Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir) Allir eiga sér minningar sem maður helst ekki vill muna eftir, en það ekki hægt að útiloka þessar

Fréttir

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)

Hólshyrnan horfir döpur á bryggjubrak
Hólshyrnan horfir döpur á bryggjubrak

Allir eiga sér minningar sem maður helst ekki vill muna eftir, en það ekki hægt að útiloka þessar minningar úr sögunni. Sérstaklega ef það er eitthvað sem tók 30 ár, var fyrir framan þig daglega og fór lengi versnandi áður en það batnaði hægt og rólega.
Þannig var það lengi að fjörðurinn fagri var enginn fögur sýn með allar sínar rotnandi og grotnandi bryggjur og brakka.

Í lok 1960 var ekki lengur tjörulykt frá nýtjörguðum bryggjum á vorin og það var neglt fyrir glugga og hurðir og allur fjörðurinn var í löngum vetrardvala, en samt lifði vonin í loftinu um að kannski, kannski yrði bráðlega þörf aftur fyrir síldarplön, verksmiðjur, bryggjur og báta.

En svo varð ekki og í staðinn þá breyttist bærinn minn í draugabæ sem vissulega var spennandi ævintýraheimur fyrir mig og marga aðra, en í byrjun þessarar niðurníðslu heyrði maður fullorðið fólk næstum hvísla áhyggjufullt um þetta ástand. Áhyggjur af atvinnuleysi, peningaleysi, framtíðaáformum sem voru ekki lengur til staðar, stórar breytingar voru í nánd, en enginn vissi hvenær eða hvernig. Allt var bara í biðstöðu og niðurníðslan hélt áfram með hjálp frá náttúrunni sem sýndi enga miskunn.  

Hafís og snjóþyngsli brutu bryggjur og brakka og að lokum urðum við meira og minna tilneydd til að “kveikja” bara í þessu öllu. 

 Ljósmyndari: Erla Svanbergsdóttir Berg - Fógetahúsið brennt árið 1998.

Fyrir mér var þetta sorgartími vegna þess að það voru svo margir skólafélagar og æskuvinir sem fluttu úr bænum, okkur fækkaði fljótt og það er erfitt fyrir börn og unglinga að missa vini sína. Margir hurfu alveg, en sumir komu sem sumarbörn lengi vel og léku sér með mér og mörgum öðrum í rústunum sem með tímanum urðu ævintýraheimur og að lokum stórhættulegt leiksvið sem sést vel á mörgum örum sem ég hef frá þessu tímabili.

Einhvern veginn var það þannig að í okkar huga þá “átti” eingin þetta allt saman lengur, eingin vildi eiga þetta drasl, þar af fannst okkur krökkunum sjálfsagt að eiga bækistöðvar inní hinum og þessum brökkum og síldarkóngaskrifstofum. Ekki það að við værum svo sem að skemma, brjóta og bramla. Nei.... meira að bara nota það sem fannst þarna í leik og reyndar var hægt að gera pening úr sumu.

Í þessum 8 hluta minningar göngutúrsins eru 35 ljósmyndir sem sýna okkur allt sem er horfið og minna okkur líka á hversu ótrúlega margar dásamlegar jákvæðar breytingar hafa orðið í firðinum fagra síðustu árinn og að við getum aftur gengið stolt og bein í baki og sýnt öðrum hvað þetta er fallegur bær og sagt öllum okkar sérstöku sögu.

Líka þessa niðurníðslu sögu sem var ekki falleg en er samt stór kafli í okkar minningum.

  Ljósmyndari: Steingrímur K. Síldin er horfin, skreiðarhjallar og brotajárn komið í staðinn.

Munið að þessar myndir eru EIGN Ljósmyndasafns Siglufjarðar og það má alls EKKI bara taka þessar myndir í leyfisleysi og birta hvar sem er.

Hafið samband við Síldarminjasafnið: sild@sild.is eða í síma 467 16 04.

Og eins og áður eru textar við sumar af myndunum lánaðir frá Steingrími og öðrum sem hafa sent inn upplýsingar um myndirnar. Ég hef einnig lagfært allar myndirnar til þess að þær geri sig betur í birtingu á skjá.

Ég hef margar sögur að segja um þetta tímabil sem sumar hverjar eru vart prenthæfar, alskyns vitleysa sem tilheyrir erfiðu gelgjuskeði og tilraunum með áfengisneyslu sem byrjaði alltof snemma. En það tilheyrði þessum tíðaranda sem gilti þá og ég og margir af þeim sem eru fæddir í byrjun 60 eigum margar minningar frá þessum draugabæjar tíma sem tengjast ævintýrum sem gerast undir bryggjum, inni í brökkum og í verksmiðjum þar sem myrkraverk vorum framin um miðjan dag.

Hef sent og gefið frá mér margar sögur til persónu sem ég tel vera bestur í að endursegja og gera prenthæfan texta úr þessum sögum og vonandi fáið þið að sjá eitthvað af þessum sögum seinna. En auðvitað get ég ekki stillt mig og læði inn einni og annarri sögu.

En það er eins gott að við byrjum á verstu myndunum af þessari niðurníðslu og sem betur fer var Steingrímur á ferð og flugi eins og alltaf og tók myndir af þessu öllu saman. Í lokin koma svo fleiri myndir sem sýna þá breytingu sem hefur orðið á bænum þegar eldra bæjarskipulag var til og þann hluta var Kristfinnur Guðjónsson duglegur við að mynda. 

 Ljósmyndari:Kristfinnur Guðjónsson. Hafliðabryggja eftir hafískomu.

 Ljósmyndari: Ókunnur. Brú að Annlegginu á Siglufirði

Allt er horfið..........allar þessar bryggjur, síldarplön og verksmiðjur og íbúðarhúsnæði og verslanir sem áður stóðu á eyrinni skilja eftir sig opin auð sár í bæjarskipulaginu, en síðan má ekki gleyma að ýmislegt hefur komið í staðin og má þar sérstaklega nefna Síldarminjasafnið, Rauðkusvæðið og Sigló hótel við smábátahöfnina með sinn sérstaka Siglfirska stíl. 

Það skal einnig tekið fram að það er aðdáunarvert hversu margir hafa lagt mikinn tíma og pening í að endurreisa eldir hús og gefa þeim sinn forna glans og það er hrein unun að ganga um bæinn og sjá þessar jákvæðu breytingar í útlyti bygginga, garða og jafnvel í hugafari fólks.

Við erum svo heppin að t.d. eiga snillinga eins og hann Jón Steinar Ragnarsson sem svo sannarlega hefur sett lit á bærinn.

Snillingar bæjarins! Jón Steinar setur lit á bæinn

 Stórkostlegar breytingar hafa átt sér stað í kringum smábátahöfnina.

 Nokkrir sögufrægir bátar liggja norðan við Sunnubrakkan og takið eftir stærðinni á planinu fyrir framan Roaldsbrakkan.

 Bryggju leifar norðan við slippinn.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Unnið við niðurrif á gömlum síldarplönum og bryggjum 1980.

 Bæjarstarfsmennirnir Jón á Hóli og Stebbi Andrésar róa í bryggjubrakinu og draga í land staura og annað drasl.

 Ljósmyndari. Steingrímur Kristinsson. Antonsbraggi brenndur. Síðasti ábúandi var Ágúst Gíslason ( Gústi guðsmaður ) Stundum var bragginn líka nefndur Bæjarbragginn en hann stóð við hliðina á Skaftaplani.

 ljósmynd: Steingrimur K.

Sumarvinnustrákar í bæjarvinnu við að hreinsa upp í draugabænum. Sem betur fer var þegar á þessum tíma til framsýnt fólk sem sá til þess að það var ekki bara kveikt í öllu eða grafið suður á öskuhaugum. Fólk sem seinna stofnaði FÁUM (Félag áhugafólks um Minjasafn) sá til að ýmsu var bjargað og haldið til haga og bæjarfélagið réði til sín forleifafræðing sem hét Frosti Fífill og hann var svo séður að að hann áttaði sig á því að þeir sem vissu mest um hvað var hvar í öllum þessum brökkum sem voru að hruni komnir voru unglingar á mínum aldri.

Ég og nokkrir aðrir guttar voru um tíma aðstoðarmenn Frosta og við gátum sagt frá ýmsum fornminjum sem hægt var að bjarga.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Fiskúrgangsbifreið Hraðfrystihúss SR á Siglufirði að losa fiskúrgang í gilið vestan við Strákagöng árið 1979.

Guði sé lof hafa orðið miklar hugafarsbreytingar varðandi meðhöndlun sorps og úrgangs og það er ekki lengur fljótandi mannaskítur í smábátahöfninni eins og oft sást sumarið 1996 þegar ég gekk þar um með túrista.

Við skulum ekki gleyma að öll “suðureyrin” sem ég kalla þetta, er “landvinningar svæði” sem er byggt úr sorpi og fornminjum.

 Ljósmyndari:Steingrímur Kristinsson.
"
Morguninn sem togarinn Hafliði SI 2 sökk við Hafnarbryggjuna á Siglufirði, 9. janúar 1972. Þarna er verið að vinna við að ná togaranum upp, og tæma hann af sjó, en skemmdir urðu miklar, þar með vélar skipsins voru dæmdar ónýtar.

Sjópróf fóru fram á Siglufirði um aðdraganda þess að togarinn sökk. Raunar munu fróðir menn hafa verið búnir að aðvara umsjónarmenn togarans sem þarna hafði verið lagt um tíma, um að svona gæti farið, en því var ekki sinnt og því fór sem fór, en bilaður einstefnuloki á síðu togarans, loki sem tengdur var lensidælu átti þátt í óhappinu, því er togarann tók að halla af völdum mikils snjós sem hafði hlaðist upp í norðan stórhríð á bakborðshlið togarans, þá rann sjórinn óhindrað inn í vélarrúm togarans.
Afturhluti togarans náði botnfestu við bryggjuna og við það slitnuðu landfestar frá afturendanum. Búið var að dæla sjónum úr vélarúminu seinna um nóttina." SK.

 Ljósmyndari: Steingrímur K. Gamall lýsistankur dreginn burt og seldur í brotajárn eða sökkt til hafs ?

Stóri rauði lýsistankurinn sem stóð við Gránufélagshúsið var dregin inní syðri smábátahöfnina og þar stóð hann í minnst 10 ár.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Unnið við að rífa niður eignir Síldarverksmiðjuna Rauðku, þarna fyrir miðju er Gránuskorsteinninn. Grunnur Gránu er aðeins til vinstri og svo olíu og lýsistankar Rauðku.

Það var skemmtilegur og hættulegur leikur að klifra upp á þennan stromp í stiga sem var innan í strompinum. 

 Rauðkuverksmiðjan í niðurníðslu.

Í Rauðku höfðum við krakkarnir sett upp mikið af köðlum og var farið í Tarzanleiki með brotajárn og annað hættulegt drasl undir hverri sveiflu. Hér byrjar líka saga sem ég er kannski ekki beinlínis stoltur af í dag en hún er svolítið lýsandi fyrir hvernig ég gat hagað þér þá þessum tíma og ég skil alveg að ég hafi haft orðróm á mér um að vera vandræðaunglingur eins og ég sagði frá í fyrsta hluta þessa minningar göngutúrs. 

Þessi saga gerist vorið þegar ég er 15 ára, sama ár sem ég fór í ferðalag til Danmerkur með KS og ég var að klára samræmuprófin í níunda bekk og þessi saga hefur líka samband við að hafa kunnáttu um hvað var til inní öllum brökkum og verksmiðjum eftir margra ára leik í rústum þessa draugabæjar.
Á þessum tíma var ég mikið með eldri krökkum úr suðurbænum, þá sérstaklega Bjössa Jósefínu, Jóa Budda og Kidda Kristjáns og einnig voru norðurbæjarguttar í þessu gengi eins og Kiddi Steingríms og Stebbi Guggu og einnig Böddi Páls.

Nokkrir af þessu strákum voru byrjaðir á sjó og nú átti að fara í siglingu til Englands eða Þýskalands man ekki hvort og þá fengum við þá snilldarhugmynd að við myndum stela kopar sem var til í miklu magni í trékössum inní læstum hluta Rauðkuverksmiðjunar. Þetta var kopar frá rafmagnsköplum og fleiru úr vélahúsi verksmiðjunar.
Sjóararnir seldu koparinn og keyptu helling af áfengi og ég veit ekki hverjum af þeim datt þetta í hug en þeir keyptu bara 1 lítra flöskur af 75 % vodka og “Perno” (græn líkjör sykurleðja) sem átti að blanda í þennan hrikalega sterka vodka og þynna síðan út með vatni.

Þessi vitleysa byrjaði heima hjá Jóa í herberginu hans á neðri hæðinni á Laugarvegi 24, við sátum í ljótum IKEA plaststólum og drukkum þetta viðbjóðslega áfengi sem var stórhættulegt ungum en samt nokkuð reyndum drykkjudrengjum.
Jói Budda hafði keypt sér lítinn lásaboga sem leit út eins og skammbyssa og við vorum að gera grín af þessu og kalla þetta baunabyssu og teygjubyssu.
Jói tekur fram litla stálpílu og ætlar að sýna og sanna að það sé nú svakalegur kraftur í þessum lásaboga.

Hann miðar á hausinn á David Bowie sem brosti til okkar kynlaus og sætur á plakati sem hékk á innanverðri herbergishurðinni, Jói hitti Bowie í græna augað og síðan hvarf pílan í gegnum hurðina og síðan áfram í gengum hurðina á svefnherbergi Ásdísar og Budda, sem voru ekki heima sem betur fer og þegar við komum þangað inn sjáum við að pílan er hálf á kafi inní útsaumaðri Jesúmynd eða einhverju slíku sem sem hékk fyrir ofan rúmið.

Jói argar yfir sig skelkaður: “og hvernig á ég að útskýra þetta fyrir mömmu og pabba ? ” 

Drógum út píluna og héldum áfram að drekka þennan 75 % vodka og fórum seinna sama kvöld eða nótt heim til Bödda sem bjó í kjallaranum í einu Ríkishúsinu sem stendur ofan og norðan við kirkjuna.
Böddi hafið keypt alvöru lásaborga og vildi ólmur sína okkur kraftinn í þessu tryllitæki, stóðum úti í garðinum og hann miðaði á strompinn á húsinu hjá Marsebill gömlu sem stóð norðan við kirkjuna.
(Sjá mynd neðar í þessari grein)  Hann hitti ekki strompinn en pílan stóð í takinu og var þar sem einhverskonar loftnet í fleiri ár á eftir.

 Svona brotajárnshaugar voru algeng sjón á þessu tímabili.

Úr því að ég er byrjaður að segja frá þessari vitleysu þá er eins gott passa uppá að biðjast afsökunar fyrir að hafa kveikt í sófaborðinu heima hjá Jórunni Jóns bekkjasystur minni þegar ég var að sýna einhverjum hvað þetta væri nú sterkur vodki. Það kom stór blettur á borðið og Jón Sæm var víst ekki par hrifin af þessu uppátæki sem ég viðurkenndi aldrei. Fyrirgefðu elsku Jóa mín.
Síðan gerðist ýmislegt fleira sem er ekki prenthæft.

Það versta var að mitt í þessari tveggja vikna vitlausu var ég í samræmuprófum, við vorum einn af fyrstu árgöngunum sem fengu  A,B,C..... í einkunnarbókina sína og ég verð að viðurkenna að ég var ekki alveg “edrú” í sumum af þessum prófum.

Hitti Gunnar Rafn gamla skólastjórann minn á jólamarkaði í miðbæ Hafnarfjarðar í fyrra þegar ég var að vappa þarna um með bróður mínum og ég ætlaði að fara biðjast afsökunar á þessari hegðun minni en Gunnar varð að hlaupa á eftir barnabarni sem vildi stinga hann af í fólkhafinu sem var þarna en ég náði að hrópa á eftir honum:

Þakka þér fyrir að reka mig EKKI úr skólanum Gunnar Rafn

Sigurður Tómtmas bróðir: “Ha, varst þú aldrei rekinn úr skólanum "?

Nonni: “nei, ótrúlegt en satt......en þú, varst þú rekinn” ?

Siggi bróðir: “.....Eeee.......já reyndar.......tvisvar."

Gunnar Rafn er líklega ennþá alveg gáttaður á því að þrátt fyrir allt hafi eitthvað orðið úr þessum vitleysingum sem hann hitti .

 Slökkvilið bæjarins aðstoðar við að brenna niður gamla Einco húsið við enda Gránugötu. Mynd 2: Helgi Magg er samtímis að pæla í að kveikja líka í bensínstöðinni.

 Smábátahöfnin.

 Gránugatan eftir stórflóð.

 Tíminn og náttúran hjálpast að við eyðilegginguna.

 Naglar standa eftir þar sem borðin vantar og það merkilega við þessa mynd er að þarna liggur trillan hans afa míns Freyja við götótta bryggju.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Bæjarskrifstofa og Bókasafn Sigurfjarðar í byggingu.

Svona leit Ráðhúsið okkar úr í minnst 15-20 ár. Bókasafnið var löngu komið í notkun á neðstu hæðinni en ekkert var gert meira í hinum hæðunum lengi vel. Æskuvinur minn Kristján Kristjánsson (sonur Lilju og Kidda Rögg skipstjóra) skrifaði spennusögu sem kom út 1993 og hún heitir “Fjórða hæðin” og þessi saga hefur Siglufjörð sem fyrirmynd og í hans minningum voru alltaf fjórar hæðir á þessu húsi. Þannig var þetta í mínum minningum líka og kannski átti þetta upprunalega að verða fjögra hæða Ráðhús.
Hver veit ?



Ég og Kiddi brölluðum mikið saman og lifðum villimannalífi uppí fjalli eða niður í fjöru á sumrin og við gengum berfættir til þess að herða fæturna. Við æfðum Atlas styrktaræfingar í kjallaraherberginu heima hjá honum á Laugarveginum, lásum spennubækur um njósnara og reyndum eftir bestu getu að herma eftir teiknimyndabókar og kvikmyndahetjum sem voru vinsælar á þessum tíma.

Kiddi var foringi okkar suðurbæjargutta lengi vel og óvinir okkar kölluðu hann Kidda Manix eftir Max spæjara sem var aðalpersónan í  spæjaraþáttum sem voru í sjónvarpinu.

Óvinir Kidda sömdu líka níðvísu um okkar mikla og góða leiðtoga sem hljómaði einhvern veginn svona:

Kiddi er foringinn,
hleypur eins og andskotinn
inná klósetti að skíta.
rembist eins og andskotinn og rífur gat á rassgatið
Kiddi er foringinn að skíta.

Þetta er náttúrulega alveg ótrúlega lélegur skáldskapur og sýnir gáfnafarið á þessum andsk..... Brekkuguttum sem sömdu þessa vísu.

 Ljósmyndari: Gestur H Fanndal. Torgið í denn.

Horfin tími, horfin hús og horfnar bryggjur.

Að sjálfsögðu hafa ekki öll hús horfið á þessu tímabili, margt og mikið hvarf vegna skipulagsbreytinga og af annarri ástæðu en að síldin hafi hætt að láta sjá sig.

Það er samt skrítið að svo mikið sé horfið og það er erfitt fyrir okkur að sjá þetta fyrir okkur eins og þetta var án minninga sem við sækjum í þennan ljósmyndafjársjóð sem við eigum í Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Mig hefur lengi dreymt um að það verið sett upp sögugöngutúra skilti út um allan bæ, með ljósmyndum og möguleika að sækja upplýsingar í máli og myndum gegnum snjallsímaforrit á ólíkum tungumálum. Bæjarbúar og þeirra gestir geta þá farið í eigin sögutúra og túristar geta notið sögunnar á skemmtilegan hátt til viðbótar við heimsókn í Síldarminjasagnið.

Eina utanhússkiltið sem sýnir svart á hvítu hversu stórar og miklar allar þessar bryggjur og byggingar voru er það skilti sem er fyrir utan Bátahúsið.

Spurði Örlyg um daginn hvort að einhver hefði reiknað út samanlagða fermetrafjöldann á öllum bryggjum bæjarins. En það voru ekki til neinar tölur um það en hinsvegar hafði hann og aðrir reiknað út að ef maður gengi frá syðstu bryggjunum og alla leið á bryggjur sem til voru norðan við Öldubrjót og fylgdi bryggjukantinum alla leiðina að þá yrði þetta um 5,5 km til 6,5 km göngutúr.

Hér að lokum skulum við kíkja á myndir sem sýna okkur ýmislegt sem er horfið.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Skátar í skrúðgöngu á leið til kirkju.

Á þessari ljósmynd má sjá fjöldann allan af horfnum húsum, meðal annar hið glæsilega Blöndalshús sem stóð við Lækjargötuna og húsþakið sem lásabogapílan stóð í er í forgrunninum.

 Ljósmyndari:Gestur H Fanndal. Kaupfélagshús rifið.

Þegar ég hóf búskap með fyrrverandi konunni minni, þá byrjuðum við stórt og leigðum átta herbergja íbúð á þriðju hæðinni í þessu húsi. 

  Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Kroppað frá mynd G-2267 -- Bakki á Siglufirði og nágrenni.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Shell bryggjan.

 Ljósmynd: Steingrimur K. Bryggjan fyrir framan söltunarstöð Skafta á Nöf. 

Takið eftir stærðinni á planinu fyrir innan bryggjuna þar sem faðir minn stendur og spjallar við Sigga Konn og það sést í flottu vespuna hans pabba í bakgrunninum. Veit ekki hvaða unglingar eru þarna í göngutúr en mér finnst annar þeirra vera mjög svo líkur Jónasi Skúlasyni.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Kroppað frá mynd nr. G-2627. Stóra húsið er Neðri- Skúta. Til vinstri ( hvíta húsið ) var kallað skátahúsið. SK.

Takið einnig eftir steinsteyptum prömmum sem voru lengi vel fljótandi virki í kajaka stríðum okkar suðurbæjargutta.

 Brakkinn í miðjunni var alltaf kallaður langi Grái og var lengi vel aðalbækistöð suðurbæjargutta sem sigldu á bjóðum undir bryggjunum.

 Ríkisbryggjur og fl.

Og að lokum mynd af því sem hvarf endanlega á liðnu ári.

 Ljósmyndari: Ókunnur. Slippurinn á Siglufirði - ljósmynd: Ernst Kobbelt ?

Lifið heil 
Nonni Björgvins

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson

Myndir: JÓB, og aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Steingrími Kristinnsyni, Ljósmyndasafni Siglufjarðar og fleirum.
P.s. Ég tók mér það bessaleyfi að " laga og tjúnna aðeins upp " allar myndirnar svo að þær  geri sig betur við birtingu á skjá. 

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 2 hluti, KONUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa.   

Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !

Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir

Aðrar nýlegar greinar:

Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE (Myndir og myndband)

GUÐ ER FÍFL !......... og hann býr greinilega í REYKJAVÍK ! Sunnudagspistill.

Gamanmál! Bæjarrevía, Á BÆJARLÍNUNNI....Elsku Hrólfur.

Skortur á frjálsum óháðum fjölmiðlum á landsbyggðinni er stórhættulegt lýðræðisvandamál !


Athugasemdir

20.apríl 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst