Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !

Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR ! Í þessu 6 hluta er tekin saman myndasaga um fólk sem við munum öll eftir, manneskjur sem eru/voru

Fréttir

Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !

Óskar Halldórsson síldarkóngur á Sigló
Óskar Halldórsson síldarkóngur á Sigló

Í þessu 6 hluta er tekin saman myndasaga um fólk sem við munum öll eftir, manneskjur sem eru/voru litríkir karakterar og þeir/þær sáust og heyrðust í firðinum fagra á ólíkan hátt.

Að mestu leyti læt ég myndirnar tala sjálfar og þær minningar sem þú færð þegar þú sérð þessar ljósmyndir, persónur sem við öll þekkjum, könnumst við, þekktum gegnum persónuleg kynni eða í sögum sem við höfum heyrt.

Ég segi ykkur nokkrar sögur um mín kynni af sumum af þessu fólki sem ég kynntist eða bæti við texta frá öðrum og meiningin er ekki að hæðast eða niðurlæga með þessum sögum heldur bara minnast tíðarandans, vinnu, hæfileika og persónuleika þessa dásamlega fólks.

Mér hefur alltaf þótt það einkenna Siglfirðinga að þeir séu oft á tíðum mjög svo fordómalaust fólk og hafa ætíð sýnt fólki umburðarlyndi og þolinmæði þótt að það hafi á einhvern hátt valið að lifa öðruvísi lífi eða hafa sérkennilegar skoðanir á lífinu og tilverunni.

Held að þetta komi frá þeim tíma þar sem það var þörf fyrir alla og svo framalega sem fólk skilaði sínu í vinnu þá var öllum sama hvort þú værir “pínu öðruvísi”.

Þessi fjörður og síldin og allt í kringum hana dró til sín allskonar snillinga sem þörf var á í veglausum firði, mikil verðmæti voru í húfi og hlutirnir þurftu oftast að gerast STRAX.
Ekki hægt að bíða eftir varahlutum og sérfræðingum að sunnan.

Sumir myndu eflaust segja að þeir/þær voru margir hverjir “kynlegir kvistar” en þegar ég hugsa til baka þá finnst mér það ekki vera rétt, þetta fólk var bara hluti af bæjarlífinu og þeim hversdagsleika sem maður lifði í daglega.  

Byrjum á frægasta karakternum sem er sagður hafa verið fyrirmynd Íslands Bessa í Guðsgjafaþulu Halldórs Kiljan Laxness, sjálfur síldarkóngurinn Óskar Halldórsson.

Þetta er líklega frægasta ljósmyndin í Ljósmyndasafni Siglufjarðar og ég minni enn og aftur á að:  

Þessar myndir eru EIGN Ljósmyndasafns Siglufjarðar og það má alls EKKI bara taka þessar myndir í leyfisleysi og birta hvar sem er.
Hafið samband við Síldarminjasafnið: sild@sild.is eða í síma 467 16 04.

Og eins og áður eru textar við sumar af myndunum lánaðir frá Steingrími og öðrum sem hafa sent inn upplýsingar um myndirnar. Ég hef einnig lagfært allar myndirnar til þess að þær geri sig betur í birtingu á skjá.

Og auðvitað er þetta bara smá sýnishorn af öllu þeim fjölda manns sem okkur þótti vænt um og höfum gaman af að minnast, en bætið gjarna við í "athugunarsemda kerfið" hér lengst niðri á síðunni sögum og ábendingum sem verður þá skemmtileg viðbót við þessa grein.

Ég bendi einnig á hér neðar á eldri heimasíðuslóðir frá bæði Steingrími og hinum mikla sögusnillingi Leó Óla.
En þar er mikið af myndum og sögum af ýmsu fólki og atburðum tengdum Siglufirði. 

Og fyrir þá sem ekki vita af þessari opinberu Facebookgrúppu: Siglfirðingar, fyrr og nú - Sögur og myndir.  
Allir geta skráð sig sem meðlimir þar. 

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
 
Óskar Halldórsson, síldarsaltandi.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Regína Guðlaugsóttir leikfimikennari. Regína er í dag 88 ára og eldhress og hún hefur ekkert breyst, hún hneigir sig og þakkar fyrir sig.......
nei...nei....... það eru við sem eigum að þakkar þér.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Barði Ágústsson og Ægir Jóakimsson.

Þessa tvo sá maður daglega á tali í Kaupfélagsskotinu eða í Bankaskotinu, það fór eftir verðri. Dásamlegir karakterar báðir tveir og ég vann sumarpart með Barða í pönnunum í Frystihúsinu. Ótrúlega gaman.

Nýkominn í bæinn í lok maí 1996, er að fara að vinna sem ferðamálafulltrúi suður í Roaldsbrakka hjá Örlygi.
Ég er í minningargöngutúr á Aðalgötunni og stend þungt hugsi og ég sé ekki að Barði kemur gangandi að mér framhallandi með hendurnar fyrir aftan bak.
Hann stoppar og skoðar mig eins og ég sé farafugl sem er nýlentur.

Barði: Ert þú Hrímnisdrengurinn ?

Nonni: Nei, Barði ég er sonur hans, hvað þekkirðu mig ekki, var að vinna með þér í pönnunum einu sinni.

Ég rétt fram höndina til að heilsa og handleggurinn á mér hvarf hálfur í þessa risastóru stúfara lúku, handartakið var svo þétt að mér varð illt í hendinni.

Barði: já..... alveg rétt, Jón, já....... þú ert að fara að vinna með þessa túr-hesta...... já, já það verður víst einhver að tala við þessi grey,
en ég skil bara ekki af hverju maður þarf að ráða útlending í það ?????

hann var að meina mig ) ..........og hvar áttu að gera það ? 

Nonni: Suður í Síldarminjasafni.

Barði: Huff....ruslahaugnum hans Örlygs......tilhvers að vera að safna þessu drasli.....af hverju ekki bara að kveikja í þessu !

Meira um þessa tvo og marga aðra á gamla vefnum hjá Steingrími Kristins: Steingrímur munnmælasögur og myndir 

Síðan er líka mikil sögufjársjóður á Bloggsíðum Leós Óla: Bloggheimar Leós

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Egill Stefánsson Melsted slökkviliðsstjóri og stofnandi Egils Síldar.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Guðný Fanndal hjúkrunarkona, Sigurður Fanndal og Gestur Fanndal

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Ásgrímur Einarsson  ( Bóbó )
Það heyrðist alltaf hæðst og mest í Bóbó á öllum KS heimaleikjum á malarvellinum. 

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Frá vinstri : Helga Guðmundsdóttir , Guðrún Rögnvaldsdóttir, og svo dóttir Guðrúnar og Ragnars Jóhannessonar, Hekla Ragnarsdóttir
.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
María Jónsdóttir og Jón Sigurbjörnsson. (Jón á Hóli) 

Ég var svo lánsamur að hafa fengið að vinna með Jóni á Hóli og mörgum öðrum frábærum og skemmtilegum köllum sem voru að vinna hjá bænum. Ég var næstum öll sumur í vinnu þar fyrir utan stutt stopp í Frystihúsinu, Sigló síld og hjá Hitaveitunni sumarpart.
Ég þoldi ekki að vera inni á sumrin og sú reynsla sem ég fékk í bæjarvinnunni var ómetanleg. Ég var handlangari hjá Jóni og Ella Gústa í vatninu líka og seinna var mér á einhvern óskiljanlegan hátt treyst fyrir steypuvél og traktorum og gröfum 15 og 16 ára.

Þeir Jón og Elli voru svo klárir og með allt í hausnum, það brást ekki þegar þeir sögðu:
Strákar grafið þið hér......gerðu kross með tánum og það brást ekki að við komum beint niður á brunnslok eða krana. Ótrúlegt.

Eitt sumar rétt fyrir hádegi var ég að aðstoða Jón og Stebba Andrésar með klóakstíflu í ónefndri götu, mjög erfið stífla og Jón var orðinn pirraður á þessu og það er komin hádegismatartími, ekkert gekk með sníillinn góða og Jón er kominn ofan í brunninn með hanska sem náðu uppá axlir.

Allt í einu losnar stíflan og bunnurinn fyllist af grámyglulegum “dömubindum”,  það var ekki oft sem þessum glaðlynda manni brá skapi, en nú bölvaði hann öllu í sand og ösku.
Tekur upp eitt dömubindi og kíkir í kringum sig í götunni og segir:
 Já.......hann ????? á fullt af táningastúlkum, veður síðan á bússum og veifandi bindinu í hendinni og bara fer inn án þess að banka og alla leið inní eldhús þar sem "stúlknafjölskyldan" sat að snæðingi og æpir:

SVONA SETUR MAÐUR EKKI Í KLÓSETTIД snérist á hæl og kom út brosandi og sagði: 

Strákar við skulum drulla okkur í mat, þið komið svo tilbaka kl tvö.  

Sumarið eftir þegar aðrir handlangarar voru að hjálpa Jóni með svipaða stíflu á Laugarveginum og loksins þegar þetta lossnaði þá fylltist brunnurinn af dömubindum og SMOKKUM. Þá segir sagan að Jón hafi sagt:

"Já......strákar...... það er mikið ri........ (eitthvað) .....á Laugarveginum núna."

Sjá meira um Ella Gústa og hans fólk hér: Stórt ættarmót: GÚSTARNIR!

  Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Magnús Eðvarðsson (Maggi á Ásnum)

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

"Þetta er Aage Nörgaard, verkamaður við virki sitt Norðurgarður á Siglufirði, hús hans í bakgrunni.

Hús sem hann kveikti í þegar hann flutti heim til Danmerkur, en bænum var boðið að kaupa eignina, sem var afþakkað.

Þessi maður var dugnaðarforkur, vann hjá SR, seldi hænuegg, kjúklinga, ýmsa garðávexti meðal annars. Þrátt fyrir að hafa haft gervihönd á hægri handlegg lét Aage ekkert aftra sér.
Eldri Siglfirðingar minnast þess, þegar þeir voru guttar og hnupluðu sér rófum í garði Nörgaard, að þeir hefðu aldrei smakkað betri rófur. Eins minnast þess margir þegar mæður þeirra keypt egg hjá karlinum og hann hengdi þá fötuna með eggjunum á krókinn á gervihendinni"

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. 
Eivor Jónsson (gift Páli Jónssyni móðir Karls Eskils Pálssonar o.fl. ) og Gísli Þorsteinsson á góðri stund á hótel Höfn. Eivor er "svensk" eins og ég.

Gísli Þorsteins var var lengi vel bæjarverkstjóri á þeim tíma sem ég var í minni sumarvinnu þar og seinna tók Hreinn Júlíusson við og þar á eftir Guðni Maggi Sölvason. 

Þetta er nú ekki starf fyrir hvern sem er því að álagið er ekkert eðlilegt á stuttum sumrum þar sem allt á að gerast. Á þessum tíma var verið að skipta um jarðveg og í leiðinni allar leiðslur í götum sem voru hækkaðar eða lækkaðar og síðan bæði malbikaðar eða steinsteyptar.

Allt efni var tekið suður í Hólsá á því svæði sem nýi gólfvöllurinn er staðsettur núna, þessu svæði var gjörsamlega misþyrmt ár eftir ár en sem betur fer voru til persónur eins og Skarphéðin Guðmundsson ýtustjóri sem fórnaði matartímanum sínum í að reyna að laga þetta aðeins.

Hraðinn á framkvæmdunum var slíkur að stundum þurfti maður að búa til gröfustjóra úr 15 ára guttum eins og mér. Man að eitt sumarið er Guðni Maggi settur í það að kenna mér á risastóra Braut gröfu með engu hjóladrifi sem notuð var til að grafa upp götuefni á vörubíla. Guðni gaf sér um 45 mínútur í þetta og svo var ég bara skilin eftir þarna og látinn æfa mig smástund á þessar 10 stangir sem hreyfðu skóflu sem tók minnst 2 tonn í einu.
Sló sundur einn eða tvo vörubílapalla áður en ég náði tökum á þessu. Hef aldrei verið eins hræddur á ævinni eins og þegar ég var í þessari grófu upp á háum malarhaugum suður í Hólsá.

Gísli var mjög góður verkstjóri en stundum alveg svakalega stressaður og Biggi Björns sem var lengi vel bifvéla og tækja viðgerðarmaður í bæjarskemmunni á Norðurgötunni sagði mér að Gísli væri alveg hrikalegur kúplinga og bremsu níðingur, alltaf með annan fóti á þessum peddölum og það færi minnst einn diskur og margir bremsuborðar á hverju sumri.

Ég og Björn Hreiðar Guðmundsson (Bjössi Jósefínu) voru/erum miklir vinir og unnum saman lengi hjá bænum, Bjössi var á stórri gröfu sem var mikið notuð í að moka möl í steypuvél sem ég stjórnaði lengi vel. Við hittumst alltaf heima á tröppunum hjá honum kortér í 7 og tókum eina sígó og fengum kaffi hjá Jósefínu áður en við fórum á gröfunni í vinnuna.

Einn morgun sjáum við Gísla á fleygiferð koma út heima hjá sér á Laugarveginum og fara inní gulan pickup bíl sem stóð á bílastæði norðan við húsið. Brumm.....brumm...... og kúplingaróhljóð og svo kom í ljós að bíllinn var í bakkgír og  bíllinn hvarf niður bakkann og endaði hálfur inní garði hjá Hannesi Bald á Hafnartúni 2.

Gísli er alveg fjúkandi reyður út í þennan andsk...bíl og skipar Bjössa að draga sig upp, því hann vildi ekki bakka í gegnum garðinn hjá Maddý og Höddu. Þetta tókst ekki vel því grafan spólaði bara í blautri drullu og rann síðan líka niður á sama stað og á gula bílinn hans Gísla.
Svo var sóttur veghefill sem var þarna nálægt en hann fór líka niður fyrir bakkann á gröfuna hans Bjössa og síðan var Gísla nóg boðið og lét sækja jarðýtu sem dró upp allt draslið.

  Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Brynja Gestsdóttir (vann lengi í Sundhöll Siglufjarðar)

Yndisleg kona og bæjarstarfsmaður sem ég og margir margir aðrir hittu daglega í sundlauginni.

Gæti sagt ykkur endalausar sögur úr bæjarvinnunni, þarna voru margir af skemmtilegustu karakterum fjarðarins í vinnu og seinna líklega sama sumar vorum við að ljúka við að steypa upp 8 köntuð kjarnorkubyrgi yfir hitaveitudælurnar uppí Skútudal á föstudagseftirmiðdegi og stóri Link-Belt kraninn sem Steingrímur átti í kompaníi með Guðmundi Skarphéðinssyni um tíma og seinna Birkir og Salli var notaður eins og vanalega.

Þegar búið var að steypa var kraninn notaður í að lyfta tveimur ekkert svo stórum lokum á brunn þarna rétt hjá. Seinna lokið rann af brunninum og við það kipptist kraninn niður og malarundurstaðan gaf sig og kraninn fer á hliðina og lendir rétt hjá brunninum. Engin veruleg slys urðu á fólki sem betur fer. Birkir náði að henda sér út úr stýrishúsinu sem fór á kaf í jörðina og Jónas í Rauðku sem var verkstjóri hitaveitunnar meiddi sig aðeins þegar einhver henti honum hreinlega niður af brunninum.

 Link-Belt kraninn frægi. 

Seinnipart sama dag vildu Gísli, Jón á Hóli og Stebbi gamli skeppa suður í Skútudal og kíkja á þetta slys. Allir farnir heim og enginn í skemmunni og guli bíllinn hans Gísla er inni á verkstæði. Gísli ákveður að taka hann, Biggi og Ernst Kóbelt voru alltaf svo snöggir að laga allt sem kom þarna inn.

Ferðin gekk vel suður og uppeftir en á leiðinni niður Skútudalinn komst Gísli af því af hverju bíllinn var inná verkstæði. Hann var nefnilega bremsulaus og þessir þrír gömlu bæjarvinnu refir náðu að henda sér út úr bílnum áður en hann endaði ofan í skurði. Enginn slasaðist og Gísli fer ofan í skurðinn og opnar bílinn til þess að kalla á hjálp í gegnum talstöðina.

Gísli: Hvar í andsk...... er talstöðin ????

Jón á Hóli: Ertu að meina þetta ???......... Þá hafði Jón í fáti sínu gripið í talstöðina til þess að halda sér í eitthvað og rifið hana með sér þegar hann hoppaði út úr bílnum.

Þeir þurftu síðan að ganga heim í rengingarsúld og kulda og var bjargað af einhverjum bæjarbúa sem var á rúntinum suður við Hólsárbrú.

Jæja finnst ég er byrjaður á þessum sögum þá fáið þið tvær stuttar í viðbót.

Seinna sama sumar er mér treyst fyrir Zetor traktor með loftpressu aftaná og stórri oddhvassri skúffu að framan.  Er eitthvað að flýta mér úr kaffipásu niður við bæjarskemmuna og bakka að eins of hratt og fljótt og gleymi skúffunni þegar ég bakka og beygi.

Heyri svakalegt óhljóð og þegar ég lýt fram sé ég mér til mikillar skelfingar að ég hef skorið upp allt afturbrettið á rauðum Ford Tánus station bíl. 

Þetta leit út eins og ég hefði verið að opna sardínudós með traktor. 

“GUÐ MINN ALMÁTTUGUR.......... ÆPI ÉG YFIR MIG SKELKAÐUR............ÞETTA ER BÍLLINN HANS BIGGA BJÖRNS ! “

Þetta gat ekki verið verra því ég var ástfangin upp fyrir haus í Dísu dóttur hans og ég man að ég var bara næstum farinn að gráta, líf mitt var búið á þessu augnabliki og ég sá fyrir mér að ég yrði hreinlega að flytja til Ólafsfjarðar áður en Lágheiðinni yrði lokað fyrir veturinn.

Fór skjálfandi af hræðslu inn til að segja Bigga “verðandi tengdaföður mínum” frá þessu slysi. 

Biggi var nú alltaf með einhvern grallarasvip alla daga, en núna gat ég ekki lesið neitt úr andlitinu á honum og við fórum út að skoða þetta.

Biggi: Þarna varstu nú heppinn Jón Ólafur.......þetta bretti var ónýtt og ég var að panta nýtt að sunnan í síðustu viku.....ha, ha......svo klappaði hann mér bara á öxlina og fór aftur inn að laga bílana hans Gísla Þorsteins.

Dísa komst síðan fljótlega að því hverskonar vitleysingur ég var/er og náði sér í betra mannsefni inná Ólafsfirði, Bigga Björns til mikillar ánægju sem gaf fullt af fallegum framtíða barnabörnum.

Ég hefði aldrei nennt að búa til svona mörg börn. 

Nokkrum vikum seinna tókst mér líka að keyra á Löduna hans Alla Mó á skrítnum vélknúnum hjólbörum sem notaðar voru við steypuvinnu í Grundargötunni. En það var líka fyrirgefið, Alli var svo góðhjartaður maður.

 

"Stofnandi Hvítasunnukirkjunnar Zíon var Sigurlaug Björnsdóttir á Siglufirði. Hún frelsaðist 1922 í Stavanger í Noregi, kom síðan heim og hóf starf hér á Siglufirði.

Sigurlaug keypti húsið Grundargötu 7a árið 1946, nefndi það Zíon og hóf barnastarf af fullum krafti ásamt því að halda samkomur fyrir fullorðna. Alla tíð síðan hefur þetta hús verið notað í þjónustu Drottins.

Einnig tóku þátt í starfinu frá fyrstu árum þær Þórunn Gunnarsdóttir og Elín Jónasdóttir. Sigurlaug Kristinsdóttir og Ásgrímur Stefánsson störfuðu í Zíon frá fyrrihluta árs 1969 til haustsins 1986 eða í samfleytt 17 1/2 ár. Þau héldu úti blómlegu barnastarfi í hverri viku og voru rómaðir saumafundirnir hennar Sigurlaugar. Einnig voru þau með samkomur fyrir fullorðna vikulega."

Upplýsingartexti lánaður frá:  http://nat.is/Kirkjur/

 Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. 
ZÍÓN við Grundagötu 7 A

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Björn Þórðarson og Jósafat Sigurðsson, fyrir utan fiskbúð Jósa og Bödda.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Hin mikli öðlingur Óskar Sveinsson átti hænsnabúið suður við Leiksála sem fór í snjóflóðinu 1973, konan hans Elín vann líka mikið við starfsemi Zíon.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Erlendur Jónsson, Elli í Leyningi. Yndislegur maður og stórfenglegur karakter.

"Hmm, Steingrímur var greinilega ekkert mikið að pæla í bakgrunninum hér áður fyrr.........myndin er greinilega tekin á kaffistofunni á einhverjum karlavinnustað"

 Ljósmyndari:Ókunnur. Aage Schöth lyfsali, eiginkona og sonur.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Margrét Hjördís Pálsdóttir og Birgir Runólfsson ásamt börnum sínum : Ölmu, Elíngunni ( Ellý ), Runólfi, Páli, Birni, Þormóði, Þorsteini og Filippusi 

 Ljósmyndari: Steingrímur K.
"Rauða Myllan" aðalbækistöðvar Bigga Run við Norðurgötuna.

Kynntist þessum vöruflutninga bransa af eigin reynslu gegnum föður minn sem var bílstjóri hjá Sigga Hilmars á tímabili en hann tók yfir bílana frá föður sínum. Pabbi keyrði einnig fyrir Hilmar frá Sleitustöðum. Man eftir hrikalegum 12 tíma túr á heimleið með pabba frá Reykjavík þegar ég var að fara í jólafrí frá námi á laugarvatni. 

Brjálað veður fyrir norðan og við komuistum ekki yfir Skriðurnar vegna hálku, runnum afturábak mörgum sinnum, á með keðjur á öll dekk og síðan bara gefið í frá Slysavarnarskýlinu og þetta hafðist að lokum.

Ber mikla virðingu fyrir þessu fólki sem var í þessum bransa dag og nótt og fluttu okkur vörur og varahluti í vegleysu og vitlausu verðri. 

 Anna , Bryndís og Óli Blöndal. (fann enga mynd af þessari Báru)

  

Texti: Björn Birgisson, skemmtilegur snillingur sem við söknum mikið.

Textamynd frá Léó Óla. Sjoppan 

Lagið á Youtube

 Ljósmyndari: Kristfinnur. Jóhannes Þórðarson ljúfasta lögga Íslands.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson
Stefán Friðriksson (lögregluþjónn) heldur á dóttur sinni Guðrúnu (fædd 1963) undir skírn. Prestur er séra Ragnar Fjalar Lárusson.

 Ólafur læknir og Jóhann Möller blaðamaður skrifar allt niður í bakgrunninum.

 Ljósmyndari: Ókunnur.  Ragnheiður Bachmann ung við dyr Apóteks Siglufjarðar.

Margar kynslóðir “eldri barna í dag” þekkja þessa skólahjúkku frá ljósatímum í barnaskólanum. Mér fannst þetta pest og pína að þurfa að sitja kjur svona lengi og það var þurrt og vont loft þarna í þessum litla ljósasal og man að við strákarnir smygluðum inn Ópal í nærbuxunum til þess að lifa þetta af:

Ragna bankar á gluggann á litla búrinu sem hún sat í og kallar annars lagið:

Snúa......vinstri........snúa hægri.....bak o.s.v.  tvisar í viku. Úff

það versta var að hún Ragna mín sagði við mig 9 ára gamlan:
Jón Ólafur ertu ekki í ullarnærfötum drengur.......ég þarf að ræða þetta við hana ömmu þína.

Ég get svarið það að Unnur Möller var komin suður á Hafnartún 6 sama kvöld með ullarnærföt. Ég hafði ekkert um þetta að segja á meðan amma var þarna og mamma vissi náttúrulega að hún yrði nú að standa sig sem móðir og ekki gat hún sagt á móti heilögum barnasérfræðingum eins og Rögnu Bachmann og ömmu Nunnu.

Ég æpti og öskraði: mamma.....þvoðu mér heldur upp úr klór og skrúbbaðu mig líka með vírbursta.....hjálp.....

 Guðmundur Góði hin mikli "boheme" og öðlingur sem gaf barnaskólanum þennan ljósalampa. 

 Óskar Garibaldar okkar stóri verkalýðsleiðtogi og eilífur óvinur alls óréttlætis.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Elenora Þorkelsdóttir, Jóninna Sveinsdóttir ljósmóðir og Þorfinna Sigfúsdóttir.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Ólafur Ragnarsson, fréttamaður RÚV.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Jón Jóhannsson, Aage Johansen, Jóhann Ísaksson.

Johansen þvingaðist rétt eins og ég að fara í ullarnærföt áður en hann fór í kafarabúninginn en við eigum fleira sameiginlegt en það er að vera svolítið “málhaltir”.
Johansen var danskur og kom sem ungur maður til Siglufjarðar hann hafði það á móti sér að tala íslensku með sterkum dönskuhreim og eftir sem árin liðu, dönsku með íslenskum hreim.

Sagt er að þegar lítil hópur af dönskum “múrsteina múrurum” sem klifruðu í stóra Ríkisverksmiðju strompinum á tréklossum við sínar viðgerðarvinnu sem tók nokkra mánuði komu til Sigló. Þá ætlaði Johansen aðeins að spjalla við sína kæru landsmenn.  Hann kynnti sig og þeir horfðu á hann forviða og skildu ekki neitt og sögðu svo: 

Er du færöing ?

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Hjónin Matthías Jóhannsson og Jóna Pétursdóttir í sjoppunni við Aðalgötuna lengst til hægri sést í Kristján son þeirra held ég.
(Kristjan Johann Matthíasson: þetta er ekki ég, þetta er Halldór Kristján Jónsson sonur Elsu systir)

 Ljósmyndari:  Kristfinnur Guðjónsson. Jón Jóhannsson netagerðarmeistari.

Man vel efir þessum mikla netagerðarsnillingi og ljúfari mann var vart hægt að finna í firðinum nema kannski Guðmund Góða, við krakkarnir vorum stundum að herma eftir hans skrítna göngulagi sem var svolítið Chaplins legt en við vissum ekki þá að hann hafði misst allar sína tær í vosbúð og vondri vist sem barn hjá slæmu fólki sem hann var settur í fóstur hjá vegna fátæktar.

Það var hans eina synd....... að vera fátækt barn.

 Ljósmyndari: Ólafur Thórarensen. Bræðurnir Ólafur Thorarensen og Oddur Thorarensen.

 Þennan ljúfling þarf ekkert að kynna.

Hannes Garðarsson, .......Hannes Bególín, ........Hannes Boy....... 

 það þar ekkert að kynna þennan fræga Guðsmann heldur. Gústi Guðsmaður heldur kröftuga ræðu á Torginu.

Það er ánægjulegt að vita að Séra Sigurður Ægisson sé að skrifa bók um þennan merkilega mann og mig hlakkar mikið til að lesa þessi skrif frá okkar indæla sóknarpresti.

Hér er hægt að lesa ýmislegt um Gústa á heimasíður Sigurðar: Siglfirðingur, Gústi Guðsmaður. 

Sjá einnig stutta kvikmynd hjá Síldarminjasafninu hér: Gústi Guðsmaður

 Og að lokum margir þekktir sundkappar og karakterar frá Siglufirði.

Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Sundlaug Siglufjarðar, vígsla, talið frá vinstri neðri röð : Snorri Jónsson, Jóhannes Jónsson, Helgi Sveinsson, Bragi Magnússon, Jósef Flóventsson, Helgi Hallsson. Frá vinstri afari röð : Herning Bjarnason, Heiðar Pétursson, Skarphéðinn Guðmundsson
( Heddi ) Arnold Bjarnason, Vigfús Guðbrandsson og Jón Hallsson.

 Lifið heil 
Nonni Björgvins

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson

Myndir: JÓB, og aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Steingrími Kristinnsyni, Ljósmyndasafni Siglufjarðar og fleirum.
P.s. Ég tók mér það bessaleyfi að " laga og tjúnna aðeins upp " allar myndirnar svo að þær  geri sig betur við birtingu á skjá. 

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 2 hluti, KONUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKI

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa. 


Athugasemdir

28.mars 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst