er það nú ekki.
Því hver peningur færir síldarstúlkunni 20 kr. í laun fyrir hverja fulla tunnu. Þær duglegustu geta saltað í 3 tunnur á klukkutíma sem eftir 8 tíma vinnu gefur 480 kr. Sem er um það bil 150 sænskar krónur, þessi launasamanburður er nú ekki alveg sanngjarn því það er mjög dýrt að lifa á Íslandi.

Myndir frá bls. 73. þessar myndir ættu nú betur heima i næsta kafla bókarinnar en hann heitir "Lífið er fiskur". 

Hjörtur kaupfélagstjóri spásserar um Kaupfélagsplanið og lítur út eins og að hann hafi einn unnið stórvinning síldarhappdrættisins og í ár er það líklega staðreynd vegna þess að nú þegar í lok júlí er búið að salta jafnmargar tunnur eins og saltaðar voru allt sumarið í fyrra.
Þar fyrir utan er síldin óvenju feit og fín og hann lýsir því stoltur á svip hversu vönduð vinnubrögðin eru á planinu hans, hér er allri síld með sjáanlegum galla hent, krömdum eða of litlum síldum er hent í slógþróna sem fer seinna í bræðsluverksmiðjunar.
Bara hágæðasíld fer ofan í tunnurnar og hún má ekki hafa verið lengur en átta tíma í lestum bátanna og helst ekki hafa lent í miklum veltingi, svo nákvæmt er gæðaeftirlitið.
Þessar háu gæðakröfur fá mig til að spekúlera hvort það sé þá ekki betra að salta síldina ferska um borð eins og gert er í sænsku bátunum okkar.

En hvernig í ósköpunum ætti maður þá að geta afkastað þessu gríðarlega magni sem þessi höfuðborg síldarinnar er sköpuð til að skila í tunnurnar.

Í ár er bara framleidd “Cut-hering” þ.e.a.s haus og magadregin síld, kannski eitthvað af kryddsíld en Matjes síldin er alveg horfin úr myndinni. Hjörtur upplýsir mig um að í sumar er samkvæmt samningum reikað með að það verði saltaðar 200.000 tunnur hér á Norðurlandi, helmingurinn af þessum tunnum verður saltaður hér á Siglufirði. Hér í bæ eru 21 söltunarstöð af rúmlega 60 stöðvum norðanlands.

Metárið 1944 voru saltaðar 200.000 tunnur bara hér á Sigló segir Hjörtur, en það met verður nú líklega ekki slegið í sumar og mikið rétt, hann varð sannspár um það, því síldin villtist enn og aftur og lét vart sjá sig það sem eftir var sumars.

Tunnufjöll!

Svíþjóð hefur ætíð verið einn stærsti síldarkaupandinn og í ár var reikað með að Svíar myndu kaupa um helming ársframleiðslunnar eins og vanalega - en 1953 voru það reyndar Sovétríkin sem fengu helminginn af framleiðslunni. Síldarútvegsnefnd ríkisins sem er að hálfu leyti ríkisrekið batterí með aðalstöðvar sínar á Siglufirði sér um verðlagningu, samningamál og hvernig veiðinni er skipt á milli landshluta.

Kaupfélag Siglfirðinga og KEA á Akureyri eru einu samvinnufélöginn á Íslandi sem reka síldarsöltunarstöðvar. Þessi starfsemi er af flestum öðrum samvinnufélögum landsins álitin of áhættusöm og gæti léttilega sett mörg kaupfélög á hausinn.

En á Siglufirði horfir þetta allt öðru vísi við og er sjálfsögð búbót fyrir kaupfélagið og sína mörgu félagsmenn í þessum 3.100 manna bæ.

Hjörtur Hjartar er mikil atorkumaður og réttur maður á réttum stað, hann er þeim eiginleikum gæddur rétt eins og margir aðrir nútíma Íslendingar að hann getur tala við hvern sem er, um hvað sem er, hvenær sem er.

Hann er kvikur í hreyfingum , vel lesinn og vel að sér á flestum sviðum, eina stundina getur hann talað af mikilli innlifun um síld og í næstu setningu falið inn í heimspekilegt samtal um bókmenntir.   

Hann kom Kaupfélagi Siglfirðinga á fætur eftir að miklar pólitískar hræringar sem enduðu í hallarbyltingu sem næstum gekk að félaginu dauðu. Þessi pólitíski  ágreiningur sem kom upp í kaupfélaginu stóð á milli kommúnista og annars ónefnds stjórnmálaflokk og endaði með algjörum klofningi þar sem Kaupfélag Siglfirðinga varð allt í einu tvö kaupfélög og bæði héldu sína aðalfundi og kröfðust hvort fyrir sig lyklavalda bæði fyrir búðarhurð og peningaskáp kaupfélagsins.

Jæja, en Hjörtur bjargaði málunum og seinna stóð hann fyrir sinni eigin litlu byltingu. Hann gjörbreytti nefnilega síldarsöltuninni, ekki bara á Siglufirði heldur líka út um allt Ísland.

Fljótlega eftir að hann kom hingað þá tók hann eftir því að aumingja síldarstúlkurnar stóðu upp fyrir hné í kös af slori og úrgangi þegar verið var að verka síldina. Þessi úrgangur sem lá út um allt við allar söltunarstöðvar bæjarins var líka í harðri keppi við síldarbræðslurnar um að skapa djöfullegan fnyk sem lá í loftinu allt sumarið.  Hjörtur lagðist undir feld og hugsaði vel og lengi og svo kom hann með þessa snilldarlegu og einföldu lausn sem hægt er að sjá á öllum plönum á Siglufirði og víða við Íslandstrendur.

Hann lét skera ferköntuð göt á borðið hjá hverri síldarstúlku og lét síðan smíða rennu sem slor og síldarhausar duttu ofan í og vatni sem dælt var inn í annan endann flutti síðan með sér allan úrgang út í litla þró.  Þá dró járnsnigill allt saman áfram uppá vörubíl sem skutlaði slóginu í bræðsluverksmiðjurnar.

Það var eins með þessa uppfinningu og margar aðrar einfaldar lausir að gamlir gárungar hristu bara hausinn og sögðu: “ja....ef þetta væri nú svona einfalt allt saman þá væri okkur náttúrulega búið að detta þetta í hug fyrir löngu síðan

Í verksmiðjunum vildu í byrjun sumir meina að vatnið skolaði fituna úr úrganginum en það var bara bull og vitleysa. Þessi einfalda uppfinning sparar tugþúsundir króna á ári og léttir síldarstúlkunum lífið.  Aðrar aðferðir voru fundnar upp sem áttu að leysa þetta vandamál en þær kostuðu 120.000 kr.

Uppfinningin hans Hjartar kostaði bara 10.000 kr. og hann leyfði hverjum sem var að nota þessa einföldu lausn að kostnaðarlausu, það lýsir vel þeirri manngæsku sem Hjörtur hefur að bera og hann var heldur ekki að eyða tíma í þetta til þess að græða peninga, hann vildi bara bæta vinnuaðstöðu síldarstúlknanna.

Svona að gamni má nefna að velviljuð manngæska getur líka verið misskilinn.
Sænska Samvinnuhreyfinginn (KF) sendi hingað nýtísku síldarsöltunarvélar sem áttu að spara mikinn mannafla og minnka launakostað. Þessar vélar voru von bráðar sendar til baka til föðurhúsanna án þakklætis enda myndi engum heilvita manni hér detta það í hug að skipta út síldarstúlkum fyrir dauðar vélar. Allra síst þeim sjálfum, því það eru þær sem þéna mest á síldarplönunum.

Sænsk síldarsöltunarvél!

Svo kemur laugardagur og rigningin líka og þá erum við ekki að tala um venjulega rigningu. Nei, gott fólk, hér erum við að tala um hellirigningu sem sólarhringum saman hellist úr yfirfullum skálum himinsins.
Þessi fjörður er að breytast í risastórt fiskabúr með yfirborðið einhverstaðar uppi við fjallatoppana.

Enginn síldarleit, veiði eða síldarsöltun, bara rennblaut og grá biðstaða.

Höfnin er að fyllast af bátum sem liggja hlið við hið í löngum röðum út frá öllum bryggju. Þeir sem ekki fá pláss við bryggjurnar liggja við akkeri út á firðinum og allir þessir bátar mynda dularfullan skóg af möstrum í rigningarþokunni undur bröttum fjöllunum.

Það eru eitthvað í kringum 200 norskir bátar á veiðum hér við Íslandsstrendur og álíka margir íslenskir bátar, góður slatti af þeim eru hér í firðinum núna, að auki nokkuð af þeim 34 sænsku reknetabátum sem stunda veiðar hér í ár. Þar fyrir utan er fjöldinn allur af dönskum, færeyskum og finnskum bátum hér. 

Rússarnir hafa ekki látið sjá sig, líklega liggur sovétflotinn í sjálfskipaðri útlegð í vari úti við Grímsey.

Á Aðalgötu bæjarins spássera stæltir Norðmenn og Svíar með sjóarahúfurnar sína og berhöfðaðir Íslendingar í bláum þykkum peysum og niðurrúlluðum bússum. Sjóararnir standa í smá hópum hér og þar og ræða málin hver á sínu víkingatungumáli.
Stúlkur í æpandi gulum eða bláum regnkápum hlaupa á milli búðanna í götunni sér til dægrastyttingar. En það virðist ekki verða neitt líf og fjör hér, þrátt fyrir að það sé laugardagur, þetta úrhelli lemur úr manni allan vilja til skemmtana.

Þessi aðalgata er innrömmuð af bröttum snjóflekkóttum fjöllum í báða enda og til hliðar standa veðurbarin steinsteypu- og bárujárnshús, þessi gata hefur séð þá flesta sem vinna í síldarbransanum, frá öllum heimshornum.
Ef sólinni skyldi þóknast að láta sjá sig smástund og lokka sjómennina upp úr lúkurunum þá myndir þessi gata óma af gleðihlátrum og ljóma í miklum ánægjubrosum og í kvöld myndi hún örugglega vera full af “sjúdde rallý rei,” brennivíni og SKÁL.

Bróðurleg faðmlög og  “einn á kjaftinn” tilheyra hefðbundnum laugardagsskemmtunum síldarvertíðarinnar á Siglufirði, en í kvöld er eitthvað svo dauft yfir öllu og kannski eru sögusagnir af skrílslátum í Klondyke síldarinnar mjög svo ýktar.  En á sunnudagsmorgun hitti ég nú samt nokkra unga herramenn með plástra og gróðuraugu sem ekki voru þar í gær.

Mér hafa verið sagðar ýmsar sögur um leynikrár og allskyns svartamarkaðsbrask.
Ein sagan fjallar um ölvaða Norðmenn sem lokuðu sig inni með fegurðardísum bæjarins á einum slíkum “danslokal” til þess að geta dansað við þær óáreittir.
Það getur verið að þetta hafi verið á einni af þeim 23 leynikrám sem Albert Engström heldur fram að hafi verið starfræktar hér á þeim tíma sem hann skrifaði sína ferðabók um um Ísland, en hann skrifar: “hér verða stundu miklir bardagar á milli nokkur hundruð ofurölvaðra víkinga

(mér var reyndar sagt að fyrir stuttu síðan hafi verið bardagi hér sem varaði í þrjá daga, rétt eins og stríðið við Leipzig)

En núna eru ekki til neinar leynikrár, bara Áfengisverslun Ríkisins og þar er hægt að kaupa flösku af “Svarta dauða” fyrir 85 kr. En ekki í dag, “Ríkið” er lokað á laugardögum.

Það er alla vegana mun meira líf á Aðalgötunni en vanalega. Verslanirnar margfalda tekjur sína á þessum árstíma. Hjörtur segir að veltan hjá Kaupfélaginu aukist um 200 % á meðan síldarvertíðin stendur, matvöruverslanirnar eru á bakvakt allan sólarhringinn.

Tvö kvikmyndahús eru í bænum og það eru þrjár sýningar á dag, núna er t.d verið að sýna “Blóð og sandur”, norsku bíómyndina “Fant” og kvikmynd með “Ritu Hayworth”.
Þetta úrval er svo sem ekki það besta sem hægt er að finna í ávaxtagarði kvikmyndanna en það skiptir svo sem engu máli, það er ekki mikið annað um að velja sér til dægrastyttingar annað en að fara á þrjár bíósýningar í röð og rápa í búðir.

Ókeypis í bíó á sumardaginn fyrsta.

Margir kúra í koju og skrifa fyrstu bréfin heim til Bohuslän, eins og strákarnir á “Delfin av Gravarne” þeir eru reyndar svo heppnir að hafa Stig Dahlström sem bátsfélaga. Hann syngur vísur og spilar á gítar sem gefur þeim góðan innblástur í bréfaskriftirnar.

Það er mjög svo undarleg tilfinning að standa á bryggju í rigningarsúld norður á Siglufirði og heyra allt í einu vísur okkar ástkæra trúbadors  “Evert Taube” óma lágstemmt upp úr litlum bátskrokk innan um fleiri hundruð aðra hljóðláta báta.

Ég læðist um borð og spjalla smástund við þá frammi í hlýjum lúkarnum.

Þeir eru nýkomnir og rétt að byrja síldveiðar ársins og um leið og þeir eru búnir að fylla allar 800 tunnurnar um borð stíma þeir heim til Sverige.

Þeir veiða í reknet eins og flestir aðrir sænskir bátar og með bara 8 manna áhöfn hafa þeir ekki mannafla til að draga upp hringnót.

Svíar eins og öllum öðrum útlendingum er vísað á mið sem liggja utan við fjögurra sjómílna landhelgi sem reiknuð er út frá línum sem dregnar eru á milli fjarðakjaftanna á landi þannig að þeir mega ekki veiða síldina sem gengur inní firðina eða selja sína síld í landi.
Þessar nýju reglur hafa svo sem ekki skipt neinu verulegu máli síðustu árin þar sem síldin hefur ekki hegðað sér eins og hún á að gera.
Eða, jú, sumarið 1953 kom síldin í miklu magni og hélt sig nær landi en venjulega.

Hér koma ljósmyndir frá bls. 81 og bls 82
(sem eru kannski ekki beinlínis í samræmi við innihaldið þessum kafla, tilheyra meira næsta kafla sem heitir: “Lífið er fiskur”

Saltfiskþurkun.

Það hefur rignt stanslaust í fleiri sólarhringa, en einn morgunninn kíkir sólin loksins í gegnum skýin og vindurinn er upptekin við að blása burtu þokunni. Nokkrum tímum seinna yfirgefa margir bátar sína tryggu höfn. 

Snarfaxi sem hefur verið í fríi inná Akureyri kemur loksins með látum inn fjörðinn og gerir sínar hefðbundnu loftfimleikaæfingar á milli fjallana í þessum þrönga firði áður en hann lendir.

Sonur Lárusar Blöndal bóksala sem er í forsvari fyrir bæði bókabúð föður síns og umboðsmaður fyrir Flugfélag Íslands á Siglufirði setur mig í lítinn opinn bát og flytur mig um borð í Snarfaxa sem flýtur í rólegheitum innan við eyrina. Þegar ég er komin um borð í Grumman flugvélina fer ég strax að hugsa: “og hvernig í ósköpunum ætla þeir að taka á loft hérna ?”  Fjörðurinn er ennþá nokkuð þéttsetinn bátum og þung alda kemur inn fjörðinn úr norðurátt.

Þetta flugtak fær mitt gamla flugmannshjarta að sleppa nokkrum slögum og ég held mér stjarfur af hræðslu í stólinn. Aðalbjörn flugstjóri tekur sér stöðu með því að stýra Snarfaxa  þversum í firðinum, hann gefur síðan allt í botn og æðir með nefið á vélinni út í litla rennu á milli bátanna og stefnir síðan beint á fjallgarðinn að austanverðu og tekur síðan krappa vinstribleyju út fjörðinn.

Ég byrja að anda aftur og horfi  í kringum mig og sé Siglufjörð hverfa á bakvið stélið á Snarfaxa.

Mynd frá bls. 81. Skreiðarhjallar. Þessi flotta mynd er á bakhlið bókarinnar í stærra formi.

Síldin gerir lífið eitthvað svo spennandi 1 hluti.

Þýðing Jón Ólafur Björgvinsson

Örlygur Kristfinnsson hefur veitt ómetanlega aðstoð með orðaval, setningarvillur og prófarkalestur.
Texti og myndir birtar með leyfi frá Lena Fejan Forsslund og félagsins "De seglande frá Tjörn" og frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Skjáskot úr kvikmynd birt með leyfi frá Korperativa förbundet i Sverige. (Samvinnuhreyfing Svíþjóðar.)
Lagfæring á gæðum ljósmynda: Jón Ólafur Björgvinsson.
Lagfæring á gæðum á mynd og hljóði í kvikmynd gerði Gunnar Smári Helgasson. 

Aðrar greinar um Siglufjörð og vesturströnd Svíþjóðar: 

Minningar um síldveiðar við Ísland 1946-48.

SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935

De seglade från Tjörn.......Til SIGLÓ. (50 myndir)

PÅ VÄG MOT ISLAND…. á heimaslóðum sænskra síldveiðimanna! 

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945

SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE (Myndir og myndband)



Athugasemdir

09.október 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst